Vefur Fiskistofu útgefinn

Þessi grein er er kaflabrot úr bók minni „Varðmenn kvótans – Fiskisaga af einelti:“

Það var ekki óalgengt að ég ynni fram á kvöld þær vikur sem ég vann mig í gegnum mesta álagspunktinn. Það var síðustu vikurnar áður en þáverandi Sjávarútvegsráðherra opnaði nýja vefinn með pompi og prakt, óvitandi að hann var að sýna gömlu fötin keisarans eftir litun.

Skömmu áður en eineltið náði hámarki var haldinn blaðamannafundur hjá Fiskistofu með þáttöku þáverandi Sjávarútvegsráðherra Jóns Bjarnasonar.

Þetta var ákveðið af yfirmönnum fáeinum mánuðum fyrr. Valin var dagsetning þar sem „Nýi vefur Fiskistofu“ yrði gefinn út hvað sem tautaði og raulaði.

Beitt var miklum þrýstingi síðustu mánuðina fyrir þessa dagsetningu til að þvinga fram að hún myndi halda sér. Í hvert sinn sem imprað var á að frá faglegu sjónarmiði hefði óæskileg dagsetning verið valin, var viðkvæðið ætíð á eina leið. „Það er ekki hægt að breyta þessu því búið er að tilkynna ráðherra um dagsetninguna.“

Hver sá sem starfað hefur hjá hinu opinbera veit að ráðherrar ráða afar litlu varðandi dags daglegan rekstur hins opinbera, heldur embættismenn og þeirra undirnefndir, en þessi bók fjallar ekki um það.

Síðustu vikurnar fyrir valda dagsetningu bað ég ítrekað um frestun útgáfudagsetningar. Yfirfara þyrfti undirkerfin, hliðarkerfin og vinnslu aðal vefþjónsins sem yrði notaður (Tomcat 5.5), áður en að útgáfu kæmi. Benti ég á að ýmsir þættir væru ófullreyndir og örfáum lykilspurningum væri ósvarað varðandi öryggi kerfisins.

Með öryggi á ég jafnhliða við öryggi gagnvart árásum og áreiðanleika við daglega keyrslu. Vefurinn næði aldrei að vera nægilega prófaður á faglegum forsendum væri þessi dagsetning of stíf. Ef eitthvað kæmi uppá yrði það tölvusviði, og Fiskistofu, álitshnekkir.

Ég vissi ekki þá að ég yrði blóraböggull ef til þess kæmi. Maður vill trúa á heiðarleika og einlægni, án þeirrar trúar væri samfélag 21. aldar yfirborðsfagur gjallandi, en þessi bók fjallar heldur ekki um nútíma siðfræði.

Tilvitunun lýkur.

 

This entry was posted in Heimssýn and tagged , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.