Lýsing er í minni veröld þjófur

Þegar Lýsing tók af mér bílinn streittist ég á móti sem best ég mátti. Ég hafði borgað í bílnum 60% af láninu.Því miður gat ég ekki lengur staðið í skilum eftir að Fiskistofustjóri eyddi frama mínum.

Nú tekur Lýsing bílinn og finnur eitthvað í honum til að gera við. Vissulega þurfti bíllinn viðhald og reyndar hefði ég gert við hið sama og hafði ætlað mér það.

Var ég búinn að undirbúa viðhald þetta með varahlutaleit og samtölum við fagmenn. Mín útfærsla hefði kostað 35% af því sem Lýsing setti upp. Hér má vel koma fram að á þeim fjórum árum sem bíllinn var minn, eyddi ég talsverðu fé í viðhald á honum.

Var bíllinn nýlega kominn úr yfirhalningu á hjólalegum, bremsum og öðru þegar hann var tekinn. Ég keypti bílinn þegar hann stóð í 67.000 kílómetrum og hafði ekið honum í 98.000 kílómetra.

Ég hafði valið hann úr hópi sambærilegra bíla og valið þann sem hafði besta ástandið í undirvagni. Enn fremur ók ég honum alla tíð með það í huga að hann myndi endast mér í tíu ár. Þegar hann var tekinn var jafn gott að aka honum og þegar hann var nýr.

Niðurstaðan þegar Lýsing hafði rænt mig bílnum var þessi. Ég átti í bílnum 1.200.000 þann dag. Lýsing tók bílinn upp í 700.000 krónur. Ég fékk ekki neinn mismun né neinn rétt. Enga lendingu. Ég var meðhöndlaður sem vondi aðilinn í viðskiptunum.

Tilraunir mínar til að ræða málin og finna lendingu er öllum hentaði báru engan árangur. Þeirra niðurstaða er sú að þeir fóru að lögum, og mín er sú að ég hafði ekki efni á einum lögmanni til að ræða við þeirra lögfræðideild.

Þá hef ég engan málssvara á Alþingi Íslenska lýðveldisins til að ræða um fræga setningu úr Njálu. „Land skal með lögum byggja en ólögum eyða.“

Í minni veröld sem mótuð er af sagnahefð og menningargildum minna forfeðra, er Lýsing þjófur. Legg ég svo á, og mæli svo um, að hún muni sjálf upplifa eigin gildi á sjálfri sér.

ps. Tveim árum eftir að bílnum var rænt af mér, fann ég út að hann hafði síðar verið seldur norður í land og að eigand hans flutti síðar með hann til Póllands.

 

 

 

This entry was posted in Þjóðveldi and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.