Hjarðhegðun er fyndin

Nýlega sat ég í náttúrulaug úti á landi, sem er svosem ekkert merkilegt. Hvaða Íslendingur hefur ekki farið í náttúrulaug ef hann veit af henni á ferðum sínum? Við öll – tja, næstum öll – elskum landið okkar ofar öllu öðru. Ef frá er talið Sjálfið og Skaparinn.

Photo1283Þeir sem ekki trúa á skapara verða bara að sætta sig við að hafa skapað sig sjálfir.

Svo sem margir landar mínir vita er ég vís til að brydda upp á umræðum í heita pottinum, enda lærði ég það af mér betra fólki og má ekki minni vera. Hver hefur ekki skeggrætt landsins gagn og nauðsynjar í heita pottinum, eða hlustað á innihaldsríkar samræður þar?

Þetta kvöld, undir stjórnubjörtum himni í návist Íslenskra fjalla, átti ég samræður við venjulegan Íslenskan fjölskyldumann sem sinnir sínu starfi, á sín áhugamál, og er lítt gefinn fyrir heimspeki. Opnaði hann augu mín fyrir ýmsu varðandi samfélagsmál, lýðræði, ábyrgð einstaklings í samfélagi og gildi þess að vita hvað maður meinar og meina það sem maður segir.

Benti hann mér á – vissi það sosum fyrirfram en hafði sneitt hjá að hugleiða – að fólk stjórnast af hjarðhegðun. Var hann mér þó sammála um að fólk er ekki fífl, heldur fyndið. Þannig spunnust samræður okkar áfram og hugleiddu gildi Íslenskrar þjóðarsálar. Eitthvað sem hver einasti Íslendingur hefur vit á.

Íslenska þjóðin var ekki til árið 900. Hún fæddist þrem áratugum síðar þegar hún ákvað að halda sitt fyrsta Þjóðþing. Þá voru rúmlega þrjátíu héruð á landinu sem hvert leit á sig sem sjálfstætt og hafði sitt eigið þing og sinn eigin foringja. Landið hafði byggst á innan við öld af ómenntuðu flóttafólki sem kom hingað á lekum árabátum – að vísu stórum – og settist hér að langt í burtu frá Evrópskri menningu.

Þetta var fólk sem vildi lifa sjálfstæðu lífi og það fyrirleit konungsvald og hjarðhegðun. Þetta var fólk sem vildi samræður jafningja á virkum héraðsþingum. Þetta fólk reif kjaft og lét stundum vopnin tala en virti þó lýðræðislegar niðurstöður meir en nokkuð annað. Þetta fólk bjó til okkar sjálfstæðu og þverlyndu hugsun.

Hvaða Íslendingur getur hugsað sér að kjósa kóng?

Hvaða Íslendingur lætur segja sér hvað sé rétt eða rangt? Allir Íslendingar virða þó niðurstöðu kosningar, þó hún sé röng. Hvern fjandann skiptir máli að einhver breti ætlar að bjóða kærustu sinni hingað? Eru bretar heilalaus hjörð?

Ég biðst afsökunar á ljótu orðunum – þau eru ekki illa meint. En studnum spyr maður sig hvaða forgangsröð ræður í fjölmiðlum þöggunar og dáleiðslu. Hvernig væri að fjölmiðlar segðu okkur frá vogunarsjóðunum sem eiga bankakerfið? Hvernig væri að þeir sýndu viðtal við konungborinn mann sem útskýrði að vogunarsjóðir eru fjárhættuspil. Er Íslenska efnahagslífið spilavíti?

Hver á spilavítið?

 

 

 

Þessi pistill birtist áður á gudjonelias.blog.is

 

 

 

This entry was posted in Þjóðveldi and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.