Hver er skjalfestur og réttur eigandi barns?

Það eru innan við tvö ár síðan ég sá myndskeiðin hennar Sunnu, þar sem lögreglufólk – rekið áfram af skjali í höndum starfskonu Barnavaldanefndar – ruddist með valdi inn á heimili Cassie og þreif með valdi og yfirgangi börnin hennar, beitti hana sjálfa ofbeldi, og hurfu á braut.

img-coll-1626Á sama tíma voru fjölmiðlar duglegir að draga Sunnu í svaðið og útmála hana – fjögurra barna einhleypa móðurina – sem slæma konu og móður í augum alþjóðar. Mest voru notaðar yfirborðsfréttir af ásökunum og dylgjum innan réttarkerfisins og hún hiklaust dæmd áður en réttað væri yfir henni.

Ég vissi þá þegar hver Sunna var, því ég hafði séð djörf myndskeið sem hún hafði þá framleitt og sett á netið, þar sem hún meðal annars sletti skyri í garð Íslenskra Femínista, aðallega kvenkyns, af djörfung á öðru tungumáli sínu, en hún er tvítyngd á Íslensku og Ensku.

Hafði ég tekið eftir að sjálfsréttlátum íslenskum konum – og fáeinum eineistingum – með réttar skoðanir og fágaða heimssýn létu sér líka þetta miður og um svipað leyti sé ég að Teknókratískt kerfið var byrjað að leggja hana í einelti. Nokkuð sem ekki er einhlýtt á okkar fróma landi þegar einhver fer rösklega út fyrir hinn ísó vottaða ramma

Ég ætla ekki að rekja mál þeirra Sunnu og Cassie hér. Slúðurblaðamennska yfirborðs-elítunnar og umræða annarra bómullarbúa hefur rækilega gert þeim skil, flestir til að rakka þær niður en einstaka mjóróma rödd reint að verja þær falli.

Sjálfar voru þær duglegar að bókfæra í ræðu og myndskeiðum það ofbeldi sem þær voru beittar, ekki síst á engilsaxnesku, og láta okkur sem umhugað var um að þær fengju að njóta sannmælis og réttlætis fengju að fylgjast með.

Sumt efni hafa þær fjarlægt, aðallega Sunna, og annað efni verður á Netinu svo lengi sem ritskoðunarstefna sjálfsheilagra og Sameinuðu Þjóða-slefbera ná ekki að koma á Sovéskri ritskoðun.

Sem betur fer náði ég sjálfur að taka skjámyndir af fyrsta myndskeiðinu sem er í dag horfið af Túbunni.

Skjámyndirnar setti ég saman í mitt eigið myndskeið, í vanþóknun yfir framkomu hinnar svonefndu Valdstjórnar og það hefur í dag fengið um þúsund skoðanir, vonandi fær það að vera áfram á sínum stað.

Eitt af því sem sló mig á þessum tíma meðan samfélagsmiðlar og slúðurmiðlar voru sem mest duglegir að leika þeytivindur og sletta skyri upp um alla skjáveggi, var hversu margir – og þá aðallega konur – voru duglegir við að tjá sig um persónuleika bæði Sunnu og Cassie.

Hafði ég sumpart gaman af slugshugsun sveitunganna sem hlupu með óhróður um annað fólk sín á milli en um leið hneykslaðist yfir að nær því enginn stóð með konunum í baráttu sinni fyrir að halda heimili og börnum í friðsemd heimilis og sálar.

Þvert á móti virtust mörgum skynugum konunum það sjálfsagt að börnin væru hirt af Sunnu fyrir að vera skaplynd og af Cassie fyrir að einhver ljósmynd – í miðjum innflutningi hennar – sýndi að eitt gólfhorn væri rangt sópað. Áminnti ég sumar þessarar konur, en ég má leyfa mér slíkan dónaskap því ég er dæmdur misyndismaður og hef ekkert nafn að verja.

Aldrei kom neinsstaðar fram í neinni umræðu, hvorki af hálfu yfirvalda (dómstóla, barnavaldsins eða lögreglu, hvað þá blaðamanna með heilög viðhorf) hvort þær væru slæmar mæður eða ekki. Engar áþreifanlegar lýsingar, engar sannanir, ekkert óvéfengjanlegt kom fram.

Annað sló mig á sama tíma og það voru uppljóstranir sem bæði Cassie og Sunna létu frá sér fara og konur í mínu tengslaneti staðfestu við mig munnlega. Nokkuð sem ég hafði aldrei heyrt talað um og hef ekki enn séð nokkra fjölmiðla snerta á.

Nefnilega að einhleypar mæður – og mæður í sambúð – sem byggju hérlendis sem flóttafólk eða nýbúar væru iðulega skotspónn hinnar valdamiklu nefndar og að enginn talaði máli þessara kvenna og foreldra, fáir ef nokkrir verðu þær og að iðulega sætu þær eftir án barna sinna eða reknar á götuna og börnin rifin af mæðrum sínum og send til vandalausra sem fengju af því góðar tekjur.

Framangreint dugði mér til að ég hef iðulega á mínum rásum, ritvöllum eða myndskeiðum, minnt á að ekki er allt með felldu hvað snertir valdsvið Barnavaldanefndar eða þeirra valdstjórnar stofnana sem henni þjónar, verndar, hlýðir og fjármagnar.

Hef ég ítrekað tekið eftir að það er eins og að benda sótsvörtum skjálfandi almúganum á að litla stúlkan með eldspýturnar sitji fyrir utan gluggan þeirra á jólanótt á meðan nakinn keisarinn heldur tískusýningu.

Ef eitthvað er, sé ég í sífellu heilagar íslenskar mæður með góðar pólitískar skoðanir, láta hafa eftir sér á samfélagsmiðlum og í athugasemdaþráðum að nauðsynlegt sé að taka börn af mæðrum sem séu vanhæfar. Sjálfsagt mál segja þær.

Þessum mæðrum yfirsést að vanhæfar mæður eru innan við eitt prósent af mæðrum yfirleitt.

Þeim yfirsést einnig að aldrei hefur tekist í sögu mannkynsins að setja fram óumdeilanlegan staðal um hvað gerir móður vanhæfa eða vonda, eða hver séu ófrávíkjanlegar aðstæður til að valda börnun þeim ómælanlega skaða að vera hrifin af ókunnugu fólki úr örmum móður sinnar og vera daginn eftir vistaður hjá vandalausum.

Yfirleitt þykir mér þegar að þessari umræðu kemur við venjulegt fólk að gægjugat hugans á muninn á (góðu) siðferði annars vegar og siðrofi hins vegar sé blindað af einhverju sem ég hvorki veit hvað er né kæri mig um að skilja. Ég hef lært það á mínum eigin farvegi að þegar reynt er að skilja flómsku annarra að þar eru mörk. Til er hyldýpi annarrar sálar sem best er að standa álengdar frá og aðeins vita af í fjarlægð.

Engin þeirra mæðra sem ég hef rætt við hefur treyst sér til að svara þeirri spurningu hvort heimili þeirra myndi standast rýni Barnavaldanefndar, eða hvernig þeim brygði við ef grannkonur þeim reiðar myndu senda nafnlausa ábendingu til yfirvaldsins.

Þó hef ég fengið einhver viðbrögð hjá velmenntuðum borgurum Lýgveldisins, þegar ég spyr eftirfarandi; Hvort hugsar betur um barnið, sá sem fleygir sér fyrir strætó til að bjarga því eða sá sem sendir einkennisbúna KGB þjóna til að ræna því hágrátandi og senda út í hinn stóra ókunna heim?

Sjálfur á ég ekki barn, en ef ég ætti það og ef reynt væri að ræna því af mér, hvort heldur með undirritað skjal í höndunum (af yfirmanni þess sem framkvæmir); þá fengi sá hinn sami vel brýnda exi í hausinn, þó ég viti vel að sama dag kæmu grímuklæddir KGB þjónar og skytu mig eins og Sævar.

Barnið mitt kæmist þá að því þegar það fullorðnast, að pabbi reyndi að verja það og galt fyrir með lífi sínu.

Framangreind orð eru sett hér fram sem dæmi um tilfinningu en ekki ásetning. Ég hef lofað sjálfum mér því að beita aldrei aftur ofbeldi, og margútlistað að ofbeldi er síðasta úrræði tæmds huga, sem ég stend við.

Exin er notuð sem vitnisburður um siðrof þjóðar sem samþykkir þegjandi, og opinberlega réttlætir, að fólk vopnað skjali og sjálfsréttlætingu geti rænt hvern sem er því dýrmætasta sem þú átt, börnin þín og heimilisfrið.

Slík þjóð mun uppskera dóm en ég veit ekki hvernig hann verður. Ég veit hins vegar að sú var tíð á landi hér að menn sem hefðu varið börnin sín með exi hefðu verið álitnir hetjur en ekki yfirlýsingaglaðir kjánar.

Eins og fyrr segir þá er ég barnlaus og mun verða það, og er sáttur við það. Satt að segja, miðað við framgang Lýgveldisfólks og sjálfsheilagra í minn garð síðasta áratuginn væri búið að hirða af mér krógana fyrir löngu, svo það er kannski best þannig.

Ég hef hins vegar hjarta, sál og huga.

Ég áttaði mig á í umræðu síðustu tveggja ára að ekki bara væri pottur brotinn hérlendis heldur stórt í honum skarðið. Síðan í vor hefur Íslenska Óréttarríkið samþykkt að erlent ríki hafi vald yfir borgurum sínum; þvert á stjórnarskrána sem okkur er sagt að hér gildi og sé lögum æðri.

Ekki nóg með að dómstóllinn sé ógildur – því hegningarlög tilgreina að viðurlög við réttarafglöpum allt að sextán árum – heldur ráðuneytið sem pantaði dóminn er sjálft í trássi við bæði heilbrigt siðferði svo og stjórnarskrána.

Að ekki sé minnst á þjóðina sem mótmælir því að kona nokkur geymi arfshlut í útlöndum en sinnir ekkert um það gróflega mannréttinda og virðingarbrot – að ekki sé sagt glæpur gegn þjóð – sem hér er viðhafður.

Halda mætti að engir foreldrar búi landið né heldur læsir og skrifandi, hvað þá hugsandi. Vona ég að mér fyrigefist svo djörf yfirlýsing. Því ég áttaði mig hægt og hljótt á því hvað málið snýst um, því allt framangreint er blekking, útúrsnúningur, orðhengilsháttur og villusýn.

Málið snýst um eignarrétt.

Það er með vilja sem þjóðfélagsverkfræðingar og áróðursmeistarar skuggavaldsins hafa komið því inn hjá okkur að við höfum aðeins forsjárrétt yfir afkvæmum okkur og innprentað okkur að skjalavaldið og ríkisnefndir embættismanna hafi óskorað dómsvald til að milli færa forsjárréttinn.

Með öðrum orðum; þú átt ekki afkvæmi þitt, heldur ríkisvaldið.

 

 

This entry was posted in Heimssýn and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.