Ég las stutta hugleiðingu í fjölmiðli fyrir fáeinum árum þar sem yfirskriftin var einföld; Bænin. Eins og allt trúað fólk á ég persónulegt samband við bænina sjálfa en ekki endilega við vættinn sem beðið er til.
Þessi fullyrðing kann í fljótu bragði að virðast frekar djörf og því krefst hún útskýringa því hún er flókin.
Trúað fólk biður reglulega og óreglulega. Sumir hafa vanið sig á að fara með kvöldbæn og aðrir morgunbæn og sumir hvorutveggja.
Til er fólk sem fer með stutta bæn í huganum þegar það ræsir bifreiðina og leggur af stað. Sumir biðja ávallt þegar þeir fara út um útihurðina.
Enn aðrir biðja eingöngu þegar þeir muna eftir því og muna oftar eftir því þegar þeim líður illa eða eitthvað bjátar á frekar en þegar vel gengur og þeim líður vel, svo þróa þeir samviskubit yfir að vera ekki trúræknari.
Þess vegna segi ég, persónulegt samband við bænina sjálfa. Hvað við setjum í bænina er einnig persónulegt og kemur engum við nema okkur sjálfum og þeim sem við biðlum til. Margir nota frekar mótaðar bænir úr bænabókum eða meistarabænina sem Jesú kenndi.
Þannig sjáum við að bænin sjálf, hvernig við venjum okkur á að umgangast hana – sem frumspekilegt fyrirbæri – er persónulegt samband við fyrirbærið og athöfnina, ásamt þeim hugleiðingum sem þar hverflast, frekar en endilega samband við þann sem biðlað er til eða rætt við.
Greinin sem ég nefndi hér í upphafi benti á að við mættum aldrei leyfa okkur að verða fyrir vonbrigðum með hvort og þá hvernig bænum okkar væri svarað, því þær væru ekki formlegar umsóknir samkvæmt guðfræðilegum mannréttindum heldur beiðni og að henni yrði að fylgja viss auðmýkt ættum við að vera heil gagnvart henni.
Hér mætti bæta við einni uppáhaldssetningunni sem ég hef heyrt í upptökum Alan Watts; Til að taka eitthvað frá borðinu þarftu að bera eitthvað að borðinu.
Ég hef oft gagnrýnt fyrirbærið Innhverf íhugun (Meditation) og þá ekki að fólk stundi hana heldur að fólk verður að stunda hana undir leiðsgögn reynds dulfræðings (Experienced Mystic) og þá er ekki nóg að dulfræðingurinn hafi farið á tvö námskeið og iðkað íhugun í örfá ár.
Reyndur er hér í merkingunni að lágmarki tveir áratugir og Dulfræðingur merkir hér aðila sem hefur iðkað andleg fræði með einhverri viðurkenndri (eða þekktri) aðferð í álíka langan tíma en þó ekki endilega ávallt sömu aðferðinni.
Dulspekingur er einnig dulfræðingur en þó má greina þar á milli og segja að spekingurinn sé sambærilegur Kaþólskum leikmanni annars vegar og fræðingurinn Kaþólskur guðfræðingur. Látum þó gott heita, því spekingar eru engu síðri en fræðingar.
Fólk sem iðkar Íhugun í samtíma okkar notar hana oft sem leið til að kyrra hugann og ná tilfinningalegri og andlegri firrð í iðukasti borgarlífsins og annarra nútímaþátta. Oft er hún kennd af fólki sem hefur lesið nokkrar bækur, farið á nokkur námskeið og kann slangrið. Frasana og tónana sem eru notaðir til að gefa til kynna ákveðna mýkt og andlegan blæ.
Sumir dulspekingar eru fæddir með ófreskigáfu (meðfæddir miðilshæfileikar) og flestir slíkra hafa þroskað hana en á mismunandi máta. Sumir hafa t.d. skerpta sýn á tilfinningalíf fólk sem það vinnur með, aðrir geta séð dulda vætti og jafnvel átt við þá samskipti, og á milli þessara tveggja póla er urmull af reynslu.
Fæstir átta sig á því að Innhverf Íhugun er hluti af trúarkerfi sem heitir Hindúismi og að Jógar eru fræðimenn innan þess trúarkerfis. Þessi fræði eru mörgþúsund ára gömul og iðkuð í fúlustu alvöru til að meðhöndla andlega, tilfinningalega og röklæga vitund mannsins ásamt hinni líkamlegu.
Hindúísk fræði, rétt eins og öll andleg fræði, hafa í sinni verkfæraflóru mörg mismunandi tól til að vinna með áðurnefndar fjórar vitundir mannsins ásamt þeirri fimmtu sem er óskilgreind, og eru notuð að eiga samskipti við eða meðhöndla þá krafta og (hugsanlegar) verur sem talið er að deili sama alheimi og við mannverur.
Að nota slík fræði sem streitulosunartól í hálfkæringi og yfirborðsmennsku, er álíka og hleypa óhörðnuðum unglingi á sportbíl út í umferðina í Istanbúl.
Nú spyr lesandinn hvaða samhengi sé á milli bænar og íhugunar en það mætti vera augljóst. Um er að ræða tvær nálganir á sambærilega hluti. Sem dæmi má benda á að Ultra Orthodox og Orthodox rabbínar í Júdaisma – sem eru mjög færir dulfræðingar – leyfa ekki sjálfum sér að iðka Kabbala fræði fyrr en á miðjum aldri.
Öll viðurkennd andleg fræði – öfugt við andlegt fúsk eða grúsk – fela í sér dulmögnun á orku, krafti, innsæi, víðsýni og dýpt sem getur yfirkeyrt, afbakað og jafnvel sturlað þann sem ekki meðhöndlar aðferðir þessar af virðingu.
Bæn er eina iðkunin sem er fullkomlega hættulaus þegar hér er komið við sögu. Lesendur mínir vita að ég hef iðkað dulspeki og dulsálarfræði í marga áratugi og ég ef sjálfur misstígið mig víða á þeirri braut.
Viðvaranir mínar eru ekki veittar til að stjórna neinum eða gera sjálfan mig að fræðingi, heldur til að auðvelda leitendum að sjá og þekkja holurnar í veginum þegar þeir aka fram á þær í myrkrinu.
Þegar maður sér holuna og hefur heyrt minnst á hana, þá er maður fljótari að beygja framhjá henni en ef maður lendir í henni og veit hvað gerðist, á maður auðveldara með að rísa upp á ný eða leita sér aðstoðar.
Nútíma kennsla í neytendasamfélagi húmanismans hefur gert alla dulspeki (mystique) að einhvers konar Hollýwood hugmynd sem skipti litlu sem engu máli, sé bara gauf í fólki sem ekki valdi raunhyggju. Það er alls ekki svo. Fólk sem hefur iðkað skipulagða og djúphugsaða frumspeki – en dulspeki er angi af frumspeki – kemst ekkert úr sporunum nema þroska með sér skarpa raunhyggju.
Þessi hugleiðing er kannski fulldjúp, svo við hugum aftur að bæninni og fjórum þáttum vitundarinnar á praktískan hátt.
Við gleymum því oft í dagsins önn að gæta að sjálfssögðum hlutum á borð við öndun eða líkamsstöðu, eða þeirri nauðsyn að fá okkur vatnsglas örlítið oftar. Við gætum ekki alltaf að því, og það er sjaldan kennt, að hugurinn er oft verkfæri tilfinninga frekar en öfugt.
Sjaldan er okkur kennt að hvorutveggja má þjálfa og móta, að hugurinn getur tekið vald yfir tilfinningum eða þá að bæði geta lifað saman í jafnvægi.
Að setja sér það markmið að taka tíu mínútur daglega til að gæta að þessu, getur gjörbreytt öllu lífi þínu á skömmum tíma. Hvort þessar mínútur eru teknar að morgni dags, miðjum degi eða að kvöldi, er eins og áður sagði, spurning um persónulegt samband við bænina.
Þú byrjar mínúturnar á að fá þér eitt stórt vatnsglas, jafnvel tvö. Þetta krefst yfirvegunar og að vera gert rólega. Best er að vera andspænis glugga – standandi frekar en sitjandi – og því betra útsýni, því betra. Þessu næst – eða á meðan – fyllir þú lungun lofti þrem til fjórum sinnum sinnum, með því að þenja út þindina og láta loftið flæða í neðri lungun (efri lungun fylla sig sjálf).
Þá tekurðu stutta stund í að segja (Guði, Alheimsvitund, Eigin sál, eða hverju því sem þú trúir á) eitthvað í bæn, þú reynir eins og hægt er að hafa hana ópersónulega samræðu um eitthvað annað en sjálfan þig en ef þú verður að ræða um sjálfan þig og persónuleg atriði þá tekurðu það fram.
Þegar þú hefur iðkað þetta í fáeina daga muntu smámsaman taka eftir að í þínu daglega lífi er að glæðast friður – eða firrð – sem rís eins og óútskýrður kraftur frá hinum myrku undirdjúpum óvitundarinnar (Unconscious) og flæðir út í alla þína limi og vitund.
Í kjölfarið ferðu að sjá skýrar hvernig þú bregst við heiminum með Hjólfari hugans eða hvenær þú ert vanabundinn í Fangelsi hjartans og þú ferð að sjá skýrar hvernig hugarbrautir þínar og tilfininngalegur vani beitir sál þína ofbeldi og þá sérðu sífellt betur hvernig ofbeldi er síðasta úrræði hins úrvinda huga (Last resort of exhausted minds).
Þú ferð að sjá sífellt betur það undurverk sem alheimurinn er.
Við vitum ekki hvernig hann hófst, sé hann skapaður eða þróaður, við vitum ekki hvað var á undan honum, hvað er utan við hann og við vitum ekki hvað vitund er. Við vitum aðeins að við erum hluti einhvers undursamlegs, punktur. Við sjáum þá sífellt betur hvernig aðilar og kerfi sem krefjast þess að við aðlögum vitund okkar að hinum og þessum sannleikum, eru oft tæmdir hugar að beita ofbeldi.
Við gleymum yfirleitt í daglegu amstri að viðbrögð sem gerð eru í krafti tilfinninga geta verið vafasöm, bæði þessi neikvæðu og þessi jákvæðu, sé þeim ekki rétt stýrt. Þess vegna er gott að hafa kyrrðina, eða kunna að vera ekkert (Nothingness, fimmta frumefnið), þó ekki sé nema örlítið öðru hvoru, til að fá tómarúm til að spyrja réttra spurninga og vinna úr þeim.
Að lokum minnist ég á hið persónulega samband við það sem biðlað er til. Slíkt fyrirbæri get ég ekki fjallað um því ég á mitt persónulega samband og þú þitt, hvað svo sem það er sem þú trúir á. Ég get hins vegar lofað þér að sú aðferð sem hér útskýrð, mun dýpka þetta samband og gæða innra líf þitt meira næmi, virðingu og jafnvægi, sérstaklega hvað þetta varðar.
Nútíma húmanismi heldur því oft fram að trú sé öryggishringur fyrir fólk sem ekki höndli veruleikann. Eins og Karl Marx sagði, að trúarbrögðin væru ópíum fólks. Því er öfugt farið. Öguð trú krefst yfirvegunar og sjálfsaga allra fjögurra vitundarþátta mannsins og meðvitundar um fimmta frumþáttin, sem er oft nefndur Tómið.
Trúað fólk – án tillits til hvaða trúarbrögð það iðkar – þjálfar rökhugsun, iðkar andlegan aga, rýnir í og slípar tilfinningalíf sitt og meðhöndlar líkama sinn af virðingu s.s. hvernig honum er beitt og hann nærður. Loks veltir það fyrir sér á marga vegu margskonar og margslungnum sannleikum sem víkka hugann öfugt við flatneskjulegar aðferðir slangurs af því tagi sem Marx og aðrir húmanistar hafa leyft sér.
Góðar stundir.