Hryðjuverk hugans

Fyrir hálfum þriðja áratug var ég meðlimur í trúfélagi sem lagði stund á hryðjuverk. Mestur hluti þeirrar starfsemi var fólginn í því að banka á dyr hjá fólki og bjóða saklausum fórnarlömbum uppá samræður um Biblíuna. Þeim sem létu fanga sig, var boðið uppá Biblíunám.

img-coll-0610Eins og allir vita þá eru trúarbrögðin talin í okkar samfélagi uppspretta illsku, heilaþvottar, styrjalda og alls kyns forpokunar á borð við að bæla frjálsa hugsun og vísindi.

Svo hart er fram gengið í stríðinu gegn hinu andlega í vitund mannsins að reglulega eru ákveðnir trúarhópar (eða trúarlegar heimsmyndir) tekin fyrir og djöfluð (Demonized) eða gerð óvinsæl og varhugarverð í hugum fólks.

Fjölmiðlar bæði hérlendis og erlendis birtu tvennar kannanir fyrir um það bil ári síðan, og gerðu áberandi, að á heimsvísu væri aðeins um 55% fólks sem tryði ennþá „á Guð“ eða „að til væri Guð.“ Einnig að á bilinu 30-45% mannkyns væri efins um hvað tæki við eftir dauðann; Algjört tilvistarleysi eða einhver von um framhaldslíf.

Margt var fellt út í þessum áróðri en eins og allir vita er hægt að nota mælanlegar staðreyndir til að móta heimsmynd fólks. Annars vegar að skyldu-námskerfin – sem sumir kalla innprentunarkerfi – hafa kerfisbundið haldið því að ungu fólki síðustu öld og rúmlega það að allt yfirskilvitlegt sé húmbúkk.

Samt trúir enn meirihluti fólks á eitthvað yfirskilvitlegt.

Ennfremur var sleppt að minnast á þá staðreynd að 99% trúaðra efast um tilvist Guðs eða framhaldslíf og líta á efann sem sinn helsta styrk. Flestir hryðjuverkamenn falla inn í 1% hópinn sem er undantekingarfólk og ber vissulega að sniðganga og sporna gegn. Því miður get ég ekki vísað hér í viðurkennda könnun máli mínu til stuðnings heldur reynslu og hyggjuvit, en hinn húmaníski heimur leyfir almennt ekki dýpri hugsun en þetta.

Ennfremur gleymir fólk yfirleitt að minna á þá mælanlegu staðreynd að nær allir landsmenn hafa opinberlega – og löglega – skýrst og fermst til Kristinnar trúar og þar með lýst því yfir opinberlega að trúa boðskap hinnar Lútersk Evangelísku ríkiskirkju. Tæplega er fólk að ljúga með eiðstaf?

Framangreindir punktar eru allir settir fram til að ýta létt á hugarrammann, sem við erum steypt inn í. Reglulega erum við hvött til á vettvangi sjálfshvatningar, ríkis-menntunar og á öðrum rásum hins kollektíva huga að fara út fyrir rammann en um leið og fólk vogar sér að fara rangt út fyrir hann eða of djúpt, má búast við einelti, djöflun eða jafnvel kyrrsetningu (settur í skammarkrók).

Enn síður er bent á hvernig má fara rétt út fyrir hinn heilaga ramma.

Með því að gefa rammanum heilagleika er ég að benda á trúarlega sýn sem ég lærði með því að tileinka mér opinn huga fyrir trúarheimsmyndum. Nefnilega að eingyðistrúin kennir að til séu sjö meginstraumar í hugsun og að hver þessara sjö strauma hafi þrjár hliðar.

Þetta gera tuttuguogeina heimssýn alls og mystík fræði eingyðistrúarinnar (Gyðingdómur, Kristindómur, Íslamdómur, Zaraþústra, Druze, Hopi, ofl.) kenna að til þess að vakna til fulls þurfi maður að geta tileinkað sér þá alla og einnig að geta brotist út úr þeim öllum.

Þetta er ástæðan fyrir að Major Arcana hluti Tarot spilanna innifelur 22 grunnspil, þar af 21 tölusett. Því fíflið hjúpar þau öll og þar með þann sem brotist hefur út úr öllum römmum og frelsað huga sinn og sál.  Húmanisminn er einmitt ein þessara sjö grunn-heimsmynda og innan þeirrar heimsmyndar eru viss hugargildi hafin yfir allan vafa og í vissum skilningi haldin heilög.

Eins og flestum sem leggja stund á sálfræðirýni má vera ljóst, þá skiptir engu hvort við erum trúlaus eða trúuð, sálfræðin er sammannleg um allan heim og á öllum tímaskeiðum. Því meira sem við vitum eða kunnum af mælanlegri þekkingu, hvort sem um er að ræða framþróun eða afturför, þá er ekki að sama skapi víst (í öllum tilfellum) að sálarþroski fylgi með.

Þannig séð er eitt heilagt fyrir húmanista, annað fyrir kristnum og þannig mætti lengi telja. Við þessa ofureinföldun er gott að hafa í huga að undirritaður hefur hér 21 heimsmynd í huga, og að bæði forn Egyptar og forn Indverjar litu á að þessa tölu mætti tvöfalda (með því að lesa hverja mynd á hvolfi) enda var talan 42 heilög hjá þeim báðum.

Sumpart má velta fyrir sér hvort Douglas Adams hafi verið meðvitaður um þetta eða innblásinn þegar hann reit „Vetrarbrautar vegahandbók puttaferðalangsins.“ Í það minnsta er öllum mönnum – körlum og konum – hollt að tileinka sér hárbeitt háð hans þegar skautað er á svelli hættulegra hugmynda.

Undanfarið hefur borið á því að lögregla Lýgveldisins (g’ið á að vera þarna) viðheldur deild sem fylgist með skoðanaglæpum. Þetta er mildað með orðhengilshætti og uppnefnt hatursorðræða (sem aftur er léleg þýðing á hugtakinu Hatursegð).

Sama lögregla hefur ítrekað verið uppvís að skuggalegu ofbeldi í garð borgara, sem langt mál er að telja upp hér og undirritaður hefur margsinnis gert ítarleg skil á öðrum vettvangi. Veit ég af reynslu minni af samræðum við fólk víða í samfélaginu að raun-listinn er mun lengri en mín útgáfa.

Það er rétt að til er klásúla í Almennum hegningarlögum frá Ríkisþinginu, sem almennt er uppnefnt Alþingi*, sem tilgreinir bann við skoðanaglæpum að viðurlagðri allt að tveggja ára refsingu. Ekki er langt síðan felld voru úr gildi lög sem bönnuðu Guðlast, sem er einnig skoðanaglæpur.

Önnur lögin leyfa lögreglu að Athuga, Ákæra og nánast að Dæma og Böðla, hin síðari eru arfur frá tímaskeiði þegar Húmanisminn var ekki hin heilaga kýr almennrar heimsmyndar, eða innprentunar og stjórnkerfis.  Þá má rifja upp að einnig er til klásúla sem tilgreinir að setja má dómara í allt að 16 ára fangelsi fyrir dómsglöp (eða dómsmorð).

Ég veit ekki hvort þessi stutta grein um merkingarfræði og hugtakaskilning skilar sér skýrt eða birtist í huga fólks sem moð og þvæla. Ekki er öllum gefið að tileinka sér heimspekilega nálgun á orðræðu eða að fara út fyrir rörsýn neytendahyggjunnar eða snúa henni yfir í neitendahyggju.

Sjálfum þykir mér nokkuð skýrt að hægt er að beita hryðjuverkum á hugsun.

Jafnvel má færa fjöldadáleiðslu út fyrir ramma sértrúarsafnaða og beita á heilu þjóðirnar. Ennfremur hef ég kynnst á eigin skinni að þegar maður er fangaður í niðurnjörfuðum ramma hinnar réttu hugsunar þá sér maður ekki eigin heim með gestsaugum og er því blindaður af múrvegg sem býr innan hugans sjálfs meðan hugurinn sjálfur horfir á ramma þeirra huga sem hann á samfélag með.

Sem dæmi, þá hef ég reynslu af því að fara með börnum út í náttúruna á aðventunni og kenna þeim að sjá tröllin og segja þeim sögur af því þegar tröllin útdeildu fjórtán hlutverkum sín á milli til að leika jólasveina og færa fátækum Íslandsbörnum gleði og kærleika á erfiðum tímum í sögu okkar.

Fjórtándi jólasveinninn heitir Letihaugur en hann er hvergi nefndur í meginstraums sögunum því hann kemur ekki til byggða. Sögu hans hef ég gert ítarleg skil á öðrum vettvangi og á ekki erindi hér.

Hitt á erindi og það er að þau börn sem eiga sögustund með foreldrum sínum, sem kunna að draga úr ríkidæmi menningarsögu okkar, eiga betri jól en þau sem þurfa róandi í innantómu jólagjafafjalli. Ennfremur að fólk sem kann að nota arkitýpur sagna og góðra fræða, sér til hugardýpkunar og víðsýni, leyfir sjaldan hugarstreitu neysluhyggjunnar eða rörsýn fjödadáleiðslunnar að njörva sig niður.

 

 

* Alþingi er gæluheiti fyrir Allsherjarþing sameinaðra Héraðsþinga, sem öll voru sjálfstæð og 39 talsins þegar mest var.

 

This entry was posted in Heimssýn and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.