Sáttmálar og réttlæti

Hugleiðing um hvað sé sáttmáli, hvernig réttlæti sé skilgreint og munurinn á Manneskju og Mannveru.

img-coll-0511Kafli 20 í Annarri Mósebók (Exodus) skilgreinir boðorðin tíu. Gyðingar og Kristnir telja þau skipanir en ekki leiðbeiningar og að þau séu til allra manna. Múslímar viðurkenna Biblíuna og líta Kóraninn sem þriðja Testamentið, þeir viðurkenna einnig boðorðin tíu.

Boð má túlka sem tilboð frekar en fyrirmæli. Þau séu þá tilmæli sem velja má að taka tillit til eða sniðganga, það hafi þó afleiðingar. Ljóst má vera að boðorðin tíu eru hluti stærri frumspekihjúps (Metaphysical sphere).

Sé kaflinn lesinn í þessu ljósi birtist hjúpur sem ég nefni Guðdómlega sáttmálann. Sá sem undirgengur hann samþykkir að fylgja þeim tilmælum sem hann tilgreinir; Einungis þeir sem undirgangast sáttmála eru háðir tilboðum hans. Sé allur kaflinn lesinn, sést að boðin eru fleiri og dýpt þess ellefta birtist.

Íslendingar kusu nær einróma vorið 1944 að mynda sjálfstætt ríki og grundvalla það á sáttmála sem nefnist Stjórnarskrá. Samþykktu þeir að fylgja þeim skilgreiningum sem sá sáttmáli býður. Þannig samþykktu þeir tvennt. Annars vegar að mynda ábyrga ríkissmiðju í samræmi við mótaðar reglur. Hins vegar að móta samfélög sín samkvæmt siðferði sem þar væri tilgreint með beinum og óbeinum hætti.

Sé stjórnarskráin einnig samfélagssáttmáli, má vega hvaða siðferðisgildi hann tilgreinir: Tekið er fram að Lútersk Evangelíska Þjóðkirkjan skuli varðveita frumspekiviðmið hins Íslenska þjóðríkis. Ennfremur að borgarar (og þegnar) ríkisins sem ekki vilja frumspeki Þjóðkirkjunnar hafi frelsi til að velja Efnishyggju, eða frumspeki annarra trúarsýna og er ríkinu óheimilt að hamla borgurum að mynda innri félög, svo fremi þau virði framangreint siðferði.

Sáttmálinn skilgreinir ekki hvað sé gott siðferði enda sér fyrrgreind tilvísun um að tilgreina það. Siðferðileg varsla ríkis og þjóða(r) þess sé í höndum kristilegra frumspekinga en þeir taki fullt tillit til frumspekinga annarra sýna. Þar með sé tryggð frumspekisamræða þeirra samfélaga sem að ríkisfélaginu standa.

Ljóst er að meirihlutakosning getur sett siðlaus lög séu þau ekki byggð á fyrrgreindum sáttmála. Þegar svo er verður til réttlætisrof, því sáttmálar eru undirstaða réttlætisviðmiða. Sé sáttmálinn hæfur til grundvöllunar réttlætis, þá ætti endurskoðun hans eða viðbætur að vera óþarfi. Sé endurskoðun nauðsynleg, eða viðbætur, hvernig á að skilgreina þá samfélagssamræðu og hver á að skera úr um?

Alþingi Lýðveldis hefur samþykkt ýmis lög byggð á sáttmála sem þing Sameinuðu Þjóðanna í New York nefnir mannréttindayfirlýsingu, einnig hinn svonefnda Evrópusáttmála. Spyrja má hvort Stjórnarskráin frá 1944 hafi verið ónóg. Ég tel að þessa sáttmála óþarfa og staðfestingu þeirra afturför en það er utan efnistaka.

Núverandi leiðtogi Íslenska Lýðveldisins hefur lýst því yfir að vald sitt sé illa skilgreint og þar með að hann hafi ekki lesið sáttmálann eða skilið. Nýverið lýsti forsætisráðherra hans því yfir að hún hefði vald samkvæmt sáttmálanum til að koma á þingrofum og kosningu, þó það komi ekki fram í honum. Hlutverk hennar er heldur ekki skilgreint í honum. Margir hafa rætt á Íslandi síðustu ár að samkvæmt bókstafstúlkun á sáttmálanum hafi allar ríkisstjórnir frá 1944 verið ólögmætar.

Allt framangreint hef ég rætt ítarlega á öðrum vettvangi. Er mér ljóst að þau skrif og ræður eru fyrir daufum eyrum. Ennfremur að hugsanlega sé framangreind upptalning komin að mörkum birtingarhæfs velsæmis. Það breytir þó ekki hlutbundinni vegun á hugtökum og merkingarfræði.

Saga manneskjunnar er löng og misbein og svo er einnig um sögu mannverunnar. Þá má spyrja hvor er eldri, lengri eða krókóttari. Þá þarf að skilgreina muninn á manneskju og mannveru. Takist það getum við skilgreint hvað sé samfélag, síðan hvað sé samfélagssáttmáli og ef við náum svo langt, hvað sé þjóðar- eða ríkissáttmáli. Vegunin á hvort sáttmálar skiljist eða séu haldnir, bíður síðari tíma.

Manneskja (Human) er lífvera sem gengur upprétt á tveim fótum, hefur tvær hendur, huga og sál; Hún telur sig andlega veru. Hún er sjálfsvituð (Sentient) því hún getur rýnt vitund sína og hún viðurkennir að aðrar lífverur hafi vitund og sumar sjálfsvitund. Manneskja telur uppruna sinn frumspekilegan og að holdgerving sé ytra form en mannleg raunhyggja (Reason) sé háð frumspekilegum greiningum.

Mannvera (Human Being) er lífvera sem gengur upprétt á tveim fótum, hefur tvær hendur og heilabú. Hún skilgreinir sjálfsvitund en efast um (og hafnar yfirleitt) sjálfsvitund annarra lífvera. Hún sér sjálfa sig sem efnislega (Materialist) og að tilvera hennar sé eingöngu háð efninu, að sál sé firring (Alienation) og að mannleg rökhyggja (Logic) sé æðsta mælanlega greind veruleikans.

Báðar verur geta beitt táknmerkingu. Manneskjur hafa nú verið fangar Mannvera í rúma öld, eiga enga virka sáttmála og geta illa treyst sáttmálum þeirra síðarnefndu. Standist framangreind greining, er ljóst að við eigum langan veg fyrir höndum.

Loks bið ég lesandann velvirðingar á hortugheitum. Hafi meiningin skilað neikvæðri niðurstöðu eru mistökin mín.

Þessi grein var rituð 9. september 2020 og samdægurs send Morgunblaðinu sem góðfúslega birti hana 21. september.

 

This entry was posted in Heimssýn and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.