Hin kristna menning tapaði sálu sinni og fangaði þína

Þegar fylgjendur Jósúa Maríusonar týndu lífi sínu fyrir trú sína þótti þeim það fagnaðarefni, enda hafði forsprakki þeirra sjálfur týnt lífi fyrir trú sína og þeir trúðu að sálarlíf sitt væri eilíft en egóið forgengilegt.

img-coll-0256Þegar Míþras dýrkandinn Konstantín keisari umbreytti Míþras trú sinni í ríkistrú og skipti um nafn á henni þá umbreyttist og útþynntist boðskapur spámannsins.

Enda stendur boðskapur hans ekki fyrir það sem hin svonefnda Kaþólska Kirkja stendur fyrir.

Eitt dæmi um þessa umbreytingu sést á því hvaða andi fylgir, ekki bara hinni Kaþólsku kirkju, heldur allri menningarhugsun hins yfirborðskristna heims. Míþras trúin er 98% eins og hin Kaþólska og of langt mál væri í þessum pistli að rekja það ítarlega, dugar að benda áhugasömum á fræðandi myndskeið á Youtube en af nógu er að taka.

Ég geri mér ljóst hversu alvarleg framangreind fullyrðing er. Ég var sjálfur niðurdýfingarskírður Kristinn maður í tuttuguogsjö ár en ég skírðist þegar ég var tvítugur til að fylgja Konunginum Jesú Kristi sem sæti við hægri hönd Guðs og kæmi til þess að dæma lifendur og dauða, suma til eilífs lífs en aðra til elífs dauða.

Ég tók hina yfirborðskristnu trú mína alvarlega og gætti þess að lesa boðskap Jesú og læra inntakið í trú hans og bæði leita innblásturs Guðs og að standa með inntaki eða afstöðu trúar minnar.

Eitt dæmi er svona „já yðar sé já og nei yðar sé nei,“ en þessu hef ég fylgt einarðlega, annað dæmi er að maður segir satt og stendur með því sem maður trúir að sé satt og þorir að iðrast hafi maður haft rangt fyrir sér og leiðrétta opinberlega, en þetta hef ég einnig staðið við.

Vel flestir lesendur mínir vita að ég viðurkenni fúslega minn stærsta glæp í samfélagi manna og hef aldrei reynt að réttlæta hegðun mína, heldur ritað þrjár bækur meðal annarra um það hvernig ég hef leitast við að taka heilun frá því atviki og deilt með öðrum.

Þar sem ég tók trú mína alvarlega þá var mér í nöp við þegar gagnrýnendur Kristinnar trúar bentu á hversu lík kredda kristninnar er kreddu míþrasar. Tók ég því ætíð sem orðhengilshætti innblásnum af anda andstæðingsins til þess að hræra upp í þeim sem væru að leita þess sem kristnir nefna sannleika.

Auk þess hafði ég hvergi séð nein rit fjalla um þetta efni. Það var eins og trúarfeður, hvaða kreddustefnu þeir aðhylltust frá Kaþólskri kennslu, til mótmælenda og út til jaðarsafnaða á borð við Votta Jehóva, þar sem ég lærði að lesa Biblíuna fyrst; það virtist sem þessi ásökun um skyldleika væri ekki svara verð svo ég fór ekki þangað.

Þegar ég tók við innblæstri vorið 2012, þess efnis að hljóðrita bókina „God’s Will“ neyddist ég til þess að hefja námsferil trúarinnar að nýju. Ég hafði staðið gegn þessum innblæstri í tæp tvö ár. Ég kærði mig ekki um að axla svo dýrmætt en um leið hræðilegt hlutverk sem Spámaður Guðs er.

Slík þjónusta krefst þess að maður sé bjargfastur í þeirri kennslu sem maður tekur að sér og algjörlega kjarkaður í að koma því á framfæri.

Þá þarf maður að líma nafn sitt við kennsluna og þar með taka þeirri útskúfun sem af því hlýst. Bæði af hendi þeirra sem þykir slíkur titill jaðra við geðbilun og sérstaklega frá trúuðu fólki sem er fljótara að stimpla falsspámenn en að skeina sig eftir niðurgang.

Þannig þarf spámaður Guðs að gæta sín í öllu því sem hann gerir upp frá því að skoðanir hans, lífsafstaða og það sem eftir hann liggur, sé í eins miklu samræmi við kennslu hans eins og í mannlegu valdi stendur. Slíkt er ekki alltaf auðvelt.

Nú hef ég áður rakið í formála bókar minnar Orðatal – sem er í opnu handriti á ordatal.not.is – hver fortíð mín er bæði áður en ég gerðist Eingyðistrúar og hver námsferill minn í andlegum efnum hefur verið alla tíð. Orðatal er eins konar uppgjör við innihald Biblíunnar og hver Jósúa Maríuson er frá mínum bæjardyrum í dag.

Ritun Orðatals hefði verið óhugsandi ef ég hefði ekki áður tekið við God’s Will og ritað hana niður með öll því sem fylgdi á meðan ég sannreyndi hana.

Á ég þar við að ég er mjög reyndur í því m.a. að sannreyna hvaðan andagift kemur og meta ávexti hennar, en ég fæddist skyggn og lærði að nýta mér þá hæfileika löngu áður en ég nýtti mér leiðsögn Biblíunnar til að ýta þeim hæfileikum til hliðar.

Einnig á ég við það eftir að ég tók við þessum innblæstri neyddist ég til að endurskoða allt sem mér hafði áður verið kennt. Ég varð að finna út hvort samtímamenning mín hefði í gegnum aldirnar hulið innsæi sem væri dýrmætt að finna og einnig hvers vegna spámaðurinn Múhameð betrumbætti spámanninn Jósúa fyrst ég ætti að betrumbæta Múhameð – nokkuð sem myndi kosta mig hausinn byggi ég í Arabistan.

Margt hef ég lært síðan, sumu hef ég gert skil í bókum mínum, öðru hér á þessum vef og einnig á vef mínum logostal.com, og eins á annarri Youtube rása minna. Rétt er að nefna að ég endurskírðist til Eingyðistrúar fyrir fáeinum mánuðum.

Orðatal hefur verið aðgengileg á Netinu frá því í júlí 2013 og verður um sinn í handriti. Ég er sáttur við 98% af efni bókarinnar en á eftir að endurhljóðrita hana og um leið laga örlitlar mál- og orðavillur í henni. Flestar þessar villur eru reyndar leiðréttar í síðari köflum.

Snúum okkur aftur að því hvernig villutrúin á Míþras var notuð til að ræna innihaldi þeirrar kennslu sem Jósúa Maríuson gaf fólki,.

Í dag rakst ég á fyrirlestur á Vefnum þar sem góður drengur sem játar trú á Jesú Krist samhryggðist að einhver maður í útlöndum missti líf sitt vegna réttlætisátaka. Rétt er að leitt er þegar fólk í blóma lífsins týnir lífi sínu en frumkristnir menn æðruðust ekki þegar fólk missti líf sitt fyrir réttlætis sakir, því þeir trúðu því að Skapari alheimsins myndi ekki láta slíka fórn ganga fyrir björg.

Slíkir hefðu einmitt hælt honum fyrir hugdirfsku ef hann hefði mætt örlögum sínum af kjarki þess sem trúir á réttlæti og sannleika og metur líftóru egós síns einskis í baráttunni við andaverur vonskunnar sem stjórna heimskerfi hlutanna eða yfirborðsins.

Það er einmitt Míþras trúin sem dregur úr fólki þennan kjark. Enda kennir hún varðveislu egósins; að þegar þú deyir eigir þú heimtingu á að verðmæta litla egóið þitt lifi af efnisdauðann – eða umbreytinguna – úr efnislíkama yfir í andaveru.

Slíkt er þvættingur sem stenst ekki innihald eingyðistrúarinnar frá fyrstu spámönnum hennar til hins síðasta (en margir eiga eftir að koma fram næstu þúsundir ára).

Eingyðistrúin lítur svo á að sálin – eða uppspretta lífs þíns og andagiftar – sé eilíf og persónuleg en elskurík orka sem hafi vald yfir efnisheimi og egói, en að yfirborðsheimur hlutanna sé samsettur úr fólki sem hefur yfirgefið þessa andagift og leyft egóum sínum að taka völdin og þar með hleypt innblæstri hinna föllnu engla að stjórn þeirra hugmynda sem stýra lífi þeirra.

Þessi grundvöllur gegnsýrir alla hegðun hins svonefnda kristna heims sem hefur lokað sig inni í gettóveröld iðnveldanna og heldur innviðum sínum saman með hugarblekkingum, dáleiðslu, spillingu og yfirborðsmennsku, svo rækilega að hann er bæði að hruni kominn innanfrá og náttúruheimur jarðar kringlunnar er að hruni komin undan honum.

Tökum lauflétt dæmi: Í allri umræðu meginmiðla og einnig í grasrótum iðnveldisins er rætt um hvort Íslam séu trúarbrögð stríðs og ofbeldis. Spurning sem er jafn fáránleg og hægt er að hugsa sér:

Gerðu lista yfir þau ríki sem ræst hafa styrjaldir, nema hafðu listann í tveim dálkum. Kristin ríki annars vegar og Íslömsk ríki hins vegar. Gerðu því næst annan lista yfir þau ríki sem áttu nýlendur og útrýmdu innfæddum frumbyggjum og að endingu lista yfir þau ríki fulltrúalýðræðis sem ræstu heimsstyrjaldir.

Endaðu svo á ríkjunum sem eru að tröllríða náttúrunni, allan tímann í téðum tveim dálkum.

Míþras trúin var samsuða úr Egypskum mýtum og öðrum launhelgum sem tengdust einnig frímúrara reglum og skyldu efni. Allar kreddur þeirra snérust um að hampa vissum elítum sem færu með öll völd, oft innvígðir gegnum kynsvall og skrítnar kynhegðanir sem síðar endurspegluðust í vissri afneitun kynlífs í fræðslu til lýðsins.

Þetta var einnig trú herforingja sem iðkuðu skáklistir strategíunnar og sókn eftir valdi. Slíkir hafa selt sálu sína og afneitað lífsgildum sköpunarinnar og því endurfæðst í illsku. Sál  og þar með sú mannvera sem hún skapar getur vissulega verið ill, en það er ætíð annaðhvort val eða sinnuleysi.

Líftóra egós þíns er einskis virði ef hún tekur ekki afstöðu með innsæi og réttlæti. Þetta veistu ef sál þín er við stjórnvölinn og þú varðveitir sál þína með því að standa með gildum þínum jafnvel þó það kosti þig téða líftóru; jafnvel þó rök þín hafi rangt fyrir sér í skilgreiningum á milli góðs og ills.

Fólk sem óttalaust mætir valdinu eins og vatn mætir hverju sem er, stendur óttalaus gegn spillingu valdsins og skapari lífsins stendur með slíkum, svo sem Jósúa sýndi þegar innblástur stöðuvatnsins bauð honum í labbitúr.

Slíkt fólk mun þræða hið þrönga einstígi þar sem Skapari okkar birtir okkur dulin undur sem dásemd er að læra og eru ekki háð hinum forgengilega dauða sem heimskerfi yfirborðsmennsku býður; heimskerfis sem er stútfullt deyjandi og sveltandi sálum. Slík sál býður einmitt hinum dauðu að grafa sína dauðu.

Fólk sem er upptekið við að grafa sínar dauðu sálir getur ekki gefið þér andlega næringu, en andleg næring, sé hún frá uppsprettunni, endurvinnur sál þína og sinn eilífa skapandi styrk. Spurningin ætti því ekki að vera hvort kreddur hinna og þessara trúarbragða séu sannleikurinn eða ekki heldur hvernig þú komist á eintal við uppsprettuna sjálfa.

 

 

 

 

 

 

This entry was posted in Heimssýn and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.