Laun Biskups eða þjóðhöfðingja kirkjuríkisins

Þó nokkkur umræða hefur skapast síðustu daga um launamál Biskups hinnar svökölluðu Þjóðkirkju en réttnefni hennar er Lútersk evangelísk kirkja Íslenska Lýðveldisins.

gudjon-img--0288Áhugavert er að þjóðfélagsverkfræðingar hófu umræðuna viku fyrir jól. Í mínum huga virkar það sem árás trúleysingja á kirkjusókn og þeir einu sem þeyta þessu áfram á samfélagsmiðlum eru trúleysingjar sem trúa á orðhengilshátt og peníngaþvaður.

Eitt besta dæmið um tómleika samtímans og fátæklegt gildismat er grein sem birtist á kjarninn.is þann 20. desember síðastliðinn. Greinin sjálf er gjörsneydd innihaldi og í alla staði óáhugaverð, ekki er rétt að svara henni efnislega heldur nota hana sem viðmið til að ræða málefnalega um umræðuna sjálfa og hvað hún táknar.

Greinin á kjarninn.is: „12 ára kyrrstaðan sem Þjóðkirkjan er að tala um útkýrð.“

Greinin snýst um sama hugarmoldviðrið eins og svo margt annað hérlendis. Segja má að allt innihald hennar hjúpist í þeirri fullyrðingu í lokin að nú sé sögulegur flótti fólks úr Þjóðkirkjunni. Við rýni í tölur sem nefndar eru í því samhengi þá er ekkert sögulegri flótti úr ríkiskirkjunni nú en oft áður, hvort sem það er borið saman við fólksfjölgun eða ekki.

Til að mynda mætti benda á að á sama tíma hefur genetískum Íslendingum fækkað en erlendum Íslendingum fjölgað en innfluttir gætu til að mynda tilheyrt annarskonar söfnuðum og verið frekar merki um að innra trúarlíf lýðsins sé að breytast smámsaman.

Þá skal bent á að greinin hefst á tilvísun í Þjóðina.

Ekki er öllum ljóst að í menningarlegum skilningi er Þjóð og Lýður ekki sami hluturinn. Lýðurinn er hinn lítt skilgreindi múgur sem lætur stýra sér með áróðri og innprentun meðan Þjóðin eru þeir sem eru „skráðir þáttakendur í félaginu Lýðveldið frá 1944“ en skráður þáttakandi er ekki hið sama og skráður meðlimur.

Félagið er háð vissum félagarétti og meðlimir í stjórnkerfi þess sitja við háborðið meðan lýðurinn hefur atkvæðisrétt um valdahlutfall skilgreindra hópa við eitt háborðanna.

Meðan Lýðurinn hefur ekki skilning á framangreindu þá er umræðan sem borin er á borð ómarktæk, því hún ber mun meira þann svip að vera áróðursgrein til að móta viðhorf skoðanahrærðs skríls en bréf til þjóðar.

Til að mynda þá er til hópur sem er svo til óskilgreindur sem í daglegu tali nefnist Skuggavaldið sem beint eða óbeint stýrir þjóðinni við háborðið. Þetta skuggavald er vel meðvitað um að ríki er hugarástand og að holdtekja – eða hamur – ríkisins birtist í réttu hlutfalli við fjölda þeirra sem trúa á hugmyndina eða ástandið.

Aðilar að skuggavaldinu vita að innan kirkna (eða trúarhópa) eru þúsundir fólks (hvorki lýður né þjóð) sem ekki trúir á lýgveldisástandið heldur trúir það á kirkjuríkisástandið og þessu fólki er slétt sama hvort þjóðhöfðingi þess hafi milljón eða tvær í laun.

Flest þetta fólk áttar sig á að ríki er hugmynd og á mjög oft auðvelt með að höndla frumspekilegar hugmyndir.

Inntak greinarinnar sem vísað var til er því orðhengilsháttur um hvernig Þjóðin við háborðið útbýtir fjármunum sem hún á með réttu á meðan lýðurinn samþykkir þegjandi og orðalaust hvernig elítan skilgreinir og útfærir gjaldheimturöskun sína. Eitt af helstu dáleiðslutækjum Marxísk-húmanismans síðustu hálfa aðra öld er krafan um jöfnuð án tillits til erindis eða verðskuldunar.

Hver hefur til að mynda barist fyrir lýðræði og eða kosningarétti? Hvorutveggja er útbýtt af elítunni (þjóðinni) handa skrílnum (lýðnum) og honum síðan gefin skylda til að innprentast í skólakerfi sem skilgreint er af sömu elítu. Sama elíta elur því næst á mælanlegum verðgilda-áróðri um penínga sem kemur skrílnum ekkert við; Enda hefur skríllinn bæði afhent vald sitt og vanið sjálfan sig á sinnuleysi gagnvart merkingarfræði og leyft sér þá sjálfsblekkingu að skoðanir séu afstaða.

Öll greinin – sem hér er gagnrýnd – fjallar um mælingar á launum embættismanna; Biskup Þjóðkirkjunnar er þjóðhöfðingi kirkjuríkis og sættir sig við að nefnast æðsti embættismaður kirkjustofnunar ríkisins á meðan hann er hernuminn. Á meðan fær hann stríðsskaðabætur og þegnar hans vita vel hvað það táknar.

Höfum í huga, að Húmanistaríkin eru tveggja til þriggja alda gömul – eftir því hvaða mælistiku við notum.

Kirkjuríkið er sautján alda gamalt og býr að betur útfærðri heimsmynd og betur varinni kreddu (dogma) en húmanisminn. Auk þess hafa húmanistaríkin staðið fyrir nær öllum þjóðarmorðum og verstu styrjöldum sögunnar, þó ríkisheilaþvotturinn haldi öðru fram.

Aukinheldur, þá skiptu kirkjuríkin sér minna af heilaþvætti í skólum en húmanisminn gerir. Ef við setjum framangreint – þó stiklað sé á stóru – í samhengi við umræðuna um upphæðir, þá er morgunljóst að upphæðadáleiðsla er gildislaust gæsakvak og því tæplega svara vert.

Rétt er að taka fram að ég er hvorki vinur Húmanistaríkjanna né Kirkjuríkjanna né neinna annarra ríkjahugmynda sem setja sig í andstöðu við Hið guðdómlega ríki (Divine state). Sem eingyðistrúarmaður þá viðurkenni ég ekkert yfirvald nema skapara alheimsins.

Sem manneskja (human) þá hlýt ég þó að velta fyrir mér merkingu hlutanna, nokkuð sem mannverur (human beings) eftirláta fræðimönnum húmanismans og láta sér duga þvætting á borð við allir vita meðan þeir hringsnúast eins og hvolpar á eftir græðgis- og ástríðuskottinu á sér.

 

 

This entry was posted in Heimssýn and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.