EES frá 1662

Sumarið 1662 hélt elítan á Íslandi svonefndan Kópavogsfund þar sem tveir æðstu embættismenn Íslenska Þjóðveldisins skrifuðu undir erfðahollustu við konung Danmerkur. Síðan riðu þeir til Alþingis á Þingvöllum og fengu hollustusamninginn viðurkenndan og þar með lögfestan.

img-coll-0953Sagt er að þeir hafi skrifað undir samninginn undir hótun vopnavalds frá sendimanni konungs og kannski er það rétt. Íslensku embættismennirnir voru þó ekki einir á ferð, því ævinlega þegar lögsögumenn og goðar riðu til þings fylgdi þeim föruneyti lögspekinga og áhrifafólks – af báðum kynjum – rétt eins og gerist í dag.

Valdamiklu tignarfólki fylgir ævinlega föruneyti og sagan segir að föruneyti Danska aðmírálsins hafi haldið mikla veislu á Bessastöðum að afloknum Kópavogsfundinum fyrir föruneyti Lögsögumanna Íslenska Þjóðveldisins. Sú veisla fagnaði því að Þjóðveldið var með lagalegum gjörningi lagt niður sumarið 1662.

Sé það rétt að undirritun hafi gerst undir vopnavaldi eða með öðrum þvingunum veit ég ekki. Sé það hins vegar rétt, þá má búast við því að fyrirliðar Íslenska föruneytisins hefðu hugsanlega verið líflátnir þennan dag eða vikurnar á eftir, hefðu þeir hafnað erfðahollustunni.

Rétt eins og með aðra atburði mannkynssögunnar, má endalaust velta fyrir sér hvað hefði gerst ef einhver hefði gert eitt eða annað á annan veg. Einnig má endalaust velta fyrir sér hvaða gildi hitt og þetta hefur eða hvað sé Rétt eða Rangt samkvæmt einhverri heimspekitúlkun eða siðferðisboðskap.

Þegar Íslenskum börnum dagsins í dag er sagt frá Kópavogsfundinum í skóla, fær hann yfirleitt hálfa til hálfa aðra blaðsíðu í þurrlegum og leiðinlegum sögubókum, útskýrðum af launuðum kennurum sem oft kenna af meiri áhuga á vinnunni sinni en viðfangsefninu. Niðurstaðan er oft sú að barnið sem vex úr grasi verður borgari ríkis sem veit að einhverju leyti hvernig það varð til.

Sú saga verður í huganum þurrleg upptalning á einhverju sem fyrir löngu hefur glatað merkingu sinni.

Snúum dæminu við: Þegar lögsögumennirnir tveir riðu til Alþingis með hollustusamninginn, þá var ekkert vopnavald lengur sem fylgdi þeim og þingheimur samþykkti samruna Íslenska ríkisins inn í Danska konungsríkið svo til möglunarlaust.

Í það minnsta er aldrei sagt frá hvort einhverjar deilur voru á þingi, hvað var rætt þar, eða hvort eitthvað málþóf átti sér stað. Ekkert er minnst á hvort héruð ríkisins myndu sniðganga samninginn eins og gerðist 1315.

Þegar ég spurði skjalavörð hjá Þjóðskjalasafni Íslenska Lýðveldisins hvort hollustu-samningurinn væri til í skjalasafni ríkisins, þá spurði hann „hvaða hollustusamningur?“ Þegar ég útskýrði málið nánar, mundi hann eftir Kópavogsfundinum, viðurkenndi að þetta var skjalið sem lagði niður Þjóðveldið og innlimaði Ísland í Evrópskt ríki en efaðist um að skjalið væri til, þó til væru mörg skjöl frá þessum tíma sem send hefðu verið hingað heim eftir 1944.

Eftir bréfaskriftir við Danska Ríkisskjalasafnið fékk ég uppgefið að skjalið væri til þar, að það hefði númer og væri rekjanlegt, og að ég gæti fengið ljósrit af því ef ég mætti á staðinn. Ég man ekki hvort í boði var að sjá frumritið en ég hef ekki síðan þá átt heimangengt til að heimsækja Danmörku, ennþá.

Ekki vita margir af því í dag að Þjóðveldið og Norska konungsríkið gengu í ríkjabandalag sumarið 1264, þegar svonefndur „Gamli sáttmáli“ var samþykktur á Allsherjarþingi Þjóðveldis, eftir að hafa verið kynntur á Héraðsþingum hvarvetna um landið frá sumrinu 1262.

Fyrrgreindir sögukennarar segja börnum Lýðveldisins að Gamli sáttmáli hafi innlimað Íslenska Þjóðveldið í Norska ríkið og þar með vita allir að það sé þannig.

Í sýn þessa fólks var Kópavogsfundurinn ekkert sérstakur atburður, jú kannski eftirtektarverður, en ekkert sérstakur. Þetta fólk veit ekki að Gamli sáttmáli var ríkjabandalag tveggja fullvalda ríkja sem bæði deildu sama þjóðhöfðingja.

Kennarar og borgarar samtímans vita ekki að fimm áratugum síðar lá við að samningnum væri hafnað þegar konungur Noregs hóf að skipta út embættismönnum í héruðum Íslands. Þá var enn sterk meðvitund í landinu um hvað Þjóðveldið væri og hvernig það væri skipulagt; Allsherjarþing var stofnun sem samþætti ákvarðanir og lög 39 sjálfstæðra héraða landsins.

Þjóðveldisfólk var vel með á nótunum um heimsmyndir þess tíma, hvort heldur heima í héraði eða í Evrópu, margt fólk hérlendis var einnig vel meðvitað um að heimurinn væri stærri en þetta. Ennfremur var þetta fólk með á hreinu hvers vegna Þjóðveldið var stofnað og hvaða Heimssýn (þ. Weltanschauung) lægi að baki.

Íslensku héruðin 39 (þegar flest voru) leyfðu konum að skilja við menn sína, vera goðar og eignamenn (karlar og konur eru menn) og eignalaus vinnulýður (þá kallað þrælar) gátu rétt eins og konur sótt mál á héraðsþingum. Formið var misjafnt eftir þingum, oft þurfti þetta fólk að fá einhvern til að sækja mál fyrir sína hönd, en það var formsatriði.

Alþingi hafði stífara form; Þar þurfti nær alltaf (eftir mikilvægi sækjandans) að fá einhvern til að flytja mál fyrir sig.

Um þessar útfærslur og túlkanir má auðvitað deila. Grágás er til, rannsóknarvinna Jóns lærða er að miklu leyti til, Gamli sáttmáli er til og fræðirit á borð við „Goðorð og goðorðsmenn“ eftir Lúðvík Ingvarsson er til. Mikið hefur verið rætt og ritað um Gullöld Íslands eins og Jón J. Aðilds kallaði fyrstu aldir Þjóðveldis.

Margar heimildir og túlkanir eru til en niðurstaðan er alltaf sú sama. Þetta er gamalt, þetta hlýtur því að vera úrelt.

Hvaða máli skiptir það í dag hvað menn ræddu á Íslandi þegar Kvótakerfið var sett á (undir tveim sjálfstæðum sósíalískum stofnunum), þegar EES samningurinn var lögfestur eða hvaða deilur voru um Orkupakka 3? Hvað eru margir sem skilja hvað átt er við þegar ég uppnefni O3 sem K2 og vísa þá í hugtakið Kópavogsfundur 2?

Fimm áratugum eftir að Gamli sáttmáli var lögfestur hóf Noregskonungur að skipta út embættismönnum í héruðum á Íslandi. Kennarinn þinn sagði þér ekki að héruðin litu á sig sem sjálfstæð lögsagnarumdæmi sem hefðu af eigin vilja sagt sig í lög við Allsherjarþing Þjóðveldis, sem aftur var í ríkjabandalagi.

Borgarar þessara héraða litu ekki svo á að konungur hefði valdsumboð til að skipta út embættismönnum í þessum héruðum.

Þetta fólk þekkti lög sín, það sótti héraðsþing í maíbyrjun hvers árs og hlustaði á lög þess sögð fram og á hverju héraðsþingi var kosið um hverjir riðu með goða til Alþingis og þeir fylgdarmenn (eða þingmenn) hlustuðu á allsherjarlög framsögð þar. Þetta fólk vissi hvaða lagalega rétt það hafði og það hafði úrræði til að fylgja þeim eftir.

Á þeim tíma var löglegt í Þjóðveldi að þú gast sem borgari flutt atkvæði þitt (til að velja Alþingismann) á milli héraða og þar með skattheimtu þína. Líkaði þér ekki hvernig goði og embættismenn hans færu með málefni héraðs, eða mæltu á Alþingi, gastu flutt atkvæði þitt og skattgreiðslu til annars héraðs og þar valið annan Alþingismann.

Með þessari aðferð var hægt að þvinga goðann til hlýðni. Í stað þess að safna verðlausum undirskriftum til að afhenda konungi eða forseta, gastu neytt héraðið til hlýðni.

Á fyrstu tveim áratugum fjórtándu aldar, á milli 1305 og 1325 sniðgengu menn bæði skattheimtu í héraði, svo og að kjósa Alþingismenn og þar með sniðgengu þeir Alþingi. Noregskonungur var beygður til hlýðni við Íslenska ríkið.

Þetta snérist aldrei um hvort Norska ríkið væri að skipta út embættismönnum, því konungur var einnig að skipta út embættismönnum í Noregi á sama tíma til að treysta tilskipanavöld sín. Hann var að gera nákvæmlega það sama og Haraldur Hárfagri hafði gert á sínum tíma, þegar hann með vopnavaldi þvingaði héruð Noregs undir konungsvald sitt.

Borgarar Gulaþings höfnuðu því og sigldu til Íslands, Færeyja, Suðureyja, Hellulands og Írlands.

Íslendingar árið 1315 vissu hvað þetta merkti en þingheimur sumarið 1662 var búinn að gleyma þessu, eða hafði á fjórum öldum frá 1264 gleymt hvaða styrkur felst í að þekkja sögu sína, hugtök sín, og að geta útskýrt heimssýn sína.

Þegar ég ræði við fólk um sýn Þjóðveldis þá svarar fólk svo til án undantekningar; „Svo þú vilt snúa aftur í eitthvað gamaldags?“ Rétt eins og góður maður sagði við mig nýlega þegar við ræddum EES samninginn; „Svo þú vilt snúa aftur til 1994?“

Þetta fólk veit vel hvað það syngur. Hver vill snúa aftur til sjálfsákvörðunar, sjálfstæðis, upplýsingar og virðingar? Hvað þá að ræða og útskýra sterk hugtök? Það er hvort eð er væntanleg útsala í Edinborg og Brussel á gallabuxum og skjásímum.

Stór hluti af lögum Íslenska Lýðveldisins frá 1944 er saminn í Brussel og tekin upp á Ríkisþingi þess svo til sjálfkrafa og án umræðu. Við höfum ekkert vald yfir þessu ferli.

Nigel Farage, Breskur stjórnmálamaður sem árum saman hefur verið þingmaður Bretlands á Evrópuþinginu, hefur margsannað að þingmenn stakra ríkja hafa nær engin áhrif á lagasamningu Evrópusambandsins, heldur eru það sjálfstæðar stofnanir þess, pólitískar nefndir og Lobbyistar sem það gera.

Þingið setur þau en semur þau ekki. Nær alltaf er sama ferli viðhaft eða sambærilegt því sem viðhaft var í útópíu kommúnismans, Sovétríkjunum.

Það er ekki að ástæðulausu að kverúlantar um alla Evrópu uppnefna Evrópusambandið sem Evrópu-Sovét. Enginn ræðir um hvort kommúnisminn sé úreltur eða hvort ráðstjórnar kerfi þess sé gamaldags eða hafi afsannað gildi sitt. Enginn greinir í dag hvernig sósíalískur Trotskýismi hefur tekið yfir sósíalíska hugsun vesturlanda. Fáir vita hvað átt er við með þessari staðhæfingu.

Fáir Íslendingar samtímans átta sig á hvernig Sósíalismi síðustu áratuga hefur smámsaman kvarnað úr löggjafarvaldi lýðveldanna og fært vald ríkjanna yfir til sjálfsstæðra stofnana. Oft hafa þessar stofnanir gríðarmikið vald til að setja sektir og jafnvel að banna rekstur í efnahagslífinu og oft hafa þær meira úrskurðarvald heldur en dómsstólar.

Sama hugmyndafræði liggur að baki þverþjóðlegra eða yfirþjóðlegra stofnana sem hafa sambærileg völd, til að sekta, ráðdeildast og dæma. Yfir þessum stofnunum hafa löggjafarþingin og dómsstólar lítið sem ekkert vald og nær útilokað er að breyta þeim eftirá.

Á síðustu árum hafa slíkar stofnanir, bæði innlendar og þverþjóðlegar, vaxið, dafnað og farið fjölgandi án þess að nokkur nútíma neytandi átti sig á. Fáir taka eftir virkri umræðu í enskumælandi heiminum beggja vegna Atlantshafsins þar sem rætt er um hvort og þá hvernig megi sporna við þessu.

Fyrir þá sem hafa áhuga á samsæriskenningum, er áhugavert að nýlega setti ég mig inn í stjórnartíð og fall Richard Nixon Bandaríkjaforseta. Hann vann ötullega í að færa miðstjórnarvald ráðstjórnar-stofnana í Washington, aftur heim til Bandarísku ríkjanna (eða fylkjanna) og að hreinsa til í sósíalismanum.

Nýlega var gefið út sagnfræðirit í Bandaríkjunum þar sem rannsakað var hvernig Watergate hneykslinu var beinlínis komið á af sósíalískum andstæðingum hans og stjórnarskrá Bandaríkjanna brotin til að gera Nixon að glæponi í augum fólks þá og síðar. Ég nefni þetta hér sem innskot til gamans, fyrir áhugasama grúskara.

Valdssvið og tilvera stofnana af því tagi sem hér er bent á, felur sig í hugmyndum á borð við „allir vita að er rétt“ og „við eigum ekki að hverfa til gamaldags hugmynda.“

Fáir velta fyrir sér, nema örfáir heimspekingar og nokkrir samsæragreinendur hvaða hugmyndir og gildi þetta kunna að vera, enn færri sjá hvernig þjóðfélagsverkfræðingar spila á tilfinningasemi og tálsýnir fjöldans til að móta hvað sé rétt og hvað sé gamaldags eða úrelt.

EES samningurinn er – samkvæmt bæði Stjórnarskrá og Almennum hegningarlögum Íslenska Lýðveldisins frá 1944 – landráðasamningur og allir sem stóðu að setningu hans og allir sem standa að framkvæmd hans eru landráðamenn. Eða hvað?

Stjórnarskrá Íslenska lýðveldisins frá 1944, grein 21. segir:

Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki. Þó getur hann enga slíka samninga gert, ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins, nema samþykki Alþingis komi til.

Glöggur lesandi veitir því vafalaust athygli að grein 21. er merkingarlaus, eins og tilvist EES samningsins staðfestir. Ekki má afsala sjálfstæðinu nema Quislingar á Alþingi haldi Kópavogsfund.

Almenn hegningarlög, grein 86. segir:

Hver, sem sekur gerist um verknað, sem miðar að því, að reynt verði með ofbeldi, hótun um ofbeldi, annarri nauðung eða svikum að ráða íslenska ríkið eða hluta þess undir erlend yfirráð, eða að ráða annars einhvern hluta ríkisins undan forræði þess, skal sæta fangelsi ekki skemur en 4 ár eða ævilangt.“

Sturla Jónsson sannaði fyrir Íslensku þjóðinni sumarið 2016 að forsetar Íslenska lýðveldisins hafa allir brotið stjórnarskrána þegar þeir hafa framselt vald sitt til stjórnarmyndunar til stjórnmálamanna á Alþingi. Þjóðin hafnaði þeirri túlkun og valdi þess í stað hefðina.

Stjórnarskrá Endurreist Þjóðveldis frá 2013 er afdráttarlaus um sjálfstæði Þjóðveldisins.

Þar er enginn orðhengilsháttur sem í orði kveðnu neitar að afsala sér sjálfstæði sínu nema Alþingi ákveði annað. Enginn borgari Þjóðveldis getur tekið virkan þátt í sjálfsstæðum Héraðsþingum án þess að vera meðvitaður um lagalegt gildi stjórnarskrárinnar eða þeirrar heimssýnar sem Þjóðveldið hvílir á.

Borgarinn er ekki skyldugur til þessa, það er hins vegar óhjákvæmilegt að taka þátt í gildismótun Þjóðveldis án þess að setja sig inn í hver þau eru og hvers vegna. Hann hafnar ekki einhverju bara vegna þess að allir vita eitthvað eða vegna þess að einhver stimpill með orðinu úrelt eða gamaldags er settur á það.

Er EES samningurinn landráð eða þjóðgarðar UNESCO hérlendis? Alþingi sagði að svo væri ekki. Mótmælendur O3 sögðu að sjálfstæð stofnun í Brussel ætti ekki að hafa vald yfir landinu en Alþingi sagði að það væri alltílagi enda væri það hluti af EES og að allir vissu að við værum að græða á EES.

Hvar er málefnalega umræðan um það hvort Íslenska þjóðin sé að græða á EES? Hvar er greiningin á því, hvar eru hugtökin; Ennfremur, hvar er skilningur þjóðarinnar á því hvernig hún varð til og úr hvaða gildum? Fæddist hún í skrifum Jóns Sigurðssonar þann 17. júní 1851 eða á Allsherjarþingi við sumarsólstöður 930?

Loka punktur; Haraldur Hárfagri sameinaði ekki Noreg, því Noregur var þegar sameinaður undir konungsvald á þeim tíma.

Rétt eins og sumarið 1662 eins og 874, snérist deilan ekki um það hvort ríkið hefði konung eða ekki, heldur hvort hann mætti sameina héruðin í krafti valdboðs – hvort sem það væri gert með því að skipta út embættismönnum eða hóta vopnum – heldur hverjir ættu að kjósa konung ríkisins og með hvaða hætti hann væri valinn.

Fram undir 1700 var það hefð á öllum Norðlægum menningarsvæðum í kringum Eystrasalt, að konungar voru kosnir af goðum og lögsögumönnum héraða. Konungsvaldið var ekki álitið erfðavald heldur menningarvald sem reis upp frá samræðum fólks um heimssýn og hvernig hún túlkaðist í raunveruleikanum.

Frá níundu öld eftir Krist og fram á sautjándu öld voru allar elítur í Evrópu dauðhræddar við hina Íslensku hugsun, því á meðan öll Evrópa var undir valdi sívaxandi lénsvalds og erfðavalds, ásamt tilheyrandi stéttaskiptingu, var Ísland mótað af heimssýn þar sem stefna ríkisins var sett af alþýðunni sjálfri.

Stéttaskipting var hér í lágmarki, fólk setti sig inn í hugtök og málefni, þekkti rætur sínar og eigin sjálfsvirðingu og þorði að skáka fyrirmönnum með öflugu orðfæri. Við menntuðum fólk hér heima – þó ekki sé talað hátt um það í dag – og við sendum fólk erlendis til mennta.

Fólkið okkar ferðaðist um heiminn og stórir hópar fólks í Evrópu vissu hversu hættuleg við vorum þeirra eigin ástandi (e. State).

Sumarið 1662 tókst erlendu áhrifavaldi loksins að kæfa hina Íslensku heimssýn og ýmsum þjóðfélagsverkfræðingum tókst að endurmóta Íslenska hugsun. Hún var þó endurreist sumarið 2013. Síðan á Kópavogsfundi 1 hafa margir kallað sig Íslendinga en fáir verið það í raun, frá Kópavogsfundi 2 er það fullsannað.

Þess vegna segi ég stundum, ég er ekki Íslendingur, ég er Herúli.

 

This entry was posted in Þjóðveldi and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.