Hikandi ég frekar en ég án hlutverks

Einu sinni kom Peter Sellers, sá ástsæli gamanleikari, í viðtalsþátt. Spyrillinn hafði orð á því að Sellers hefði tekið skýrt fram við sig, að hann myndi ekki koma sem hann sjálfur.

Peter Sellers var þekktur fyrir þetta viðhorf, og útskýrði að ég held aldrei hvers vegna hann var svo harður á þessu.

Á hverju sem tautaði og raulaði var hann fyrst og fremst leikari og þverneitaði á nokkurn hátt að koma fram sem neitt annað en önnur persóna en hann sjálfur.

Vafalaust var Sellers mjög flókinn, en ég skil hann. Ég skil hvaða tilfinning það er að þurfa að koma fram sem maður sjálfur. Hver sá sem unnið hefur á meðvirkni í „12 spora“ samtökum á borð við Al Anon eða CoDA þekkir þetta. Meðvirkt fólk er til í hvað sem er, svo fremi það sé hlutverk.

Ég vann í átta ár við tölvukennslu, og þótti mér það ekkert mál. Í þrjú ár var ég boðberi kristinnar trúar í söfnuði Votta Jehóva og var ófeminn að banka uppá hjá fólki. En það var heldur aldrei ég sjálfur. Þannig er um flest sem ég hef gert og er þannig enn. Ég er ávallt í hlutverki. Reyndar segir mér sálinn að við séum ávallt í hlutverki, í það minnsta flest okkar.

Spurningin er hins vegar hvaða hlutverki?

Eftir fimm vikur verð á ég þriggja ára atvinnuleysis afmæli. Ég hef verið iðinn allt tímabilið og er enn. Ég hef sigrast á óyfirstíganlegum erfiðleikum og fundið lausnir við ótrúlegustu hlutum.

Í nafni Nálgunar vann ég margar fínar veflausnir og aðrar hugbúnaðarlausnir – allt saman án tekna. Í nafni „Ferlis hins jákvæða vilja“ bjó ég til eitt skilvirkasta og kraftmesta sjálfsþroskakerfi sem til er. Ég gerði upp trúmálin með bók sem á ensku heitir „God’s Will“ (Guðs vilji) og gaf hana út bæði sem prentgrip og hljóðbók. Í nafni endurreists Þjóðveldis þróaði ég lausn á því hvernig nútíma Íslendingar gætu (ef þeir vildu) endurreist virkt lýðræði og sótt sér fjárhagslegt réttlæti á mettíma.

Ég barðist við að halda höfði á meðan ég missti heimili mitt, var margdæmdur fyrir ofbeldi sem ég iðrast sárann, missti dýra jeppann sem ég var hálfnaður að borga, missti margt fleira. Umfram allt barðist eins og ljón. Mest um vert er sá sigur sem ég vann á þeim sjúkdómi sem dró föður minn til dauða, þunglyndi með sjálfsvígs-hvöt.

Í öllu þessu hef ég nýlega áttað mig á einu sem er dálítið vont. Ég hef ekki verið ég sjálfur í neinu þessu. Öll þessi hugrænu og tölvurænu kerfi eru undir eigin nafni, smíðuð af mér og um mig, en ekki í mínu nafni. Auðvitað legg ég nafnið mitt við þau, en ég, hver er ég?

Ég heiti Guðjón E. Hreinberg. Ég þarf að skrifa söguna mína, leggja sjálfan mig flatan, enn á ný. Ég þarf að bregða upp spegli, fyrir sjálfan mig, að líta í, og breyta honum í hráa mynd fyrir aðra ef þeir vilja sjá.

Ég skelfist tilhugsun þessa og ég veit ekki hvernig ég á að matbúa hana. Svo ég skrifa hana sem Þætti, og undir hverjum þættir er þráður. Hver þráður hjúpar sitt tímabil.

 

This entry was posted in Heimssýn and tagged , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.