Það er vaxandi vanlíðan undir yfirborðinu hjá fólki þessa dagana. Fólk er hætt að treysta ríkiskerfinu, það fyrirlítur stjórnmálin, efast um trúverðugleika fréttamiðla, sér í gegnum rétttrúnað menntakerfisins, er unnvörpun að opna augun fyrir vanheilindum vísindanna.
Þó fólk taki ekki undir með þeim tugþúsundm okkar sem höfum jafnt og þétt stungið nálum í „sannleika meginstraumsins“ þá er fólk hvorki blint né heyrnarlaust. Þó fólk smelli á Like og Dislike t.d. á Túbunni, eða sýni engin viðbrögð, þá tekur það eftir og hugsar sitt.
Hver um sig einblýnir á að hugsa um sinn eigin hag – og eðlilega – enda er enginn sem ver réttindi þín eða hag þinn nema þú sjálfur í skinhelgum nútímafrumskógi, samfélagi lyga og skrums.
Þeir sem hafa svigrúm til að hugsa ögn lengra, líta yfir farinn veg sögunnar og sjá að hún hefur unnvörpum verið ofin í blekkingar og misvísanir. Líti þeir yfir landslag trúarheimsmynda og heimspeki og sést sömuleiðis lítið annað en afbakanir og tálsýnir.
Þó margt hafi skrifað verið sem stenst rýni þá getur verið yfirþyrmandi að sjá hversu margt í rétttrúnaði samtímans reynist byggt á hindurvitnum, skammsýni og hreinlega áróðurs. Fólk reynir að ýta þessum hlutum frá sér, eða rökræðir út á við að það standi með þeirri heimsmynd sem okkur er innprentuð. Jafnvel verður mörgum heitt í hamsi og berast mikinn á.
Það er hins vegar staðreynd sem ekki verður umflúin, að ekki er hægt að ljúga að undirvitundinni og hún hugsar sitt.
Á yfirborðinu virðist allt slétt og fellt, hver og einn sinnir því sem hann hefur tök eða vald á. Fólk reynir að hugsa vel um sig og sína, geyma sitt í hljóði, bíta á jaxlinn og halda reisn. Samt kraumar undir niðri og vaxandi vondeyfð og svartsýni gerir vart við sig.
Margir skynja þetta, sérstaklega fólk sem hefur þjálfað sig í andlegu næmi. Margir vilja beita aðferðum og úrræðum sem lærðar eru í ýmsum fræðum. Aðrir vilja bjóða lausn á borð við hópstarf eða trúarstarf, yfirleitt meinar það vel, en það hentar oft síður. Okkar samtími er alinn upp á einstaklingshyggju og neytendameðvitund og við viljum sjálf ráða hvaða næringu við veljum sem lausn á innri vanda.
Þúsundir fólks hafa varað við í hátt á aðra öld, að samtími okkar sé að kafna úr skorti á viðeigandi andlegu fóðri, margskonar rök eru fyrir því og mörg svör hægt að finna til lausna, fæst þeirra svara sem rista af varanlegri dýpt eru markaðssett opinberlega og því miður virka sum þeirra frekar öfgakennd.
Nóg er þó í boði fyrir fólk til að hefja leit að fóðri og mín reynsla er sú að þó margar blindgötur séu reyndar, þá er leitin sjálf gefandi og oft áhugaverðari en áfangastaðurinn.
Ég hef gætt þess – eins og kostur er – þegar ég ræði samtímamál, menningu, heimsmynd og trúmál, að minna fólk á að ég hef engan áhuga á því að veiða fólk til fylgislags við mína trúarheimsmynd. Held að það hafi skilað sér að markmið mitt er fyrst og fremst að gefa vitnisburð.
Ég er sannfærður um og hef verið í áratugi, að hver og einn verður að velja sér og rækta þá heimsmynd sem hentar hans innri gerð.
Ég vil þó minna á að í hverri fæddri sál er dulin rás sem enginn hefur aðgang að nema viðkomandi einstaklingur og skaparinn. Rás sem auðvelt er fyrir hvern sem er að opna fyrir með einfaldri hugsun, hvort sem viðkomandi trúir að hún virki eða ekki – það er ekki skilyrði.
Faðirinn bæði hlustar og svarar og það er óháð í hvaða flokki þú ert eða hverju þú trúir, og það kemur engum við hvort þú notar rásina. Hún er þín. Ég lofa því ekki að hún lækni þunglyndi eða gefi lífi þínu tilgang. Ég lofa því ekki heldur að þér muni líka svörin.
Ég get engu lofað þér, það er ekki mitt hlutverk. Hvað fer um rásina, eða á hvaða sniði, verði hún notuð, er þitt einkamál.