Ímyndir og hlutverkaleikir

Ferli hins jákvæða vilja byggist umfram allt á tvennu. Annað er að ekki þurfi að muna langar og flóknar útskýringar frá einhverjum mislukkuðum gúrú eða uppskriftir í mörgum skrefum, heldur sé skrefið aðeins eitt. Hitt er að endurvirkja sinn eigin sköpunarkraft.

img-coll-0682Hluti þeirra aðferða sem Ferlið notar til að hjálpa manni að finna þennan kraft,  verða hvati til umbreytingar frá kvalafullu lífi til sjálfskrafts og sköpunar.

Þær byggjast á að nota innri hlutverkaleiki og fantasíur til að endurmóta hver við erum, bæði gagnvart okkur sjálfum og öðrum, jafnhliða því að við brjótum okkur úr hlekkjum stöðnunar.

Trúðurinn og hlutverkin endurvakin

Þegar við vorum börn fórum við oft í leiki, eins og börn gera. Sumir leikir byggðust á því að nota leikföng sem þá höfðu áhrif á viðfang leikjanna en aðrir leikir byggðust á því að taka þátt í hópstarfi. Tökum einföld dæmi: Dúkkuleikir, Bílaleikir, Brennó og Feluleikur.

Þegar við urðum fullorðin fækkaði þessum leikjum og annað tók við. Þetta gerist á misjöfnum aldri hjá okkur öllum. Hver man ekki eftir því þegar einhver krakkinn sussaði á hina krakkana, að hætta að skríplast og fara að haga sér siðsamlega.

Eitt af því sem gerist þegar við verðum fullorðin er að alvara lífsins getur orðið leikur. Þegar fullorðnir strákar eyða helmingi tekna sinna í að eiga skemmtilegan jeppa og viðhalda honum, og fara í stöku fjallaferð með öðrum fullorðnum strákum, þá er um vissa yfirfærslu að ræða frá leikjum.

Allt sem fólk gerir, er leikur. Stöðuuppfærsla á Facebook, er bara skref í tölvuleik og yfirlýsing í stjórnmálum er einnig leikur, þó hann hafi alvarlegri afleiðingar.

Þetta á við um allt fólk og þó hér séu tekin einföld dæmi, þá eru þau vafalaust eins mörg og fólk er margt. Við köllum þetta að eiga sér áhugamál og þar fáum við útrás fyrir ímyndunaraflið sem uppeldið slípaði úr manni þegar það gerði mann fullorðinn.

Sumt fólk yfirfærir þörf sína fyrir ímyndunarafl yfir á kynlíf en slíkt er mörgum og stórum takmörkunum háð. Í fyrsta lagi eru takmörk fyrir hvað siðsemi leyfir manni, sérstaklega í samböndum, og einnig krefst ímyndunarfullt kynlíf þess að báðir eða fleiri þáttakendur séu sama sinnis, sem er því sem næst útilokað.

Kynlíf er dregið hér inn á sjónarsviðið, til þess eins að henda því út aftur.

Hægt væri að skrifa margar greinar um kynlíf útaf fyrir sig en eitt þarf að taka fram þegar hér er komið. Mjög mikið af fólki upplifir að það hafi innri þörf fyrir virkara og lífsglaðara kynlíf en annað hvort hefur misst hvötina eða finnst maki sinn (eða aðrir leikfélagar) ekki vera færir.

Þetta veldur því að margir yfirfæra óhamingju sína yfir á þessa stöðu, að maki annaðhvort taki ekki lifandi og kvikan þátt í tilfinningalífi eða kynlífi. Þetta er sjálfsblekking og dæmi um klassíska yfirfærslu, þar sem maður sannfærir sjálfan sig um að hægt sé að laga óhamingju utanfrá og gera annað fólk eða aðstæður ábyrga fyrir hvernig maður upplifir sjálfan sig.

Þegar við verðum fullorðin, er búið að kenna okkur að yfirfæra þörf okkar fyrir leiki yfir á áhugamál – sem er misauðvelt að finna – og í sumum tilfellum er það yfirfært yfir á kynlíf. Þó flestir lifi frekar klassísku og leiðigjörnu kynlífi sem á meira skylt við spennulosun og svör við ímynduðum væntingum, þá er um lífskraft að ræða.

Margt sem við gerum í lífinu er einmitt farvegur fyrir lífskraft. Þessi lífskraftur leitar í form sem geta verið hlutverkaleikir félagslífs (en við erum ávallt í hlutverkum í félagslífi) eða í ástundun áhugamála eða í nánari samskiptaleikjum s.s. samræðum við vini eða ástaleikir með lífsförunautum.

Ef hins vegar hvatinn á bak við þennan lífskraft er stirðnaður þá verða formin einnig stirðnuð og séu væntingar okkar eftir formúlum sem eru viðteknar t.d. úr uppeldi eða úr jafningjaþrýsingi frekar en frá okkur sjálfum, þá verður öll upplifun manns af bæði manni sjálfum og þáttöku manns með öðrum, frekar stirð.

Varpi maður ábyrgðinni á aðra aðila, verður stirðnunin enn verri.

Það sem okkur yfirsést hér er að á bak við alla leiki, hvort heldur það var í barnæsku eða á fullorðinsárum, er að lífskrafturinn elskar ímyndunarafl og það er þar sem stirðnunin byrjar. Þegar einhver sussaði á okkur þegar við vorum með trúðslæti, og við tókum sussið alvarlega, byrjuðum við að skrúfa fyrir ímyndunaraflið.

Rétt eins og þegar við eyðum frítíma okkar í að horfa á afþreyingarefni – og láta það hafa ofan af fyrir okkur – eða hlusta á menningarefni eða lesa eitthvað sem mótar huga okkar, erum við að skrúfa niður í þessu sama ímyndunarafli.

Til að endurvekja ímyndunaraflið þurfum við að þora að vera aftur trúðurinn sem var sussað á og leyfa okkur að dreyma aftur um ýmislegt. Það er sárasaklaust að láta hugann reika og ímynda sér alls kyns vitleysu, hverfa inn í dagdrauma og upplifa sjálfan sig á ýmsa vegu í draumalandi sem maður á sjálfur.

Það er sárasaklaust að segja stöku sinnum einhverja vitleysu, án þess að afsaka sig, án þess að réttlæta sig, og banna sjálfum sér að fela það ef manni verður eitthvað á eða misstígur sig.

Þeir sem banna þér að vera öðruvísi, eða sussa á þig þegar trúðurinn gerir vart við sig, það eru hælbítarnir sem eru búnir að skrúfa fyrir sinn eigin sköpunarkraft og vilja draga þig inn í hellinn til sín.

Við föllum oft í þá gryfju, þegar við erum spurð “Hver ert þú” að svara með “ég er smiður” eða “ég er snyrtifræðigur” eða “ég vinn hjá hellusteypunni” þegar einfalda svarið er “ég er Jón Jónsson, ég er manneskja.” Það þarf ekki að hengja nein lýsingarorð eða efnisflokkun á hver þú ert. Hvað þú ert, það er bara hlutverk sem þú leikur þér að innanum fullorðna fólkið.

Stundum er okkur bent á að við þurfum að vita hvenær við erum Einstaklingur eða Samfélagsvera. Þetta er þvættingur sem dáleiðir marga. Þegar þú ert innan um fólk, án lýsingarorða eða flokkunar, bregst fólk við þér og þú bregst við fólki. Þannig verður samfélagsveran til.

Stundum fellur maður illa að félagsþáttöku og margir hætta eftir tvær til þrjár tilraunir. Enda þeir þá e.t.v. á að dreifa um sig setningum á borð við “fólk er fífl,” en það gæti hæglega breytt þessu yfir í “fólk er fyndið.”

Fólk er fyndið þegar það heldur að það sé fullorðið og hefur ekki vald á sínum eigin hlutverkum vegna stirðnunar.

Stórir hópar fólks eru mannaðir einstaklingum sem eru löngu orðnir hugarstirðnaðir en kunna að leika vel slípuð hlutverk innanum aðra og vita ekki að það er leikur.  Þegar maður sér í gegnum egó-grímurnar sem fólk hefur þannig límt á sig og talið sér trú um að hjúpi hvert það sé, og hefur sjálfur mölvað og síðan endurlímt sínar eigin, þá snýst dæmið við.

Maður bregst við fólki í félagslífi, óhikað, og maður lætur það ekki á sig fá þó grímufólkið kunni ekki alltaf á uppskriftina, enda er hún orðin dýnamísk. Maður er búinn að fatta hvað átt er við með setningunni “kyrrð er rými” því þar er Aladdínshellir ímynduaraflsins, og þar er virkjunin þar sem allt lifnar við.

Við upplifum okkur oft sem týnd í þeim hraða sem einkennir samtíma okkar, oft vitum við ekki hvort við erum að eltast við hluti vegna þess að við þörfnumst þeirra eða hvort við erum að uppfylla tómarúm sem við um leið erum á flótta frá.

Lykillinn að sjálfsstyrkingu felst oft einmitt í því að horfast í augu við sjálfsblekkingar okkar og um leið að finna frelsi til að endurmóta hver við viljum vera; Sem er jú gert í ferli, á jákvæðan og einfaldan hátt, til að styrkja vilja og sköpunarmátt.

 

 

This entry was posted in Ferli hins jákvæða vilja and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.