Segð og Orðræða í sögu hugsunar og málfars

Þegar Morgunblaðið íslenskaði enska orðið Browser sem Vafra, líkaði sumum vel og öðrum miður. Sjálfur var ég hrifnari af heitinu Gramsari en það kom frá manni sem notar Vafra mikið við að gramsa á Netinu.

img-coll-0266Ég reyndi um tíma að nota orðið Rápari því það var rétt orð samkvæmt Tölvuorðasafni Íslenskrar málefndar. Ég gafst þó upp á að reyna að ýta við lesendum Morgunblaðsins og áheyrendum þessara lesenda.

Vafri er kominn til að vera, rétt eins og Tölva og Vista en Blokka (texta) hefur vikið fyrir orðinu Velja. Vafri er ágætis orð, þó Gramsari lýsi betur því sem við er átt og Rápari einnig.

Rætt var um að rónar vöfruðu um í vímu, að grúskarar grömsuðu eftir gersemum og að fólk rápi um í verslunum eða á almenningi (samanber leitir) eftir einhverju. Vafrið var því næsta stig ofan við skjögrun og rápið stefnulítil leit, en gramsið þarf vart að útskýra.

Morgunblaðið hefur lengi verið útvörður meðal Íslenskra miðla að halda málnotkun okkar Íslendinga réttri og að viðhafa ábyrga og faglega framsetta blaðamennsku (Journalism).

Fyrir þetta nýtur miðillinn í mínum huga og þúsunda annarra ómældrar virðingar. Þó einum sýnist eitt og öðrum annað varðandi sköpun og mótun nýyrða, þá endar samvitund okkar (Collective Conscious) í því að velja það sem er tamara öðru. Menningarvitinn e.t.v. það sem borið var á borð umræðunnar svo gramsarar framtíðar geti kjammsað á og tekur þátt í að að vinda fram sögu menningar okkar.

Ég held að ég sé fyrstur til að skilgreina menningu sem Sögu hugsunar. Gerði ég þetta óvart í einverju myndskeiða minna árin 2014-5 þegar ég var að velta fyrir mér samspili menningar, sögurýni og frumspeki (Metaphysics), ásamt öðrum flötum mannlegrar tilveru, að ég endaði á því að allir þræðir mynda saman einn kaðal sem er menning og að hún rís úr hugsun, að allt sem maðurinn tekur sér fyrir hendur eða ræðir um, eða íhugar með sjálfum sér, er bundið við hugsun hans hversu skýr eða skráð hún kann að vera.

Á þessu sviði hefur Morgunblaðið staðið sig frábærlega, allt frá stofnun sinni, að vera útvörður og klettur í hugarbrimi óvandaðs máls og hroðalegrar umfjöllunar sem víða viðgengst.

Samanber orð Davíðs Oddssonar – sem ég því miður man ekki orðrétt – þar sem hann var að benda óvildarfólki sínu á að hann hefði aldrei stöðvað lesendabréf sem bærist blaðinu í ritstjórnartíð sinni vegna pólitískra skoðana eða pólitískrar réttsýni (Political Correctness). Tek ég hann á orðinu með þetta en hef þó ekki látið á það reyna, né hef ég hugsað mér að gera það.

Persónulega lít ég niður á miðla á borð við Fréttablaðið, sem er í mínum augum yfirborðskenndur og grunnur snepill sem troðið er óboðnum inn um hverja bréfalúgu sem finnst, í þeim tilgangi að selja sem mest af auglýsingum og skáka fram lágkúrulegri fyrirsagnafréttamennsku ; Sem illu heilli margir Umskiptingar og aðrir Neytendur sætta sig við, að bréfalúga þeirra sé notuð sem almannagjá (samanber klof en ekki Þingvelli).

Á þeim árum sem sjálfheilögum Íslendingum þótti sjálfsagt að ég gæti unnið fyrir mér, og hafði til þess heilsu, var ég reglulega með helgaráskrift að Mogganum en ævinlega miða á lúgunni sem bannaði auglýsingapésa. Stundum skildist ekki orðið auglýsingapési, af þeim sem báru út, svo ég bætti við banni á Fréttablaðinu. Enda auðvelt að niðurhala því á netinu.

Stundum lít ég netmiðilinn Vísi, svipuðu auga, en það er af öðrum ástæðum.

Sem vefsmiður hef ég talsverðan áhuga á vissum stöðluðum gildum í vefsíðugerð, sem vefmiðillinn mbl.is fylgir en visir.is síður. Þess vegna líkar mér mbl.is betur en visir.is. Ekki hef ég tekið sérstaka afstöðu til hvort sérstakur munur sé þar á varðandi ábyrga fréttamennsku.

Nýlega sendi ég grein á Fréttablaðið. Ég hafði skrifað þeim fyrirspurn fyrir tveim árum og vissi að ef maður vildi koma einhverju að í málaflokknum Skoðun á visir.is væri það rétta boðleiðin, að senda þeim grein í tölvuskeyti. Ekki var ætlunin að fá birtingu í blaðinu sjálfu en ég gleymdi að taka fram að ég vildi bara fá lesendagreinina birta á Netinu.

Nú bregður þannig við að Morgunblaðið er með sérstakt viðmót til að taka við lesendagreinum og ég hef tvisvar fengið þar birta lesendagrein. Það ferli býður manni að vista greinina innankerfis (Online) og sendir manni staðfestingarskeyti (Email) þegar greinin er komin inn. Þar getur maður einnig sett inn mynd af sér og lýsingu.

Á visir.is er hins vegar bara boðið upp á að senda skeyti og maður fær ekkert staðfestingarskeyti um hæl.

Nýlega ákvað ég að gera tilraun með visir.is og sendi þeim skeyti með grein í viðhengi. Meira af forvitni fyrir ferlinu en miðlinum. Ekkert svar. Ég sá daginn eftir, þó ég hefði rækilega lesið greinina yfir, að í hana vantaði setningu. Svo ég lagaði greinina og sendi á ný. Ekkert svar. Þá beið ég í viku en á þeim tíma sá ég athugasemd frá netvini að hann hafði fengið birta grein eftir mánaðarlanga bið. Ég sendi þeim því skeyti og bannaði birtingu greinarinnar, og skellti henni inn á hreinberg.is. Ekkert svar.

Sama kvöld, eftir að hafa sett greinina mína (Hryðjuverk hugans) á hreinberg.is, ákvað ég að setja saman nýja grein og senda á mbl.is.  Sumpart var ég heitur í hamsi en einnig vegna þess að báðar greinarnar eru um tengt efni, bæði heimspekilega og samtímalega (eða menningarlega) og mig langaði að fá fleiri lesendur að þessum hugleiðingum en annars væri.

Hafa ber í huga að ég hef aldrei þanið mig sérstaklega hvað snertir meginmiðla.

Allflest af því sem ég viðheld í orðræðu (Discourse) er þess eðlis að mér líður nokkuð vel að gera eins og Skuggi (Jochum Eggertsson) gerði um sína daga. Hann reit bækur, greiddi fyrir prentun þeirra sjálfur og dreifði þeim sjálfur. Ég trúi því að hafi maður eitthvað að segja og það reki á fjörur fólks, þá verði eftir því tekið og það hugleitt, og að efni finni rás til leitandi huga. Sumt á hins vegar erindi í lesendabréf.

Enginn sem lesið hefur Brísingamen Freyju, eða Skammir, eftir Skugga, lætur þau rit frá sér ósnortinn.

Ég fékk svar við nýju greininni sem ég hafði sent til mbl.is, strax næsta virka dag. Fékk ég þar tvennar ábendingar, sem báðar eiga fullan rétt á sér. Annars vegar að hvergi finnst í orðabók, né orðræðu á Netinu (utan tvo til þrjá pósta eftir sjálfan mig) orðið Hatursegð. Það er rétt að ég er að setja saman nýyrði, rétt eins og Morgunblaðið gerði fyrir allnokkru. Reyndar er sneitt utan af í grein minni hvers vegna ég nota þetta orð og hvers vegna ég hafna orðinu Hatursorðræða. Hvorutveggja er þungamiðja greinarinnar.

Rétt eins og að fyrsta skráð tilfelli af orðinu Heimspekingur finnst í riti sem Guðbrandur Gottskálksson þýddi og prentaði árið 1600 og Heimspekingaskóli finnst í kvæði frá Guðmundi Bergþórssyni sem prentað var árið 1785. Mér er ókunnugt um hvaða orðabók þeir notuðust við, eða hvaða frumheimildir orðabækur notast við. Þá veit ég að Þórbergur Þórðarson byggði upp orðasafn sem ég veit ekki hvort var nokkru sinni gefið út. Hvort kom á undan, embættismaðurinn eða reglugerðin?

Einnig fékk ég ábendingu varðandi annað atriði við grein mína, og á það einnig fyllilega rétt á sér.

Greinargerð mín hér, samanber upphaf máls, er í engu ætluð til að sneiða að Mogganum, þvert á móti er um hugleiðingu að ræða og heimspekilega spurningu, af sama tagi og Gunnar Dal heimspekingur benti á í bókinni „Að elska er að lifa.“

Var mér bent á að ég setti orðin Discourse og Expression inn í málið á sama hátt og hér. Rétt hefði verið, samkvæmt reglugerð, að setja orðræða (e. Discourse) og segð (e. Expression) til að fá stimpil á málið. Var þetta gert með vilja af minni hálfu og skal útskýrt nánar.

Í fyrsta lagi, þó sumir noti „e.“ til tungumáls aðgreiningar, þá er öllum augljóst að um enskt orð er að ræða en ekki danskt eða franskt. Þeim sem er það ekki ljóst, er sama. Íslenskufræðingum ber saman um að rétt sé að nota íslenska hugtakið og skella erlendu hugtaki í sviga aftanvið. Samanber marga sviga í þessari grein, tungu-forskeyti sé óþarfi. Mogginn er því ósammála og er það vel.

Ég gerði hins vegar hvorugt, eins og Skuggi hefði bent á, því ég braut höfuð Briscianusar, ekki ósvipað því sem Halldór Kiljan gerði reglulega. Ekki veit ég hvort Íslenskum málfræðingum er kunnugt um málfræðirit Briscianusar, sjálfur hef ég ekki séð það en hef lesið um það.

Að brjóta höfuð hans (Breaking Briscianus’s head) er þekkt meðal sumra eldri skríbenta á erlendu máli en minna hérlendis.

Hugsunin að benda á ástæðu málfarsreglna, eða að benda á skammsýni við þýðingar og nýyrði, með því að brjóta höfuð Brisicanusar, er vel þekkt í menningu tungunnar, ekki bara hérlendis. Það hefur Mogginn enga skyldu til að draga að húni, en við hin höfum gott af að vita þetta.

Síðustu mánuðina sem ég gaf út „ET-Tölvublað“ naut ég aðstoðar við yfirlestur og ábendingar frá konu (sem ég ætla ekki að nafngreina án leyfis en upphafsstafir eru M.S.). Hún var um þær mundir að ljúka háskólanámi í Íslensku og leyfði tímaritinu að njóta fræðiþekkingar sinnar.

Tölvublaðið var því miður háður þeirri ónátturu að stundum var vafi með þýðingu eða snörun á enskum tölvuhugtökum yfir á Íslensku og erfitt um vik að nota Tölvuorðasafnið. Úr þessu síðarnefnda bætti ég á kennsluárum mínum, við ritun kennslubóka um tölvunotkun að halda mig við tölvuorðabók sem þá orðin þróaðri og ég hafði betri aðstæður og tíma til rannsókna.

Í tölvublaðinu var hins vegar oft nauðsyn að nota ensk orð og M.S. var ekki hrifin af þessu. Hún benti mér á muninn á því að nota „e.“ í sviganum eða sleppa því og sagði að það væri háð smekk ritstjórnar en hvorutveggja væri rétt. Varðandi að nota ensk orð utan sviga í textanum mætti gera ef þau væru með upphafsstaf og skáletruð og þá sem undantekning.

Þetta hafði hún rætt við prófessor sinn áður en hún tjáði sig um það við mig.

Ég ritaði því Mogganum og tjáði að ég myndi birta greinina (Hatursegð eða orðræða haturs) á hreinberg.is, frekar en að elta ólar við þetta. Upprunalega greinin hafði verið 6.000 slög en blaðið tekur bara við að hámarki 5.000 slögum og talsverður tími hafði farið í að stytta greinina án þess að skerða innihaldið.

Þetta er ekki hitamál í sjálfu sér. Ég hef í dag lítinn krúttlegan lesendahóp að mínu efni, sem ég er meira en sáttur við. Hef ýmsa vefmiðla sem ég hef smíðað sjálfur til að auglýsa efnið, auk þeirra rása sem ég dunda mér við á samfélagsmiðlum s.s. Facebook og Youtube (það má hafa erlend heiti utan sviga og óskáletruð).

Mig langaði bara í eina dagsstund að fá stærri lesendahóp að einu orði.

Orðræða (Discourse) er margfalt stærra hugtak en orðin ræða (Speech) eða segð (Expression). Mér finnst margir Íslendingar vera orðnir svo menningarlega dofnir, að ekki sé minnst á Umskiptinga (Golem). Við vitum að margir Uppvakningar (Ghoul) vita þetta, en þeir eiga m.a. reglugerðir sem öflugar girðingur á milli hugsunar og innprentunar.

Ég hef margbent á að bæði Hatursegð og Hatursorðræða, snýst ekki um hvað hatað sé eða hvort alið sé á því, heldur hinu að Umskiptingar eru fullir haturs og margir Uppvakningar einnig.

Þetta snýst allt saman um hverjir mega beita Þjóðveldisverkfræði sem felst í segðum og orðræðum sem ýta á tilfinningahnappa á fólki sem trúir því að hugsun snúist um að raða saman fyrirsögnum og skóluðum texta sem búið er að innprenta þeim, frekar en ímyndunarafl og skapandi hugsun. Fleiri eru farnir að sjá hvers virði það er að hafa eignarhald á þessari öflugu tækni sem Ástand (State) ríkiskerfanna notar óspart t.d. til að fara með stríð um heim allan.

Er hugtakið Hatursorðræða komið inn í orðabók? Sé flett upp Gagnsæi, bendir bókin á Gegnsæi en ekki öfugt. Lengi mætti þannig þrefa um lokka Hallgerðar.

 

 

 

This entry was posted in Heimssýn and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.