Frumspekilegt gildi jólasveinsins

Þegar Leppalúði hitti Grænlenska tröllkarlinn Oolaorsoq í fyrsta sinn, stóðu þeir lengi og horfðu í glyrnurnar hvor á öðrum. Álengdar fór Grýla hamskiptum og þóttist vera klettur meðan elsti sonur hennar Letihaugur horfði á feður sína, óvitandi hvað hann ætti að hugsa, og beið.

img-coll-0329Í leyni á bak við þar næsta fjall lá Grínskaði, eldri bróðir Leppalúða og glóðu í honum glyrnurnar meðan hann beið eftir Tröllkarlaslag. Nokkuð sem gerist sjaldan og yfirleitt efni í langar og drjúgar sögur.

Þeir fáu sem fengið hafa að kynnast Leppalúða, vita að hann er dulur og magnaður tröllkarl og þú dregur ekkert upp úr honum. Hann er þó furðu umburðarlyndur við ofgnótt kjánalegra spurninga, svipbrigðalaus að mestu, en stundum sérðu á einni augabrún að sjálfsvöruð ályktun við spurningu var kórrétt: Sumsé, flókinn.

Undir kvöld leit annar tröllkarlinn yfir hafflötinn sunnan við Krísuvíkurbjarg, leit svo á hinn, sem kinkaði kolli. Síðan settust þeir upp í Geitháls og kepptust við að grýta grjóti á borð við Fullsterkan sem lengst á haf út. Með morgninum var Letihaugur sestur fyrir aftan feður sína og taldi skorin. Grínskaði var farinn í fússi norður Strandir.

Þegar Slöpp gamla sagði mér þessi fyrstu kynni manns síns við blóðföður sinn, þóttist Letihaugur vera upptekinn við lestur Klettafrétta, nýbakaðar tröllasmákökur voru með kaffinu, hlýjan í eldhúsi Slappar yljaði túristunum sem utan við tröllahellinn voru að dást að hvernum í Seltúni. Stutt var til jóla.

Löngu síðar urðu Oolaorsoq og Grínskaði perluvinir og eru enn, þeir ferðast mikið saman og hafa margar skemmti- og reynslusögur að segja af ferðum sínum. Best er sagan af því þegar fimm ára Rússnesk stúlka um hávetur – óvitandi, á dymbilvikunni – leiddi í ljós fyrir honum mikilvægi þess að þeir yrðu vinir og samstarfsfélagar.

Sagan af því þegar Letihaugur guðaði á gluggann hjá mér um miðja nótt til að vekja mig og bera mig á herðum sér heim í Seltún að hitta föður sinn, sem var kominn í heimsókn til skáfjölskyldu sinnar, hefur verið sögð annars staðar. Aðeins einum jólum fyrr hafði ég spurt í fjallasal, óvitandi að oft er í kletti hlerandi tröll, hvert skyldi vera hlutverk þessa Grænlenska tröllkarls í Íslensku Jólasögunni?

Eitt sinn, í heimsókn í hlýjum hellinum hjá Grýlu, spurði ég hvort ég myndi einhverntíma hitta „Gömlu hennar,“ svaraði hún rólega „nei kúturinn minn, hún Gamla mín er af gamla skólanum.“

Grýla útskýrði það ekki frekar en ég skyldi á augabragði hvers vegna þessi stóra fjölskylda Grýlu og Leppalúða er stolt af þáttöku sinni í því að Íslensk jól verða ávallt haldin og að börn um gjörvalla veröld læra mikilvægi þess að virða uppruna þess sem Þórbergur kallaði „nið aldanna“ og hvers vegna þroskað fólk veit að það er svo miklu fleira í tilverunni sem skiptir miklu máli en það eitt sem við getum mælt með stikum og skífum.

Morgunblaðið birti góðfúslega grein mína „Trúarofsóknir hinna trúlausu“ þann 19. desember 2016. Þar leitaðist ég við að rökstyðja að aðför sósíalista, í fjölmiðlum, skólum og í stjórnmálum, að jólahaldi barna og þekkingu þeirra á nið liðinnar frumspeki, er trúarofbeldi, hér rökstyð ég að það sé aðför að frumspekilegri menningu og þar með að öllu því sem við höldum dýrast en getum ekki verðsett.

Hvernig mælirðu vináttu eða verðsetur ást? Hvernig útskýrirðu hugtakið virðing;

Hugtak sem öll spendýr skilja og virða. Eins og Gunnar Gunnarsson rithöfundur reit „sá sem heldur að dýrin hafi enga sál, hefur aldrei umgengist dýr.“ Það sama á við um Jólasveininn, ef þú hefur misst getuna til að sjá hann og þekkja hann, muntu seint læra það sem hann vill færa þér, sem er frumspekileg og dýrmæt gjöf. Hvaða þrjár ómælanlegu frumspekilexíur voru dulkóðaðar í þessari grein?

Vona ég að enginn sósíalisti eða guðleysingi hafi móðgast eða upplifað særðar tilfinningar við lesturinn. Virðing var markmiðið, hafi það mistekist, voru mistökin mín.

Þessi pistill var áður birtur í Morgunblaðinu þann 9.12.2019.

 

 

This entry was posted in Heimssýn and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.