Staðið á breiðum herðum Vilmundar og Benjamíns

Ég hef lesið „Hér og nú“ eftir Benjamín H. J. Eiríksson, best menntaði og færasti hagfræðingur sem þjóðin hefur átt og að auki spámaður Guðs. Maður sem var hátt settur í erlendum gjaldeyrisbanka áður en hann varð háttsetttur í Íslenzka fjármálakerfinu.

img-coll-0195Maður sem var innvígður í valdakerfið um árabil, vel lesinn, vel sigldur og verulega djúpur að innsæi í alþjóðamál iðnveldanna, samsetningu innlenda valdakerfisins og ekki síst í mannlegt eðli.

Þegar ég las bókina í hitteð fyrra rak ég mig á þrennt. Á einni blaðsíðu las ég lýsingu á trúarlegu innsæi sem ég sjálfur hafði öðlast fáeinum vikum fyrr.

Ég hafði hvergi á ferðalagi mínu um menningu trúarbragða og mystíkur séð hið sama útskýrt áður, og var þakklátur að fá staðfestingu á stórri trúarspurningu. Reyndar bættist önnur við síðar en ég er enn að melta hana, enda mér nýstárleg og frekar djörf.

Ég hélt að ég einn hefði fengið þann innblástur en sá svart á hvítu að mér merkari maður hafði lýst tveim áratugum fyrr; djúpur og merkilegur innblástur sem þó fer enn framhjá fólki sem leitar andlegs innsæis.

Í mörgum köflum las ég lýsingar á rýni þessa merkismanns í kristilegt siðferði og skilning þeirrar þjóðkirkju sem tveir þriðju hlutar þjóðarinnar telur sig tilheyra og vill ríghalda í. Kirkju sem á að heita andlegur hirðir þjóðarinnar. Sem Biblíukverúlant þóttist ég hafa vit og skilning á málinu og dáðist að hversu fimlega þessi lærði maður beitti hinni heilögu ritningu til að tæta dóttur Babýlonshórunnar í sig.

Sérstaklega dáðist ég að því hvernig hann reif einn dáðasta klerkaföður þjóðarinnar niður af stalli sínum, aftur án þess svo að hinn upplýsti almúgi hafi svo mikið sem þekkingu á að maðurinn hafi verið til, hvað þá að hún viti að hann bjó yfir þekkingu sem gæti vakið hana af sjálfdoða sínum.

Þá kom hið þriðja sem ég veit ekki hvort ég á að tárast yfir eða flissa eins og gelgja.

Í ritgerð eftir ritgerð lýsti Benjamín hvernig Íslensk stjórnmál, eftir Lýðveldisstofnun og allar götur síðan, beita sömu tækni, sömu rökum, sömu ráðum – þvert ofan í ábendingar reyndra og færra sérfræðinga – til að kaffæra þjóð sína aftur og aftur og sí og æ niður í sama mýrarfen fáránlegra efnahags- og gjaldeyrismála, rétt eins og séu þeir ofurseldir sálarlausri hálfvelgju þeirra sem selt hafa málglaða sál sína þeim sem rýr viti bornustu menn inn að hugarskinni svo kyrfilega að ekkert situr eftir nema orðaflaumurinn einn.

Benjamín er genginn á vit feðra sinna en þau ráð sem eftir hann sitja, og það djúpa innsæi, er ekki einu sinni gleymt; eftir því var aldrei tekið. Í fréttamiðlum samtímans, í bloggheimum og á samfélagsmiðlinum bláa, sé ég sömu hugarkvoðuna vella fram eins og hraunelfur úr undirdjúpum fólks sem líklega gæti þrætt til morguns fyrir hvort það hafi yfirleitt sál, hvað þá hvar hún sé, eða muninn á hvort hún sé dýrmæt eða verðmæt.

Þjóðin hamast við að krefjast betri kjara, ómeðvituð með öllu um hvernig hún getur náð þeim fram með frekum hætti og fyrirhafnarlítið.

Það er eins og hin mikla menntun sem hún státar sig af hafi troðist með bókunum á skiptibókamarkaðinn jafnóðum og hverju prófi lauk, en af orðaflaumi á hún þó nóg, af þrætum þreytist hún aldrei, en að hún viti hvað gildi eru, heiður, virðing eða stjórnlagagrunnur; sem er samfélagssáttmáli. Það er eitthvað sem ekki meltist vel með ufsanum og tólginni, hvað þá ef hann væri á borðum.

Ég las aðra bók nýlega sem heitir „Löglegt en siðlaust,“ þar sem fjallað er um harðasta baráttumann Lýðræðis sem þjóðin hefur átt frá dögum borgarastríðsins sem kennt er við Sturlungaöld. Eins og fáir vita stóð það stríð um það hvort áfram yrði notast við Beint lýðræði hér innanlands eða notast við Konungsvald frá Evrópu og höfðu þeir betur sem meira áttu af gulli og silfri.

Fáir hafa tengt við það í námi sínu hversu margir Íslendingar í þá tíð voru tilbúnir að fórna blóði sínu fyrir Ríkiskerfið sem stýrt hafði landinu í tæplega fjórar aldir. Enn færri virðast átta sig á hversu mikið það segir um Beint lýðræði, að menn unnu þeim gildum sem það táknaði og börðust fyrir það.

Á sama tíma er varla nokkur maður tilbúinn að færa fórnir fyrir Fulltrúalýðveldið sem ríkt hefur frá 1944,  nema nokkrir einkennisbúnir sálarlausir krakkar á launum hjá sama ríkiskerfi. Því fólk er hætt að líta út fyrir grautardiskinn og velta fyrir sér einhverju leiðinlegu.

Ef það er ekki dramakennt amerískt og flatt velgjubull, þá er það leiðinlegt. Ef það minnkar kaupgetuna á næsta æfón eða hversu mikið af óþarfa kemst í körfuna á næsta búðarrápsdegi, virðist það enga merkingu hafa nema rétt svo til að raupa um nokkrar innantómar, en stundum orðmargar, athugasemdir á samfélagsmiðlinum og þá oftar með málfari sem tæpast nýtur virðingar.

Lýsingar í bókinni á því hvernig Vilmundur var sífellt skákaður út í horn, ekki af valdakerfinu sem hann barðist við eða embættakerfinu sem hann fyrirleit, heldur af eigin flokksfólki eru sláandi. Hvarvetna skiptu persónuleg áhrif, valdapot og baktjaldamakk, misviturra manna sem allir voru vel mælandi og vel skrifandi, meiru máli en þau málefni og það siðferði sem flokkur þeirra eða stjórnmálastefna átti í orði kveðnu að standa fyrir.

Ekkert hefur breyst, ekki frá því Þjóðveldið var keyrt niður af silfri, ekki frá því hugsjónir Vilmundar keyrðust niður af spillingu þar til hann sjálfur var rúinn allri lífsorku og lífsvilja, ekki frá því Þjóðin fór á lána- og innkaupafyllerí sem hún núna kennir nokkrum sjálfstæðismönnum og bankastjórum um, ekki neitt hefur lærst.

Er það þess virði að halda áfram að ræða við fólk um gildi? Er það þess virði að reyna að endurvekja umræðu um heiður? Er það þess virði að endurvekja sýn okkar á það sem við stöndum fyrir, þegar við erum svo upptekin af sjálfsþóttaskoðunum að við vitum ekki lengur muninn á afstöðu og skoðun?

Er það þess virði að eyða dýrmætum tíma sínum í hugsjónir sem við í orði kveðnu lítum öll upp til, þegar maður gæti verið að gera eitthvað af viti eins og hinir; að kaupa stærra sjónvarp, flottari bíl, skvera spikið burt í ræktinni, og ræða um Game of Thrones í næsta yfirborðspartý?

Ég veit ekki hvort það er þess virði. Það hefur þegar kostað heimilið og framann að standa með þessum gildum. Ég sé ekki eina einustu óselda sál í kringum mig. Kannski þarf ég að fá mér ljóssíu og opna augun, kannski geri ég of mikla kröfu á fólk, að ætlast til þess að þær hugmyndir sem bækur og menningarsaga þjóðar minnar tróð inn í mig í uppvextinum skipti svo miklu máli að þær séu þess virði að berjast fyrir þeim.

Ég hef ítrekað reynt að hætta. Ég hef eytt mörgum skrifa minna og ítrekað reynt að komast aftur út á breiða veginn, en það er eins og eldur hafi kviknað einhvers staðar innan í mér, eldur sem vex og brennir skynsemi mína. Er það þess virði að knýja á þessar steinrunnu dyr hugans sem við mér blasa? Er þarna úti einhver sem vill berjast fyrir þeim gildum sem við þykjumst standa ofan á? Er samtímamenning okkar bara þurr eyðimörk sem þarf að vökva eða er hún ófrjór berangur?

 

 

 

 

 

This entry was posted in Þjóðveldi and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.