Fólk er einmana, líka þeir sem hafa félagsskap. Enda engin furða, enginn hefur tíma til innihaldsríkra samskipta. Í dag eru samskipti mikið í farvegi smásetninga á Facebook og þegar spjallað er saman er það oftast í athugasemdum við sjónvarpið. Kannastu við fólk sem tekur „uppáhalds sjónvarpsþátt“ fram yfir samskipti við góðan vin?
Talandi um sjónvarp. Er algengt að fólk ræði saman með sama hætti og í sápunum?
Þegar barist er við kvíða, þunglyndi, depurð, og sjálfsefa fæðist einmanaleikinn. Það hringja fáir, koma fáir. Þegar einhver hringir eða kemur er það ekki alltaf þeir sem þú vilt tala við, heldur fólk sem er svipað ástatt fyrir.
Fólkið sem þig langar að eiga samskipti við hefur engan tíma – enda upptekið af einhverju skemmtilegra – og þú ert svo einmana að þeir sem þú vilt síður rækta samskipti við hefur aukinn aðgang að þér því „leiður er betri en enginn.“
Smám saman dofnar yfir félagshringnum, enda er maður löngu hættur að hafa eitthvað skemmtilegt að tala um. Fólk sér deyfðina, efann og hikið, þó maður segi fátt, og einmitt að segja fátt er vont.
Ég var aldrei einmana hér áður, ég var alltaf upptekinn í skemmtilegum hugðarefnum og fólk sótti frekar til mín en öfugt. Ég var þessi kraftmikli og létti sem var sífellt að. Ég var í skemmtilega hópnum. Þar til þunglyndið greip mig heljartökum og atvinnuleysið eyddi upp efnahagnum.
Góðviðris vinir hafa ekki tíma né dug fyrir þunglynda vini. Þú verður að hafa efni á einum golfhring eða stuttri jeppaferð. Spjallvinir sem auk þess eru vanir að viðra eigin vandamál hafa enga löngun í að heyra þín vandamál, þú átt áfram að hlusta á þeirra. Þú hefur kannski aldrei kunnað að tala um vandamál? Ef þú ert vanur að fá steikina með rabbarbarasultu, þá þíðir ekkert að bjóða þér rifsberjasultu í staðinn er það?
Margir vina minna höfðu í gegnum tíðina sagt mér frá þessum einmanaleika. Fyrsta árið í þunglyndi fékk ég að kynnast hvað þeir meintu. Fyrr skyldi ég þá ekki. Ég kunni ekki að tala um minn vanda, kunni ekki að teygja mig til bjargar. Ég reyndi að læra „að tala um málin“ en við hvern? Það er ekki hægt að tala við hvern sem er um vanda sálarinnar.
Enginn hringir. Enginn kemur í heimsókn. Enginn vill heyra hvernig þér líður. Enginn vill heyra hvernig þú raunverulega hefur það. Þó spurt sé „hvernig hefurðu það“ er vænst annarra svara en „aldrei liðið verr!“ Veistu hvað er mikið af fólki um allan bæ sem líður svona? Félagslega einangrað og einmana – fast í gömlum hjólförum hugans.
Ég fann leiðina út úr einmanaleika þegar Ferlið fann mig – ekki strax en furðu fljótt. Ég lærði að vinda ofan af þungum hugsunum – komast upp úr hjólfari hugans – og sjá annað fólk rétt. Ég lærði að skilja hvernig ég hafði séð annað fólk rangt. Augu mín fóru að opnast fyrir öðrum og ég fékk áhuga á því sem ég sá. Ég lærði samskipti upp á nýtt. Lærði að finna þá sem geta – og vilja eiga – innihaldsrík samskipti, og hafa gaman af hinum.
Undanfarið hef ég átt í miklu dýpri efnahagslægð en ég átti fyrsta árið. Ég ætla ekkert út í þá erfiðleika nánar – þú nennir því ekkert – enda nenni ég því ekki.Það merkilega er allt annað:
Ég er ekkert einmana!
Meðan ég hripaði niður þessa punkta heyrði ég frá tveim vinum. Það líður ekki dagur án þess að ég heyri í góðum vin – jafnvel góðviðrisvin. Allir mínir vita hvað ég er að berjast við, allir vita þeir að ég mun klifra yfir það. Allir vita þeir hvernig ég nota „ferli jákvæða viljans“ – sumir þeirra nota það.
Það er ótrúlegt en satt: Að sigrast á þröskuldum lífsins er viðhorf, og veistu hvað: Það má nota rifsberjasultu, hún er fín hafi maður rétta viðhorfið.