Virk samskipti við fólk eða tvívíða merkimiða

Áðan tók ég rútu í fyrsta sinn í tólf ár. Það var alveg eins og í fyrsa skipti og dálítið gaman að fylgjast með fólkinu raða sér um borð. Þar sem ég sat gat ég horft á fólk rétt áður en það kæmi um borð.

gudjon-img--0308Fyrir utan innganginn var par í faðmlögum og átti greinilega erfitt með að skiljast að. Hugurinn hvarflaði til þeirra skipta í fortíðinni sem ég hafði sjálfur verið í svipuðum sporum, að eiga erfitt með að kveðja eða vera kvaddur.

Reyndi ég að horfa þó ekki of mikið því maður virðir persónuleg mörk og einkalíf. Þannig erum við öll.

En það snertir blíða strengi í hjartanu að sjá hvað er sameiginlegt okkur öllum. Að þrífast vel í hjartanu þegar það slær í takt með annarri mannveru sem líður eins.

Undarlegt er synchronicity (vantar þýð.) tímans að þegar stúlkan gekk inn valdi hún að sitja við hliðina á mér.

Þótti mér dálítið vænt um það því þegar hún kvaddi ástina sína fyrir utan rútuna hafði hún hjálpað mér að rifja upp gáttir í eigin lífi og tengjast því sem við eigum öll saman. Eitthvað sem þú minnist þó ekki á við sessunautinn. Enda einka í lífi hvers og eins en snertir þó hið sameiginlega og ósýnilega.

Þegar rútan leið áfram í átt að þeim stað þar sem ég færi úr henni og héldi áfram svaðilför í vindhviðum og snjóstormi hófust með okkur samræður. Ég hef ekki hugmynd um hvernig þær hófust en þær voru skemmtilegar.

Unga stúlkan er listamaður að ljúka nokkurra vikna heimsókn á landinu. Ræddum við um reynslu af mismunandi þjóðum sem við höfum ferðast til. Snertum á mismunandi tjáningum í listformum og hvernig menningin hér á landi skeri sig á skapandi hátt úr listmenningu erlendis. Ræddum við um hvernig heimspekingurin og listamaðurinn snerta á hinu sama í hinu mannlega en frá svo ólíkum – eða ekki svo ólíkum – sjónarflötum.

Ég steingleymdi alla rútuferðina að hún kvaddi konu. Enda kemur það engum við. Mér hefur lengi fundist efnisflokkuð samræða samfélagsins of grunn.

Einn maður er rennismiður og ein kona er laganemi, sú þriðja er í nýsköpun og sá fjórði er atvinnulaus. Hvort heldur það er nám og frami eða kynhvöt, þá erum við oft uppteknari af því að setja merkimiða á aðra en að heyra sögu þeirra og hvað þau standa fyrir, eða hreinlega að njóta einfaldra – og oft – innihaldsríkra samskipta, af því bara.

Þetta er það sem ég á við þegar ég nota orð einsog  einvíð, tvívíð eða þrívíð. Á ensku væri það „one, two or three dimensional.“ Hugmyndin vaknaði þegar ég hugleiddi stjórnmála umræðuna sem er oftast skipt í hægri eða vinstri. Það er stutt síðan sú hugmynd kom fram – en ég hef ekki heyrt hana hjá mörgum – að þessi vinstri/hægri hugsun sé úrelt því hún bindi fólk við stefnu flokka framar málefnum.

Þá er átt við að ef þú styður tiltekinn flokk og ert kominn á þing sem fulltrúi flokksins þá ertu yfirleitt bundinn stefnu flokksins og verður fyrir þrýstingi að sýna þann stuðning í verki, hvort heldur við umræðu eða í atkvæðagreiðslu. Þetta er vissulega of einhæf hugsun því óhjákvæmilegt er að mörg málefni eigi þverskurð innan allra flokka en ef hugsun einstaklinganna er bundin við flokkslínuna þá skaði það málefnagrunn tiltekinna málefna sem einstaklingar innan flokkanna gætu annars sinnt.

Flestir nota orðið vídd eða víddir í því samhengi hvort til séu aðrar skynjunarvíddir en við upplifum. Séu t.d. álfarnir til í raun og veru þá hljóta þeir að búa í annarri vídd, svo sé einnig um framliðna og líklega Guð líka. Vísindin hafa sýnt fram á að allt að níu eða tíu víddir séu upphugsanlegar.

Í rúmfræði er hins vegar rætt um reiknanlegar víddir. Punktur er einvíður, hann hefur enga mælanlega stærð né staðsetningu fyrr en annar punktur er settur inn á sviðið eða planið. Munum að allar víddir eru innan plans eða á ensku „a dimension exists on a plane.“

Þegar tveir punktar eru komnir til sögunnar má draga línu á milli þeirra og þá myndast hinn tvívíði heimur. Punktur eða einstaklingur er þannig einvíður og hefur aðeins afstöðu gagnvart sjálfum sér og engan sérstakan skilning á neinu því sem viðkemur neinu öðru en honum sjálfum og enga meðvitun – eða raunhæft mat – á eigin stærð eða vægi.

Þegar tveir slíkir egóistar eru komnir á planið verða þeir meðvitaðir um hvorn annan en óhæfir til að meta fyrrgreint vægi né ná saman. Eina tilvera þeirra sem er mælanleg er því línan sem draga má á milli þeirra en sú lína skilgreinir ekkert annað en stefnu í tvær áttir og fjarlægð milli punktanna.

Línan sjálf er óendanleg í báðar stefnur sínar og gætu fleiri punktar legið í skurði hennar. Mæti þriðji punkturinn á planið er óvíst að hann sé í þessum skurði og má þá draga eða mæla línu á milli hans og hinna tveggja. Þetta getur haldið áfram í óendanlegar áttir en ávallt í tvívíðu samhengi.

Þetta er veruleiki fulltrúa stjórnmála sem hópast í stefnur eftir hægri og vinstri. Búið er að skera núll punkt á mitt planið og draga línu í einhverja átt sem skiptir öllum punktum upp og hópar þá saman.

Hægra megin við línuna er mengi hægripunkta og vinstra megin við línuna er mengi vinstripunkta. Þá er ásýndin (viewpoint) fjarlægð sem á ensku væri „zoom out“ þannig að punktahóparnir minnka og verða smám saman að sitt hvorum punkti með línu sín á milli.

Það skiptir í raun engu máli hvort við ræðum stjórnmál, einstök samfélagsmálefni eða kynhneigð ef við lifum í tvívíðu hugarlíkani (mind model). Umræðan verður tvívíð og stakar punktaraddir innan mengjann missa vægi og verða flatur undirtónn sem engu skiptir.

Eina leiðin út úr slíku mengi er að bæta við þrívídd.

Þriðja víddin er þegar planið er hækkað upp og punktarnir teknir af plani síun og dreift lagskipt (layers) eftir mismunandi hæðum í áttina upp eða niður frá fyrra plani. Besta leiðin til þess að sjá þetta fyrir sér hugrænt er að nota blaðabunka.

Tökum eitt hvítt blað, gefum því stærðina A4, sem er algeng prentarastærð. Blaðið hefur fjögur horn eða fjóra punkta. Skurðarlína er dregin á milli þessara punkta í hringferli – því ekki eru dregnar hornalínur – og þannig myndast útlínur blaðsins.

Frá mannveru séð er hins vegar þykkt blaðsins svo lítil að vart er mælanleg í praktísku samhengi. Séu hins vegar fimm hundruð slíkar blaðsíður lagðar hver ofan á aðra myndast bunki sem hefur praktískt samhengi í þrívíðum veruleika.

Hægt væri að halda áfram í alls kyns útúrdúra með þessa samlíkingu en mig grunar að lesandi minn sjái skýrt hvað ég meina. Ef við erum bundin í tvívídd þá sjáum við ekki þrívídd, hvað þá fjórðu víddina sem er hreyfing eða tími.

Auðvelt er að sjá hvernig við festumst í tvívídd en það er þegar við bindum veruleika okkar í kyrrlæg hugtök (static concepts) og hópum þau saman og endum á að gefa þau gildi. Þegar þú drekkur vatnsglas getur það verið bragðlaust og þér sama um gildi þess því þú varst að svala þorsta.

Spurningin er hvaða hugtök voru hér á ferðinni og hvaða gildi var þeim gefið. Glas merkir ílát – ógegnsætt eða gegnsætt, litað eða ólitað – sem hægt er að setja í vökva. Sé vatn sett í glasið fær það merkimiðann vatnsglas. Vatn er litlaust og hefur grábláleitan blæ og manni gæti þótt sú litasamsetning falleg eða hugnast að horfa í gegnum ólitað glas með vatni í og hugleiða hvernig það brýtur ljós og ásýnd.

Eða þá að téður maður var bara þyrstur og fékk sér besta þorstameðal í heimi því ekki var til litaður sykurdrykkur í kæliskápnum.

Gildismat er þegar maður gefur hlutnum eða hugtakinu vægi. Vægi er ekki ósvipað virðismati eða verðgildi en hefur sömu merkingu og enska orðið Torque eða togkraftur. Þegar hugtak fær vægi þá hefur gildi þess fyrir einstakling þá getu að geta hreyft við huga hans eða tilfinningu og verið hvati til athafna.

Fyrir þyrstum einstakling hefur hvaða drykur sem getur svalað þorsta því mikið vægi en hvernig er þetta vægi metið? Er sami einstaklingur tilbúinn að vinna gegn mengun vatns á austfjörðum? Tæplega ef samfélög utan dagleiðar hans hafa lítið eða ekkert vægi fyrir honum?

Hann gæti haft á því skoðun ef mengun hefur aukist fyrir austan að eitthvað þurfi að gera en ekki þá afstöðu að bregðast við fyrir þeirra hönd sem þar búa. Oft er langt skref frá skoðun til afstöðu.

Segjum að sá sem drekkur úr vatnsglasinu sé vinstri sinnaður í stjórnmálum og að stjórnmál skipti hann verulegu máli. Hann hóf ferðina á því að stilla skoðunum sínum upp á vinstri væng umræðunnar. Smám saman jókst vægi vinstri stefnunnar fyrir honum og hann er farinn að taka afstöðu með vængnum í ræðu og riti, auk atkvæðis.

Ef þessi einstaklingur gefur vinstri væng sínum – eða þeim hóp á vinstri vængnum sem hann er kominn í afstöðu með – aukið vægi í sínu hugarlífi – gæti hann fallið í algenga og hættulega gryfju, sem fólkspunktar í tvívíðum veruleika gera; hann gefur öllum hinum einnig vægi, nema ekki jafn jákvætt.

Þannig fellur hann í þá gryfju að hægri menn séu asnar en þó séu ágætis einstaklingar innan um. Ekki ósvipað og ég gaf í skyn varðandi konuna sem minnst var á hér í byrjun. Hversu meðvitaður var ég – streit karl – um það í samræðum mínum við konuna að hún væri samkynhneigð?

Hversu tvívíð var hugsun mín í samræðum við aðra manneskju að stimpillinn setti hana í tvívítt mengi á meðan á samræðunum stóð?

Það er eins með alla samræðu nútímans, að ef við eigum samræður við tvívíðan punkt þá erum við sjálf tvívíður punktur og ekki enn farin að fatta samsíða línur, hvað þá þríhyrninga, þrívíðan stafla eða tíma.

Sé samræða mannkyns – eða samfélags okkar hér heima – föst í tvívíðum veruleika þá erum við skammt á veg komin í þróun. Terence McKenna sagði í fyrirlestrum að tungumál sem bundið væri við bókstafi og orð og þyrfti að heyrast væri of takmarkað fyrir sjónrænt tungumál eða skynjað. Ef við erum í tvívíðum heimi er þetta viðhorf McKenna í fáránlega menginu.

 

 

 

 

 

 

 

This entry was posted in Heimssýn and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.