Trúarofsóknir hinna trúlausu

Í mínu uppeldi var aldrei haldið að mér trú né heldur latt til hennar. Satt að segja hef ég ekki minnsta grun um andlegt líf foreldra minna. Aðeins hef ég örlitla sýn á andlegt líf ömmu minnar í föðurlegg en hún átti virkan þátt í uppeldi mínu.

guyellis copySatt að segja má túlka sögu okkar Íslendinga og Herúla frá árinu 1000, þegar við fyrst þjóða skilgreindum lagalegt trúfrelsi, sem eina langa varðveislu þess að hver og einn er ábyrgur gagnvart sjálfum sér, og því sem hann kann að trúa á, um sitt andlega líf.

Vissulega eru tímabil í sögu þjóðar okkar sem hún var fótvölt á þeirri löngu göngu, margt hefur gerst sem er miður en einnig margt sem er framúrskarandi. Enda vitum við öll að enginn verður óbarinn biskup, né heldur smiður við fyrsta hamarshögg.

Vissulega er til fólk sem hefur ánetjast trúarbrögðum og öðrum óhlutbundnum hugmyndakerfum (e. Abstract ideologies) vegna áhrifa frá öðrum, hvort heldur í æsku eða á þroskaðri árum. Samt held ég að hver og einn sem kominn er til fullorðinsára geti vottað að hafa valið sína heimsmynd sjálfur.

Ég hef talsverða reynslu af að tala við bæði trúaða og guðlausa (e. Atheists) jafnt sem efahyggjufólk og þá sem flokka sig utan við þessa þrjá hópa fólks. Hef einnig orðið vitni að því að fólk skiptir um trú á alla þrjá vegu. Aldrei hef ég hins vegar hitt manneskju sem ekki hefur gert upp hug sinn og reynt að gera það af ábyrgð.

Allt þetta fólk á það sameiginlegt að hafa verið beitt vægðarlausu ofbeldi „Litlu jólanna“ og fengið kristilegar jólagjafir á aðfangadagskvöld. Sem ætti að minna guðleysingja og kommúnista (með fullri virðingu fyrir þeirra heimssýn) á hversu mikið Vottar Jehóva hafa verið gagnrýndir fyrir að gefa ekki jólagjafir en þeir telja sig þó vera kristna.

Mér þætti gaman að sjá trúlausa segja við börn sín um jólin „því miður færðu engan jólapakka því trú er ópíum fólksins.“

Ég heyri oft frá efahyggjufólki og guðlausum að það sé rangt að halda að börnum þeim siðvenjum og aðferðum sem menning okkar hefur beitt í gegnum aldirnar af þeirri ástæðu einni að þær séu á trúarlegum grunni.

Því má svara til að þær minni börnin og okkur sjálf á mikilvægi þess að þó margar hugmyndir séu til um hið yfirskilvitlega og mörg kerfi verið smíðuð utanum þær hugmyndir, þá vitum við ekki fyrr en okkar tími kemur hvað sé satt um þær og hvað ekki. Að ennfremur sé það áminning að hin hugsandi mannvera smíðar alla sína heimsmynd úr óhlutbundnum hugmyndum og mótar samfélagskerfi sín með því að hlutgera þær.

Sem er þörf áminning að mínu mati, hvernig svosem við vinnum úr henni. Því hvort sem hefðin er byggð á trúarlegu kerfi eða góðvilja, þá held ég að margir geti samþykkt að þegar mannkynið, eða mannfólk yfirleitt, útilokar möguleikann á andlegu innra lífi, eða reynir að meina öðrum að taka þátt í því, þá blasi við vörður á þokubraut sem sumir hafa nefnt Heljarslóð.

Vel mætti skjóta hér inn þeirri staðreynd að aðal hugmyndafræðingar stærsta stjórnmálaflokks Rússlands, sem hefur farið með völd þar eystra í allt að því tvo áratugi, vilja skilgreina Rússland sem kristilegt lýðræðisríki og ekki er langt síðan Pútín fór í opinbera heimsókn í kristilegt munkaríki á eyjunni Athos í eyjahafi, en það er opinberlega viðurkennt í alþjóðastjórnmálum sem sjálfstætt ríki.

Enginn hefur gleymt að Rússland var eitt af kommúnískum aðildarríkjum Sovétríkjanna og var þar opinber stefna að trúarbrögð séu Ópíum fólksins og ætti að útrýma með markvissum hætti.

Eftir því sem ég best veit, án þess að hafa aðgang að opinberri tölfræði, eru meira en 90% Íslenskra barna skírð til kristinnar trúar og langflest þeirra velja að fermast til þeirrar trúar. Sem merkir að yfirgnæfandi fjöldi Íslenskra grunnskólabarna eru lagalega trúuð upp á Lútersk Evangelíska trú. Að meina þeim að rækja Litlu jólin eða að fara í kirkju á vegum skóla síns, hlýtur að teljast trúarofsóknir gegn þeim?

Birt í Morgunblaðinu 19. desember 2016

 

This entry was posted in Heimssýn and tagged , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.