Fólk sem almennt rýnir í útgefið efni ríkiskerfa, hérlendis sem erlendis, lítur á vefsíður og vefsetur opinberra stofnana og ráðuneyta sem hluta útgefins efnis. Löng hefð er fyrir því að sagnfræðingar, blaðamenn, háskólaborgarar og almennir rýnendur nálgist útgefið efni af þessu tagi sem frumheimildir og gerir kröfu um klassíska nálgun við framsetningu þess og áreiðanleika í tíma.
Áreiðanleiki í tíma snýst, auk framsetningar og forms, um aðgengileika, rithátt, heimildatraust og gáttir þ.e. hvaða leiðir má fara til að nálgast heimildir og vinna úr þeim. Við almenna rýni t.d. þegar lesin eru sagnfræðirit af ýmsum toga sést berlega að ábyrg vinnubrögð skipta máli við heimildavinnu og lærist leikmönnum á þessu sviði smámsaman að temja sér virðingu fyrir þessu í sögulegu samhengi.
Sem dæmi má taka þá var gefin út bók hérlendis fyrir tæpum tveim árum sem gefur í skyn og heldur fram að ákveðið erlent ríki hafi unnið Íslenskum borgurum talsvert tjón um miðbik síðustu aldar. Leitaði undirritaður til tveggja ríkisskjalasafna erlendra til að nálgast heimildir um viðfangsefnið. Gerði ég þetta því að þó bókin setti sig í sagnfræðiham þá var heimildavinna fremur rýr, að mínu mati.
Komst ég að því að af nógu var að taka hjá báðum skjalasöfnum og fékk svör innan viku frá fyrirspurn minni frá báðum skjalasöfnum. Þegar ég rýndi í vefsetur þessara skjalasafna gat ég treyst þeim áreiðanleika og tímalínu sem fyrr er á minnst. Af persónulegum og faglegum ástæðum vil ég ekki tilgreina nánar bókina eða þau ríki sem í hlut eiga, þar sem viðfangsefnið snýst um faglega ábyrgð ríkis en ekki efnistök og úrvinnslu einstakra rithöfunda.
Ekki er um einstakt tilvik að ræða varðandi samskipti mín við opinberar efnisveitur, hérlendis sem erlendis. Sem dæmi má nefna hef ég átt samskipti við skjalasafn Íslenska Lýðveldisins og Danska konungsríkisins varðandi leit mína fyrir tæpum tveim árum að skjalinu fræga sem undirritað var á Kópavogsfundinum sumarið 1662.
Sem leikmaður hef ég smámsaman lært virðingu fyrir því sem ég í daglegu tali nefni Skjalavald (Document Authority).
Þetta orð fyrirfinnst ekki í orðabókum hérlendis en hentar mjög vel til að hjúpa ákveðið hugtak, bæði innan hugtakafræði málfræðinnar svo og innan merkingarfræði heimspekinnar. Hef ég tekið eftir að fleiri hafa tekið þetta orð upp og spái að það muni rata í Orðabækur innan aldar.
Fræg er sú sögusögn þegar Ottó Von Bismarck gaf út tilskipun þess efnis að umtalsvert magn úreltra skjala Prússneska ríkisins, sem geymd voru í tveim risastórum vöruskemmum, yrðu brennd til að rýma fyrir nýjum og minnka skrifræðisbáknið. Þegar hann að nokkrum tíma liðnum innti eftir hvernig gengi, var svarað „það hefur tekið langan tíma að afrita gögnin herra Ríkiskanslari.“
Að öllu gríni slepptu þá setur að manni ugg þegar skriffinnar Íslenska Lýðveldisins eru unnvörpum að skipta út vefsetrum útgefins efnis og brjóta t.d. umfangsmikla heimildavinnu og tilvísanasmíði fræði- og leikmanna sem rita um opinber mál og menningarþróun lýðveldisins. Alþingi, Forseta embættið og nú síðast Stjórnarráðið hafa öll á um það bil ári skipt út vefsetrum sínum fyrirvaralaust með skaðlegum afleiðingum bæði fyrir þá sem vísa í útgefið efni ríkisins svo og fyrir virðingu ríkisins út á við.
Ég geri mér ljóst að fyrir meginþorra almennings er hér léttvægt erindi á ferðinni og er það vel.
Það er mín reynsla sem heimspekingur og menningarrýnir að því minna sem almenningur þarf að velta fyrir sér álitamálum af þessum toga, því betra starf erum við rýnendur og vinna. Sjálfur þarf ég að eyða umtalsverðum tíma á næstu mánuðum að endurvinna heimilda tilvísanir og þó ég kvarti hér yfir því opinberlega, gleðst ég í laumi.
Reynslan hefur kennt mér að ef maður endurleitar heysátuna finnur maður hina nálina. Að öllu háði slepptu þá er vel úr vegi að draga fram tvo aðra fleti á því þegar opinber vefsetur skipta út framsetningu útgefins efnis.
Annað atriðið tengist þeim fleti sem upp kom þegar undirritaður tók þátt í vefverkefni fyrir eina stofnun og lét þá verða mitt fyrsta verk að eldri vefurinn var rekinn áfram um hríð á undirléni þar sem rýnendur gátu nálgast eldri heimildir áfram og var tryggt að t.d. greinargerðir, skýrslur og bókmenntaverk héldu sér hvað tengla varðar. Skilst mér að sá undirvefur hafi síðar verið tekinn niður, vonandi af faglegri ábyrgð.
Hitt atriðið er framsetning efnis og þar kemur aftur til reynsla undirritaðs sem fyrrum fagmaður bæði í umbroti tímarita og vefforritun.
Algengt er að fínu vefsetrin sem Lýðveldið skartar nú, séu framsett með hreyfiforritun, illa læsilegum leturgerðum, litaflögri og hlaupandi þáttum (Elements) í framsetningu sem gera setrin oft mjög ólæsileg fyrir stóran hluta borgara sem oft nálgast tölvuskjái með mismunandi sjón- og leshæfileikum. Þetta er ekki algilt, en svo ég leyfi mér gróf orð, þá finnst mér að ríkisvefir eigi ekki að minna á glanstímarit og tískufyrirbæri, heldur fágaða, klassíska og umfram allt áreiðanlega nálgun.
Áður birt í Morgunblaðinu 30. júní 2017