Mín veröld sem var

Þegar ég var krakki átti ég annan heim og fór þangað oft. Þar var ég stundum landkönnuður að skoða ókunn lönd og ég lék mér þannig leiki.

Ég útbjó mig til landkönnunar með tjaldi og ýmsum græjum og gat gleymt mér tímunum saman á ferðalögum.

Herbergið mitt breyttist stundum í ókunnar borgir og undraheima af ýmsum toga. Þegar ég varð unglingur breyttist þessi veröld. Þá fór ég í krossferðir eða kúrekaferðir. Vann þannig ýmsar hetjudáðir og bjargaði mörgum fögrum meyjum úr alls kyns háska. Lóðin í kringum húsið heima breyttist í landakort og dró ég upp heimssögu míns ímyndaða heims á lóðinni og túninu heima.

Snjór var besta teikniblaðið þegar ég teiknaði þannig upp heilu löndin og jafnvel heimsálfurnar og gat gleymt mér dögum saman við að skálda sögur þessara landa.

Þessi veröld hvarf ekki fyrr en nær tvítugu þegar heimurinn okkar sannfærði mig um það að mín innri veröld væri einskis virði. Rúmum tuttugu árum síðar, veturinn 2013, sá ég listakonu skrifa um sína fornu veröld á Netinu, og mín lifnaði við að nýju. Ég áttaði mig á því að hún var til enn, hún hafði ekki dáið, og ég sór þess eið að lífga hana og halda henni við.

Ég hef lengi trúað því að þegar við gleymum barninu í okkur þá gleymum við okkur sjálfum. Hluti þeirrar vinnu sem ég geri í Ferlinu er að endurlífga barnið og færa það til nútímans, en hluti þess á að vera barn áfram. Ég er listakonunni þakklátur fyrir að minna mig óvart á þetta.

 

 

This entry was posted in Heimssýn and tagged , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.