Íhald í krýsu

Þegar ég gerðist íhaldsmaður hafði það tekið mig nokkrar vikur að þora því. Ástæðan er einföld; Jafningjaþrýstingur samfélagsins var búinn að venja mig við það frá blautu barnsbeini að hægra megin væru arðræningjar Kapítalismans og að hinn illi Sjálfstæðisflokkur stæði þar vörð.

img-coll-0830Ég hafði oft séð hvernig fólk í samfélagsnetinu var tekið á beinið með miklum yfirlýsingum og eineltis-ræðum ef það lýsti yfir stuðningi við flokk jötnanna, því var ljóst að hugrekkis væri þörf.

Ég hafði smámsaman vaknað til meðvitundar um eigin stjórnmálaáhuga, þrátt fyrir hvað þras þeirra er oft leiðinlegt, og eftir að hafa litið á landslag Íslenskra stjórnmála komist að því að skoðanir mínar lægju hægra megin og að þar var bara einn flokkur.

Ég gekk því í Sjálfstæðisflokkinn og sótti þar fundi. Þykir mér eðlilegt að sé maður hlynntur einhverjum flokki þá taki maður þátt í starfi hans. Þannig kynnist maður fólki af svipuðu hugarþeli ásamt málefnagrunninum og ennfremur hvernig úr þeim grunni er prjónaður veruleiki.

Eitt af því sem gerir heimspeki skemmtilega er einmitt sá þáttur hennar þegar óhlutbundnar (e. Abstract) hugmyndir eru reyndar og látnar hafa áhrif á veruleikann og þannig standa fyrir sér. Standist þær álagið slípast bæði þær og fólkið sem notar þær. Oft krefst þetta innri og ytri átaka, hvort heldur í lífsfarvegi einstaklinga eða samfélaga.

Innri átökin eru dýrmætust, þar sem maður neyðir sjálfið til að horfast í augu við sálarspegil samvisku sinnar í kyrrðinni og þá skugga sem hvíla í undarlegum djúpum sálarinnar.

Þegar maður stígur fram að nýju hefur gerst umbreyting innanfrá sem lýsir upp ferskari sýn á tilveruna.

Samkvæmt akademískri sálarfræði, hvort heldur hún er byggð á Freud eða Jung fræðum, má yfirfæra þessa hugsun yfir á sálarlíf samfélags en þessir virtu fræðimenn báðir skilgreindu samfélagsvitund (e. Colletive Consciousness) sem gilda sálarfræði og leituðust við að útskýra hana fræðilega.

Heimspekingur hlýtur að velta fyrir sér hlutunum allt frá vitundarástandi einstaklinga og hópa, til efnahagsmála og pólitískra vangaveltna, með mislöngum hvíldum í skjóli trúarlegra vangaveltna. Þá út frá vel skilgreindum og vandlega útfærðum hugtökum, hvort heldur þau hafa verið dregin inn í snertingu við veruleikann eða notuð sem breytiafl (e. Catalyst) fyrir önnur keðjutengd hugtök sem fá þessa snertingu.

Þessi útlistun kann að þykja full djúp, hugsanlega flókin, hún á hins vegar rétt á sér, því menning er saga hugsunar og sú hugsun sem hlutgerist þarf að byggja á einhverju dýpra. Einhverju sem hjúpar öfluga frumspeki, eins konar lukt sem viðheldur týru í djúpum sálarlífsins á meðan við tökumst á við hinn hlutgerða veruleika.

Saga agaðrar hugsunar – eða siðmenning – sækir styrk sinn í þetta viðhorf og sagan hefur margsannað að þegar hugsun frumspekinnar þornar eða tærist, er voðinn vís í veruleikanum.

Þegar kom að því að heimspekilegar og félagslegar vangaveltur drógu mig eins og segulmögnuð skuggavera í sálardjúpunum alla leið til menningararfs Þjóðveldis og Vætta, hætti ég þáttöku í Sjálfstæðisflokknum af þeirri ástæðu að mér fannst þetta tvennt ekki samrýmast.

Ég hætti þó ekki að vera hægri-sinnaður í stjórnmálum og viðhélt íhaldssömum skoðunum innan Endurreists Þjóðveldis og geri þegar ég á þar snertingu. Þegar þar að kom að þáttaka mín í málefnum Þjóðveldis minnkaði, hóf ég að nýju að rýna í stjórnmálalíf Lýðveldisins og hafði á þeim árum sem liðið höfðu, slípast í fyrrgreindri glímu við hugtökin.

Á sama tíma hafði ég glímt ítarlega við hugtakaglímur á vettvangi Eingyðistrúarinnar, rýnt í fræði frá Íhaldssömum Íhalds-Rabbínum (e. Ultra Orthodox Rabbi’s), virtum Íslömskum fræðimönnum, Kristilegum fræðimönnum Skólaspeki (e. Scholastic) ásamt grunn frumspeki trúarritanna sjálfra.

Þáttaka mín í mótun Þjóðveldishugsjónarinnar krafðist þess að rýnt væri í þau gildi sem fæddu af sér Þjóðveldi eldra sem gerðist á sama tíma og fimm hópar landnema endurfæddust sem Íslensk þjóð árið 930.

Ég biðst velvirðingar á því hversu djúpt þetta greinarkorn kann að virðast. Oft þarf að greina frá farvegi hugsunar til að lýsa því hvernig reikað var í þoku frá vörðu, að vörðu, og til baka að steinahrúgu.

Þegar aftur var snúið til veruleika okkar Borgara Íslenska Lýðveldisins frá 1944, skildist mér að hægri-menn hafa engin hugtök lengur. Sjálfstæðisflokkurinn er orðinn sóslíalískur miðjuflokkur og hefur fá sterk hugtök til að varða afstöðu sína og fólkið sem viðheldur starfi hans virðist ekki vita það, hvað þá kjósendur hans.

Þetta eru þung orð, rituð með trega. Staðreyndin er að sósíalískur Marxismi, sem virðist stýra menntun fólks í grunnskólum og háskólum, ásamt fræðslu meginstraums fjölmiðlunar, hefur sín hugtök á hreinu, hversu grunnhyggin sem mörg þeirra kunna að virðast.

Orðræða sósíalismans hefur fangað umræður okkar og innri vitund. Svo djúpt ristir, að hugtakið Íslenski Íhaldsflokkurinn, er fyrirfram dauðadæmt heiti fyrir endurreisn hægri stjórnmála. Við höfum ekki lengur tök á að lýsa veruleika okkar né svara sósíalistum skilmerkilega.

Greinin var rituð 13. september 2019 og send Morgunblaðinu sem birti hana 15. nóvember 2019.

 

This entry was posted in Þjóðveldi and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.