Fangelsi hjartans og Hjólfar hugans

Frelsi er eitthvað sem við öll elskum. Frelsi til að ferðast, frelsi til að trúa, frelsi til að kjósa, frelsi til að eiga okkar eigið. Við viljum vera frjáls og við viljum ekki láta hefta okkur í neinu.

Við þolum ekki þegar aðrir binda okkur á klafa og þrengja að okkur. Við þolum ekki þegar við erum blekkt til að veita málstað brautargengi í  stjórnmálum og vera lítilsvirt með sviknum loforðum. Við trúum öll á frelsi og heiður.

Lífið er samt flókið – ekki lífið sjálft – heldur líf í nútíma samfélagi. Við höfum skyldum að gegna. Við þurfum að sinna okkar störfum. Við þurfum að standa okkar pligt og sinna fjölda verka sem af okkur er vænst.

Kannastu við hve sárt það er fyrir barnið þitt ef þú hefur ekki efni á að skrá það í íþrótta æfingar eða önnur utanskóla félagsstörf? Hvað þá ef ekki er hægt að kaupa móðins íþróttagalla.

Pressan úr öllum áttum er gríðarleg. Pressan á konur á stórum starfsstöðvum er að eyða stórfé í réttu fötin til að falla í hópinn. Geturðu ímyndað þér pressuna á karlinn, ef félagarnir eiga jeppa og fara á rjúpu á haustin? Hann hefur kannski engan áhuga á rjúpu.  Tekur samt lán fyrir jeppa og fær sér byssuleyfi.

Við erum félagsdýr og við látum undan jafningjaþrýstingi samfélagsins, hvort sem okkur finnst það sanngjarnt eða ekki. Hvort það er vegna barnanna okkar, til að auðvelda starfsframann eða einfalda félagslífið, þá tökum við þátt. Mikil spenna hlýst af og þrengir að frelsi. Sumt ófrelsi kjósum við.

Oft er talað um fangelsi hugans í sálfræði. Þegar hugurinn er fastur í hjólfari. Reynslan í Ferlinu er að nær væri að segja fangelsi hjartans, því oft eru tilfinningar og tilfinningaviðbrögð föst í okkur og heftandi. Flestir kannast við að hafa reiðst vini eða maka vegna einhvers sem í raun kveikti gamlar óuppgerðar – jafnvel duldar – tilfinningaminningar.

Fangelsi hjartans er rammgert því við erum óvön að varpa spegli á eigin tilfinningar og spyrja réttu spurninganna. Eins er með hjólfar hugans. Í Ferlinu er ekki til fangelsi hugans, því hugurinn er á sífelldri hreyfingu og auðvelt er að kenna honum nýjar, ferskari, hugsanir. Oft festum við þó hugarfar í vissu hjólfari, og stundum kyrfilega í holu. Allir út að ýta!

Hjólfar hugans merkir einmitt þetta: Við erum sjálf hjólfarið. Til að koma huganum upp úr festu þarf oft að ýta við honum.

Oft hikar fólk við að rísa upp til betra lífs og viðheldur þægindahring. Ég hef varla tölu á fólki sem rætt hefur við mig um Ferlið, sér hvaða hugsanir geta ýtt sér af stað úr vanlíðan til andlegs frelsis – en þorir ekki upp úr hjólfari vanans. Þess vegna segir sálfræðin „fangelsi hugans“.

Til að vilja breytast – og verða kraftmikil, skapandi, lífsglöð og frjáls sál – þarftu að vilja upp úr hjólfari hugans og þora að brjóta fangelsi hjartans.

 

 

This entry was posted in Ferli hins jákvæða vilja and tagged , , , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.