Úlfar og kosningar

Undanfarnar vikur hef ég fylgst með nokkurri eftirvæntingu með aðdraganda kosninga, allt frá því að tilkynnt var í herbúðum Ríkisstjórnar að sitjandi stjórn færi frá völdum og myndi boða til kosninga.

img-coll-0916-aÞað er ætíð spennandi að fylgjast með framvindu stjórnmála okkar Íslendinga, enda má segja að við séum jafn mörg lénsríki og íbúar landsins eru margir. Hver hefur sína vel ígrunduðu skoðun og umræður eru oft bæði heitar og litskrúðugar.

Sérstaklega hafa stjórnmál okkar verið áhugaverð síðustu átta árin, eða allt frá því að hrunið æddi af stað haustið 2008, með öllum þeim afleiðingum, atburðum, og flokkadráttum – og fangelsisdómum – sem fylgt hafa í kjölfarið.

Mörg smáframboð hafa komið fram. Sum lifðu ekki af sínar fyrstu kosningar, önnur komust á þing en leystust þó upp, enn önnur þreyttu sundið til næstu kosninga, og umræður bæði í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum ærið heitar. Þá hefur hinn svonefndi fjórflokkur, eða valdablokk Sjálfstæðisflokks, Framsóknar, Samfylkingar og Vinstri grænna, riðlast all verulega.

Nokkrar sveiflur hafa verið í fylgi flokkanna, bæði til og frá og í dag er staðan sú að fullyrða mætti að allir þessir fjórir flokkar hafi klofnað, þó mismikið. Nýlega heyrði ég því fleygt að fjórflokkurinn væri orðinn sjöflokkur, en þó meira í gríni en alvöru.

Frá því Alþingi samþykkti bráðabirgða viðauka við stjórnarskrá Lýðveldisins sumarið 2013, og þáverandi forseti, Ólafur Ragnar, samþykkti þau lög, hef ég haldið því fram – með rýni í stjórnarskrána sjálfa – að fráfarandi Alþingi ásamt forseta hafi ógilt stjórnarskrána og að í merkingarfræðilegum og siðferðilegum skilningi sé ógilt það stjórnkerfi sem á henni hvílir, ásamt lögum sínum og dómum.

Þeir sem rýnt hafa í rök mín fyrir þessari rýni eru mér allflestir sammála en oftar en ekki hefur mér fundist að þessi gjörningur – ef svo má kalla – sé líkari nýju fötum keisarans en lagalegri og menningarlegri rýni, því fólk kann ekki við að taka undir.

Rétt eins og ég hafi vogað mér að sitja í musterinu forðum daga, meðan aðrir voru við krossfestinguna, og séð þegar fortjaldið rifnaði og vogað mér að benda á að sáttmálsörkin væri ekki þar fyrir innan. Sumt er ýmist of flókið eða of djarft.

Hér er ég einmitt kominn að ástæðu þess að ég hripa saman þessi orð, því oft hefur mig langað að setja saman línur um þetta efni og senda lesendum blaðsins, en þó ég sé orðhvatur á mínum eigin vefmiðlum, þá þarf að tala varlega í fermingar- og skírnarveislum. Því aðgát skal höfð.

Gjörningurinn þegar stjórnarskráin var felld úr gildi er einfaldur. Skráin tekur skýrt fram að sé við hana bætt grein eða viðauka eða tímabundinni grein, skuli leysa upp þing og kjósa nýtt þing. Þar skuli klára umræðuna og staðfesta. Nú er hins vegar komið nýtt þing, og umræðan um nýjar greinar við stjórnarskrána sem til stóð að klára fyrir kosningar árið 2017 er ókláruð.

Fyrir um ári síðan var rætt opinberlega um fjórar nýjar greinar en í 1. umræðu á Alþingi (mál 841) nú í haust voru þær komnar niður í þrjár. Ekki veit ég hvernig málið mun farnast í vetur en fróðlegt verður framhaldið.

Í sjálfu sér skiptir mig minna máli hvað verður í greinunum, eða hvort þær enda í skjalinu sjálfu, heldur málsmeðferðin og þá sérstaklega samfélagssamræðan. Ef fara má með stofnsamning félagsins „Lýðveldið Ísland“ eftir því sem mönnum sýnist og ef ekki er hægt að ræða hvort meðferðin sé samkvæmt virðingu við lög og siðferði eða hvort hún sé vanvirðingar-gjörningur, þá hlýt ég að spyrja hvar við sem þjóð séum stödd.

Hvarvetna er hrópað, ýmist eftir nýrri stjórnarskrá eða uppskurði þeirrar sem nú er í (ó)gildi, en fæstir virðast hafa lesið gjörninginn frá 2012 né skjalið frá 1944. Hvernig getur þjóð krafist endurskoðunar á stofnsamningi félagsins sem við nefnum „Íslenska ríkið“ ef hún þekkir ekki samninginn og er létt um hvernig með sé farið?

Þess vegna fylgdist ég með af mikilli forvitni hvernig færi um kosningarnar 29. október síðastliðinn og var á einhvern hátt undrandi hvernig þær fóru. Langt mál væri að tíunda undrun mína, með tilsjón með gengi sumra ónefndra flokkra í skoðanakönnunum síðustu þrjú árin. Í raun festi ég ekki í fljótu bragði hugarhönd á því hvar undrun mín kemur að landi.

Síðustu daga hef ég margrætt þetta við félaga mína í Úlfahópnum og þá sem koma að umræðum hópsins. Fáir hafa heyrt um Úlfahópinn en hann var stofnaður daginn eftir téðar kosningar, til að ræða stjórn- og samfélagsmál á breiðum grunni til lengri tíma.

Nær allir sem ég ræði við segja það sama. Fólk er undrandi á þessum kosningum en festa ekki hughönd á hvar hnífurinn stendur í kúnni. Allir virðast þó sammála um að ný hugsun sé tímabær. Þetta er í grófum dráttum spurningin sem sjálfstæðir úlfar, sem veiða í hópum, ætla sér að svara á næstu misserum. Er undirritaður opinn fyrir ábendingum og leiðréttingum í þessa veru.

Áður birt í Morgunblaðinu 9. nóvember 2016

 

This entry was posted in Þjóðveldi and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.