Þegar saumavélin hrekkur í gírinn

Eftir að hafa rætt ritað greinina „Að læra á saumavél er ekkert grín“ ræddi ég ítarlega við starfsmann hjá viðgerðaþjónustu Pfaff á Íslandi. Voru mér gefin þrenn ráð, sem ég fylgdi og viti menn; Hægt var að sauma með græjunni!

Síðan er búið að sauma og sauma og gera við hitt og þetta. Vélin virtist þurfa einhverja yfirhalningu því Sikksakkið var bilað en allt annað virkaði eins og enginn væri morgundagurinn.

20180208_231915Satt að segja er þrælgaman að nota vélina. Óþarfi er að telja upp hversu rækilega hún hefur greitt sig upp með viðgerðum á þykkum bunka af efnum sem höfðu beðið viðgerðar.

Þegar maður er með Sjeffer hunda þá er algengt að ábreiður og skyrtubolir geti rifnað, sumt er hægt að gera við en sumt þarf að endurnýja.

Það eitt að geta tekið teppi og bútað það í sundur getur lengt tilvist margra ábreiða margfalt og þá ekki síst þær ábreiður sem hundarnir nota sjálfir bæði á gólfdýnum og í búrum. Þá er ekki síður mikilvægt ef hægt er að sauma risastór koddaver utanum teppi og dýnur sem sett eru í hundabúrin.

Það eru ýmis hugarfarsleg atriði sem hér koma upp á pallborðið. Ég er vanur að skrifa – eða ræða á myndskeiðum – um menningarmál af ýmsu tagi en sjaldan sem ég ber mig niður að ræða um of persónuleg mál, nema þá helst að þau tengist menningarmálum.

Eins og margir vita hef ég rætt um margt í myndskeiðum síðustu þrjú til fjögur árin og lært margt á því. Eitt af því sem helst kom mér á óvart var að teljarinn á Youtube sýndi oftast hærri tölur ef rætt var um lítilsigld og persónuleg atriði.

Lærði ég nokkuð af því, meðal annars að menning er ekki bara hugtök, sagnfræði eða hugmyndafræði heldur allt sem viðkemur mannlegri tilveru. Satt að segja eru daglegu hlutirnir s.s. ábreiður og matarvenjur ekki veigaminna en hugmyndir og rökfræði.

Fyrir heimspeking má segja að samræðan sé gagnvirk þegar heimspekingurinn áttar sig á því að áheyrandinn skilur vel heimspekina þó hún sé falin í saumaspori.

Í þessu samhengi má minnast á að nýlega smíðaði ég hnífaparaskúffu og birti myndir af því á Facebook. Skúffan leysti af hólmi eldri skúffu sem ég smíðaði til bráðabirgða fyrir þrem árum. Í báðum tilfellum vakti smíðin mikla lukku en allir vita að eina leiðin til að hnífaparaskuffa virki vel er sú að sérsmíða hana.

20180109_003848Til gamans fylgir hér mynd af rúmteppi sem var saumað nýlega úr tveimur smærri teppum sem keypt voru ódýrt í nytjamarkaði.

Þegar stórir hundar laumast upp í rúm húsbóndans til að kúra þá geta rúmteppi slitnað mjög hratt, því eru slitsterk rúmteppi dýrmæt en þau eru líka fokdýr og mikilvægt bæði að geta gert við slit eða föndrað eins og hér sést.

Þegar þetta er ritað er Pfaff saumavélin nýlega byrjuð að sauma sikksakk, eins og hún hafi hrokkið í gírinn eftir nokkra tugi metra af saumaspori. Á síðustu árum hafa þrenn sængurver skemmst svo illa að þau voru geymd í neðstu hillu inni í skáp, nú eru tvö þeirra komin í gagnið og hið þriðja notað í búta.

Margt fleira mætti telja til gamans. Til að mynda hitti ég á förnum vegi umsjónarkonu saumanámskeiðsins sem minnst var á í síðustu grein. Var það ánægjufundur og er ég bókaður á næsta námskeið þegar það verður.

Ég veit að ég gaf annað í skyn í hinni greininni en sannleikurinn er sá að ég lærði margt af námskeiðunum tveim og hefði ekki náð valdi á saumavélinni án þeirra. Þegar ég hóf þessa för fyrir rúmum tveim árum setti ég sjálfum mér það markmið að einn daginn saumi ég skyrturnar mínar sjálfur. Mig grunar að styttist í fyrstu skyrtuna.

Aðal málið, að mínu mati, er hversu sjálfbjarga við erum, hvort sem það er smíði á skúffum eða einhverju öðru eða saumaskap. Það er langur listi af atriðum sem við nútímafólk kunnum ekki að sinna en afar okkar og ömmur kunnu af myndugleik. Hvort það sé til góðs veit ég ekki, kannski kemst ég að því einn daginn. Þá er spurning hvort til sé heimspekihugtak fyrir þessa stöðu.

 

 

This entry was posted in Annað efni. Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.