Sannleikar elítunnar þyrla upp moldviðri hugans

Ástæðan fyrir því að almenningur trúir fjölmiðlum er tvíþætt. Fyrri þátturinn er sá að fjölmiðlar segja frá viðburðum og atvikum. Viðburður er sumsé eitthvað sem gerist en atvik er eitthvað sem einhver segir frá s.s. tilkynningar stjórnvalda og annarra.

img-coll-0222Síðari þátturinn eru amerískar bíómyndir um blaðamennsku sem hafa dáleitt almenning til að trúa á hinn baráttuglaða rannsóknarblaðamann og hugrekki hans til að fletta ofan af spillingu.

Við sem köfum dýpra, lesum víðar og spyrjum spurninga og finnum við þeim svör, sérstaklega þau okkar sem spyrja nýrra spurninga upp úr bæði þægilegum og óþægilegum svörum, sjáum að báðir þættirnir eru þvættingur.

Viðburðir segja bara það sem gerist en aldrei hvers vegna það gerist né heldur hvaða langtíma aðdraganda það hafði og enn síður hver hagnast á því.

Sé haldið nógu mörgum viðburðum að fólki frá nægilegri breiðsíðu fjölmiðla sem í fljótu bragði virka ólíkir út á við þó þeir tengist í gegnum þræðina til sömu valdaklíku, þá dáleiðist hugurinn því hann hættir að spyrja spurninga þegar hann fær á tilfinninguna að hann fái að vita allt sem hann þarf að vita innan um helling af atriðum sem hann hefur engan áhuga á.

Rannsóknarblaðamaðurinn er sömuleiðis þvættingur og þetta vita allir sem unnið hafa hjá fyrirtækjum sem eru stór eða hjá stofnunum, því þar myndast yfirleitt ákveðið hugarfar hjá fólki sem snýr að því að vernda stólinn sinn eða komast hærra í metorðastiga eða hækka laun eða þá að afla sér orðstýs sem gagnast við frekari frama annars staðar.

Slíkt fólk ruggar ekki bátnum og fórnar ekki frama sínum fyrir almannaheill og gegnsæi, sérstaklega ekki í menningu sem hengir bakara fyrir smið eftir því hvernig fyrirsagnir eru lesnar með síum tilfinninga og yfirborðshyggju. Sjaldan ef nokkru sinni stendur þetta fólk upp ef samstarfsfólk þess er beitt þöggun, lagt í einelti eða sett út af sakramentinu.

Þetta er dáleiðsla lýðsins; að hann trúir þeim skuggamyndum sem fjölmiðlar varpa á hellisveginn og mátar þær við óskhyggju sína um þann veruleika sem hann þráir.

Þess vegna er reiði oft áberandi í hinni svonefndu umræðu, sem að innihaldi er mestmegnis froða, því undir hinu fágaða og falska yfirborði blundar vitneskjan um að hinn siðspillti lýður lifir í lýgi og grípu hvaða réttlætingu sem vera skal til að forðast viðurkenningu eigin sora.

Þannig séð sá almenningur ekki að keisarinn var nakinn því þú sérð það sem þú vilt trúa að sé þarna, því það heldur þínum eigin bát í flotanum, og þó þeir fiski sem róa þá eru fáir sem fatta að feitustu miðin eru fyrir þá sem þora einir fyrir gárandi nesið meðan hinir bíða í þess í flotanum að golan verði að stillu.

Tökum eftir því að þetta skildi Hans Kristján þegar hann skrifaði söguna um Nýju fötin keisarans því hann lét barn benda á hið augljósa en ekki andófsmann rannsóknarblaðamennsku eða reiðan utangarðsmann umræðunnar. Sem aftur ætti að minna okkur hérlendinga á að Kaupmannahöfn hafði borgar- og siðmenningu í margar aldir áður en smáþorpið við Faxaflóa gat þóst vera borg.

Hið sorglegasta í öllu þessu er að menntakerfið er ennfremur búið að kenna hinum dáleidda lýð um hvað skuli hugsa og hvernig skuli nálgast hina augljósu niðurstöðu en hefur hvergi kennt að rýna í bæði þessi ferli eða vinna úr hinni óvenjulegu niðurstöðu eða óvinsælu.

Aðeins skuli virða þá sem með hugrekki óvenjulegrar hugsunar breitt flatri kökunni í hnött en alls ekki troða sér út fyrir borðstokk hinnar skilgreindu sjóndeildar. Hins vegar er kladdinn fullur af einkunnum sem segja að menntun hafi náðst ýmist með láði eða ágætum og það dugar hinum dáleidda skríl.

Í ofanálag bætist fjöldaframleidd afþreyingarmenning sem segir þeim fáu sem rumska að þetta sé alltílæ því Neo muni splundra Matrixinu og þú þarft því ekkert að gera, blindur á að Neo er stjórnmálamaður elítunnar í búningi einfarans (Maverick) sem sigrar hið illa og fær sætu skvísuna í lokin.

Hinn heilagi Maverick er því naglinn í líkkistu hins dáleidda huga, jarðsunginn af prestum meginfjölmiðla, vottaður af hersveit embættismanna sem enginn tekur eftir að halda um stjórntæki valdsins, syrgður af atkvæðavél átrúnaðargoða hins siðspillta heims sem setur stjórnmálamanninn fremstan meðal jafningja, huggaður af andlegum eineistingum geistlegrar stéttar sem heldur heilagri andagift í gíslingu skinhelgi og ótta.

Eina ástæðan fyrir því að ég trúi að hægt sé að sækja gegn þessu rammgerða virki hins steinrunna huga sem heldur að hann hafi hætt að brenna nornir á báli, er sú að Guð segir mér að það sé gerlegt. Fullyrðing sem er spottuð í heimi þar sem þrír fjórðu fjöldans játa í orði kveðnu trú á slíkar trúarlegar upplifanir en hefur þó ekki opnað bókina helgu sem á þeim er byggð.

Spámaðurinn Daníel sá sýn fyrir 25 öldum síðan, þar sem hann sá steinvölu velta ofan úr fjalli að fótum risans sem framangreind lýsing á við þó notuð sé önnur líking. Risinn er með höfuð úr gulli, brjóst úr stáli lendar úr eir og fætur úr blöndu af eir og mold – ef rétt er munað. Steinvalan splundraði ökkla risans svo hann hrundi saman.

Margir hafa túlkað risann sem sögu heimsvelda og mátað flest heimsveldi sögunnar við lýsingu risans en hin rétta túlkun er heimsveldi hugsunar og sé sú mátun notuð við rýni á mannssöguna sést hún vel. Við risum úr steinöld til bronsaldar, héldum áfram um stálöld til gullaldar egósins sem trúir á sjálft sig og rammar heiminn inni í blekkingarheimi hins gullslegna kálfs; heimsveldi sem stendur á sandi.

Rétt eins og Golíat kerfisins forðum réði við hvern þann aktivista sem að honum sótti með hefðbundnum vopnum andans, sá hann ekki við steinvölu Davíðs. Drengsins sem hafði trú í brjósti, kjark í hjarta, skýran huga og sýn í sál.

Þannig mun hinn steinrunni risi hins sjálfumglaða gyllta egós hrynja fyrir þeim ljóma sem kemur að innan þegar steinvala Guðdómsins ýtir við henni, hvaðan sem hún kemur.

Bók mín Orðatal rekur söguþráð Biblíunnar. Þar er þessi spádómur Daníels túlkaður ásamt öðrum miklum spádómum og rakin sagan frá syndafallinu til spámannsins Jósúa Maríusonar – sem hinn kristni heimur tilbiður sem líkneskið Jesú.

Bókin er enn í handriti en hún er 98% eins og ég mun hafa hana þegar ég finn nenníng og tíma til að klára hana. Þangað til má hlusta á hljóðbókina frítt á sama léni og lokaútgáfa hennar verður útgefin á.

 

 

This entry was posted in Heimssýn and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.