Atvinnuleysi er yndislegt, halda sumir, og virðast halda að auðvelt sé að taka fjórfaldri tekjulækkun og lifa á ölmusu. Lífsneisti heimila er margbrotinn, stundum þverbrotinn en lífið er ekki mælt í peníngum.
Lífið er betur mælt í trú fólks á sjálft sig og getu til að lifa sínu dags daglega lífi í virðingu, bæði við sjálft sig og aðra.
Því miður er mikið af orðagjálfri manna, bæði í stjórnmálum og í verkalýðs forystunni, eins konar belgingur sem minnir á málshátt um tunnur.
Ég hef verið án starfs, nauðugur viljugur, síðan í desember 2009. Forsaga þess er rakin í bók minni „Varðmenn kvótans“.
Ef þú segir upp starfi áttu rétt á bótaleysi í tvo mánuði. Takir þú því þannig, en það er hugsað sem refsing, gæti það orðið tími bæna og föstu. Nú kann að vera að þér sé þröngvað til uppsagnar og sért ekki af eigin vilja kominn til dýrðarlands Atvinnuleysisstofnunar og Félagsþjónustu.
Ekki er víst að þú veljir heilsubrestinn sem sumir falla í þegar þrekið brestur eftir áralanga baráttu fyrir réttlæti, sanngirni og mannvirðingu.
Hafðu af því engar áhyggjur, því þar eru allir lærðir á gömul Nasistafræði tilbúnir að skella stjörnu á vinstri arminn þinn. Þú færð að biðja og svelta í tvo mánuði. Minnsti misskilningur á þeirra frelsandi uppeldisreglu kostar þig alla björg og sá dómur endist árum saman.
Það er mikill misskilningur að fólk velji þennan farveg. Fólk vill vinna fyrir sér..
Lög gera ráð fyrir að þú eigir þó rétt á tekjutengdum bótum í þrjá mánuði, svo ef þér leiðist fastan áttu rétt á næstum fullum launum. En nei, ekki ef þú segir upp og alls ekki hafir þú verið hjá ríkinu. Svei þér segir reglugerðin. Því ef þú varst ríkisstarfsmaður og var sagt upp, þá ertu án forsvara, því ríkisstarfsmanni er sagt upp eftir reglum sem sanna að hann sé allra góðra hluta óverðugur. Eins og allir vita missir þú tekjutengingu segir þú upp sjálfur.
Sá ráðherra sem var æðsti yfirmaður Vinnumálastofnunar, á þeim tíma sem mín svipugöng mynduðust, lét hafa eftir sér að þeir sem ekki vildu vinna ættu ekki að þurfa aðstoð. Sami maður hafði rukkað ráðuneytin um milljónir í laun sem lögfræðingur síðustu tvö árin áður en hann komst á þing. Í dag gefur hann þér þá ímynd að skeggið geti falið hörkuna og metnaðinn í augnaráðinu. Fyndið? Já, fólk er fyndið.
Fyrst er boðunarbréf frá yfirstjórn stofnunar, séu viðbrögð þín óviðunandi eða yfirstjórn sannfærð um óverðugheit þín færðu áminningu, að mig minnir þarf tvær áður en sparkið kemur. Í mínu tilfelli var beitt svæsnu einelti og þröngvun. Svo langt var gengið að sviðsstjóri og minn næsti yfirmaður kom þrívegis að máli við mig og með blíðmælgi reyndi af fremsta megni að sannfæra mig um að best væri fyrir mig að skrifa reisupassann sjálfur.
Það var þegar út var komið sem ég kynntist því hvernig forstjórinn, sérhæfður í mannréttinda lögum, hafði snúið mig út á gaddinn óverðugan. Nánar fer ég ekki í það hér enda rækilega útskýrt í fyrrnefndri bók minni „Varðmenn kvótans”.
Hins vegar sló það mig hve grimm Vinnumálastofnun, útvörður Íslensks velsæmis í okkar góða samfélagi, beitir fólk sem hún getur neglt upp við vegg.
Eftir fyrsta árið í atvinnuleysi, löngu búinn að gleyma baráttu hinna fyrstu tveggja mánaða við brauðfæði heimilisins, og enn ekki búinn að finna viðsnúning í baráttu við þunglyndið, var bíllinn tekinn. Hálfu ári síðar var íbúðin boðin upp. Hálfu ári síðar var síhækkandi matvöruverð að sliga heimilið og aðal fæðan orðin ódýrt ristað brauð eða allra ódýrasta pastað. Þannig má treina fram lífið fyrir 380 krónur á dag tvær vikur í mánuði, samt fitnar maður því líkami sem býr við einhæft og snautt fæði safnar því sem hann nær úr glúteninu.
Ári síðar taldi ég saman að ég hafði leitað til yfir 300 fyrirtækja um vinnu og reyndar fengið fáein viðtöl. En fortíð sakamanns er til trafala og Netið gleymir engu, þar er allt eins og það hafi gerst i gær og fyrirsagnir duga mörgum til að dæma. Þegar þetta er ritað er stutt í að ég fell út af opinberri sakaskrá og samskonar góðborgarar og sviptu mig framanum eru enn í þeim stöðum að gætu veitt mér meðbyr til nýs starfs.
Átti ég það skilið að missa allt? Líklega. Enda veit gott fólk hvað varmennum er fyrir bestu.
Í dag datt upp úr mér í samtali að ég sé ekki eftir einum degi í þessari baráttu. Hún hefur kennt mér að sjá það góða í öðrum, í sjálfum mér og í trú minni á góð gildi lífsins. Útsjónarsemi, þolgæði, umburðarlyndi, innsæi, kyrrð (sjónvarpið var selt fyrir mat fyrir 18 mánuðum), nægjusemi (hafði síðast efni á fatakaupum fyrir þrem árum) og umfram allt fyrirgefningu. Að geta látið af reiði, biturð og sárindum er list.
Er ég kannski að skrifa af fyrrnefndu eða síðari hvötum? Hvötin er einföld gæska.
Að læra að lifa utangarðs – sem áhorfandi á samfélag í kvöl – og hafa sjálfur endurlært gildi lífsins, að hafa lært að njóta hvers dags sem rennur og meta að umfram allt á ég sjálfan mig, að ég á mitt líf og ég á minn huga óskertan, og að hafa öðlast vald yfir eigin tilfinningum og lært að sjá eingöngu hið góða í kringum mig. Slík saga er þess verð að vera sögð. Hún minnir mig á, og vonandi þig, að lífið er meira en glys og yfirborðs fágun orðagjálfurs og sýndarmennsku. Að lífið sjálft, og sá kærleikur sem skapaði það, er hið eina sem skiptir einhverju raunverulegu máli.
Fyrir Guðs náð fannst annar bíll fyrir smápenínga, en að lokum var klippt af honum. Ódýrum 100.000 króna bíl sem ég fékk lánað fyrir, hálfu ári eftir að Lýsing rændi eign minni í þeim fyrri. Það hafði því miður ekki verið nokkur séns að borga bifreiðagjöld eða tryggingar. Svo það var rétt af fulltrúum góðborgara að klippa af bílnum. Sjálfur valdi ég að fagna því tækifæri að ganga í bæinn með bakpoka þegar kaupa þarf í matinn eða greiða reikning.
Ekki ósvipað því þegar síminn lokaði, enda engin tök á að halda síma og neti opnu. Þá lærði maður að nota Nova frelsi og smámsaman minnkaði tengslanetið niður í þann hóp sem notar Nova. Að hringja í hina kostar penínga sem ekki eru til.
Þegar fyrri tönnin brotnaði var í boði að draga hana úr fyrir 40.000 eða láta setja skrúfu og gervitönn. Læknirinn mælti með síðarnefnda kostinum, því hann telur að það hlífi tönnunum í kring. En það hefði kostað 9 sinnum meira. Í síðasta mánuði brotnaði sú síðari og það kostar 12.000 krónur að kíkja til læknis og láta skoða brotið, það verður vonandi hægt í næsta mánuði.
Er það skortur á réttri næringu eða aldurinn sem er að bíta þær úr mér veit ég ekki. Ég hlakka til að hafa efni á að læknir þjónusti vinnukonurnar*.
Okkar nútíma samfélag lítur ef til vill á erfiðleika sem eitthvað sem enginn maður ætti að þurfa að upplifa. En þeir eru góðir, ef þú nýtir þá til að umbreyta sál þinni og læra að njóta stundarinnar og án þess að þurfa að eiga. Það er betra að vera en að eiga. Það voru mín sjálfsögðu mannréttindi – segði ég forstjóranum fyrrverandi, sem nú er í pólitík – að fá að læra gildi lífsins, frumlífsins. Það var erfitt en ég lærði nýtt hvern einasta dag.
Blöndunartækin biluðu á baðinu í fyrra, hálfu ári fyrr bilaði heitavatns kraninn á baðherbergis vaskinum. Fyrir hvorugu er til peníngur. Illu heilli er í boði sundkort handa atvinnulausum. Þannig hefur verið skrölt í sund annan hvern dag í á annað ár. Það er í raun betra bað en heima. Hins vegar er ég ekki lengur á skrá atvinnulausra hjá Vinnumálastofnun.
Þar með gerist tvennt: Ég er kominn á féló en þar er ekki í boði sundkort. Svo þvottapokinn dugar við eldhúsvaskinn. Því næst er ég dottinn út úr opinberum tölum um atvinnuleysi, ásamt hundruðum annarra. Það er til matur í dag og restin hlýtur að reddast.
Páll postuli skrifar í Korintubréfinu skemmtilega setningu. „Nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt. En þeirra er kærleikurinn mestur.” Ég er í dag sammála. Trú á Guð, gæfuna og morgundaginn er þín besta eign. Von um að trúin haldi þrátt fyrir mótvind lífsins, er styrkur sálar þinnar. Kærleikur til annarra og von um smá handa þér, er eins og ljúf morgundögg að sumri, eða björt vetrarsól í skammdeginu.
Án kærleika væri lífið ekki þess virði að gefa því nafn.
Njóttu hvers dags sem þú vaknar. Fagnaðu hverju skrefi sem í honum felst, hvort sem það er skref upp eða niður. Það er lífsskref. Heilsa þín og kraftur, það eitt að vera til. Það er það eina sem þú átt, varðveittu það vel, og sýndu öðrum umburðarlyndi því þeir eru á sömu braut og þú. Allar hugmyndir sem sveima þar á milli eru bara hugmyndir.
Guð blessi þig, og okkar ágæta samfélag. Umfram allt varði hann veg þess til heilunar og framfara.
Ég geri mér ljóst, kæri lesandi, að þessi greinarstúfur mætti pússast betur í setningabrag og efnisgreinaröðun. Vafalaust mun ég endurrita hann, einn góðan veðurdag, og í sannleika sagt hef ég forðast að skrifa um einkahagi síðustu ár, því tilfinningar vefjast um lyklaborðið og þvælast fyrir fingrunum. Hafir þú endst í gegnum greinina þakka ég þér umburðarlyndið.
* Bók Salómons, Prédikarinn, (eða Ljóðaljóðin) í Biblíunni kallar tennurnar vinnukonur.