Að læra á notaða saumavél er ekkert grín

Fyrir rétt rúmlega tveim árum keypti ég notaða „Singer 22“ saumavél í endurvinnslunni á 5’000 krónur. Viku síðar fór ég á frítt saumavéla-námskeið á vegum Rauða krossins.

saumavel-s22Þá kom strax í ljós að ekki var hægt að nota saumavélina, svo ég skutlaði henni í viðgerð (sem kostaði 11’000 krónur) og lærði á eina af saumavélum Rauða krossins.

Þegar saumavélin kom heim úr viðgerð (en það kostaði Dísel olíu að skutla henni og sækja) var hægt að nota hana að einhverju ráði en hún flækti þó oft. Hélt ég að æfingaleysi eða kunnáttuleysi mínu væri um að kenna.

Ári síðar fór ég aftur á námskeið hjá RK og í þetta sinn gat ég notað saumavélina mína – frekar spenntur að læra að nota þennan galdragrip enda lengi langað til að geta gert við buxur, skyrtuboli eða ábreiður.

Þetta þrennt, að geta framlengt endingu á einföldum buxum eða skyrtubolum getur skipt einhleypa karla miklu máli. Þá getur verið algjör himnasending ef hægt er að skipta um rennilás á úlpu en ég hef oft lent í því að hætta að nota úlpu vegna þess að plastrennilásar hafa takmarkaða endingu.

Ábreiður skemmast oft þar sem stórir hundar eru á heimilinu og því nauðsynlegt að geta gert við þær og ennfremur hrein snilld að geta búið til eigin koddaver (í yfir-yfir-stærð) utan um dýnur og annað handa hundum að liggja á, eða sauma ábreiður fyrir sætin í bílnum.

Ég gafst upp á síðara námskeiðinu því kennslan var frekar léleg og saumavélin var sífellt að flækja. Ég komst síðar að því, eftir því sem æfingin byggðist upp, að miklu skiptir hvernig tvinni er notaður en það á þó ekki að skipta öllu máli.

Þetta var ekki kennt heldur lærði ég það af samtölum við konur í félagsnetinu.

Ég hef gert við fernar buxur, tvenna skyrtuboli, eitt dýnu áklæði (hundadýna sem Sunna skemmdi) og gat gert eigin gardínur. Þannig séð má segja að Singer 22 vélin hafi borgað sig, því ég hef lært heilan helling. Þó gafst ég upp á henni fyrir nokkrum dögum.

Ég var búinn að safna í bing fjórum skyrtubolum og þrennum öðrum flíkum sem þurfti að laga. Þegar flíkurnar þrjár og einn bolurinn (u.þ.b. sjö stuttir saumar) voru komnir, gafst ég upp á að vélin var endalaust að flækja og slíta og hálfur annar tími liðinn.

saumavel-p97Í sömu viku átti ég ferð um nytjamarkaðinn og sá þar Pfaff 97 vél – sem leit út eins og ónotuð – en hún kostaði aðeins 3’500 krónur. Ég ákvað að eyða rúmum þrem sígarettupökkum í eina notaða saumavél og kippti henni heim.

Á netinu fann ég handbók sem ég niðurhalaði og prentaði út, en ég hafði fundið slíkt um Singer vélina einnig og það getur borgað sig þegar kemur að „spólunni“ og öðrum hlutum að geta flett upp.

Í kvöld prófaði ég svo gripinn. Vogun vinnur, vogun tapar, það er hellingur sem ég þarf að laga t.d. tvenn sængurver sem rifnuðu í fyrra og voru neðst í viðgerðabúnkanum. Eftir tveggja tíma baráttu við vélina, sama sagan.

Fyrst braut hún nálina en það var mér sjálm að kenna því ég hafði sett snælduna rangt upp. Sem betur fer átti ég varanál (af hreinni tilviljun) og skipti um. Klukkutíma síðar var vélin búin að slíta þráðinn nokkra tugi skipta og flækja næstum jafn oft.

Stóra spurningin er; Það er hægt að fá ódýrar nýjar saumavélar á u.þ.b. 20’000 krónur eða þar um bil. Singer vélin kostaði tæplega þá upphæð, fyrir utan blóð svita og tár. Ég held að ég tími ekki að setja Pfaff vélina í viðgerð.

Því hvað ef þetta er bara minn klaufaskapur og óþolinmæði? Eða er það bara þannig með saumavélar, ef þær hafna í endurvinnslunni þá hefur einhver (hugsanlega vön saumakona) gefist upp á gripnum. Hvað ef þetta er bara spurning um tvinnann?

Ég hef oft (áður fyrr) séð konur sótbölva saumavélunum sínum og vera í ferlegu basli með þær. Ég hef heyrt frásögur þar sem aðrar höfðu verið við það að gefast upp þegar þær skiptu úr bómullartvinna yfir í pólýester.

Ég hreinlega veit ekki hvað er bezt í stöðunni.

Ekki þar fyrir, í dag kann ég margfalt meira en áður en ég keypti Singer vélina og námskeiðin voru tímasóun. Ég er því sem næst ákveðinn í að Pfaff vélin fari í gáminn á næstu dögum og að ég finni mér ódýran grip eins og fyrr var nefnt, en maður efast samt. Því þetta eru soddan galdrafræði.

saumavel-vintageAmma átti eina handsnúna Singer saumavél sem hún keypti fyrir krists burðu og saumaði allskonar á, jafnvel gallabuxur á fjandann sjálfan.

ún flækti aldrei og þau tvö skipti skipti sem ég man að hún bilaði var nóg að fjósamaðurinn opnaði hana og hrærði inn í hana með grófri töng.

Einhvern veginn er þetta allt saman voðalega flókið! Meðan ég man, ég á afmæli á morgun, nei, ég vil ekki saumavél í afmælisgjöf.

Ítarefni

Ps. Miðað við stutta könnun á netinu, eftir að greinin var rituð, sýnist mér að rétt sé að athuga með viðgerð og yfirferð á Pfaff vélinni, ef það virki ekki að kíkja á nýja Husquarna.  Eins og fyrr segir, eftir nánari íhugun, þá borgaði Singer vélin sig en það var engu að síður rétt ákvörðun að farga henni.

Eftir að þessi grein var rituð bættist í reynslupokann sem varð tilefni annarrar greinar „Þegar saumavélin hrekkur í gírinn.“

 

 

 

This entry was posted in Annað efni and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.