Kreddan er útför hinnar lifandi trúar

Trú er í samtíma okkar jöðruð (marginalised). Manneskja sem er trúuð er séð sem þröngsýn og skammsýn sem lifi í takmörkuðum og gamaldags heimi.

img-coll-0208Hún hangi í tilbeiðslu á úrelta eða hálfúrelta hugmynd um yfirskilvitlega veru sem hafi dálítið öfgakenndar mannlegar tilfinningar á borð við litróf afbrýði og fyrirgefningar og margt þar á milli.

Enn fremur er sýnin á gildi trúar orðin bjöguð, jafnvel af prestunum sjálfum.

Kraftaverk fortíðar séu blekking, sýnir þeirra sem byggðu upp rökvísi og sýn trúarlegra sannfæringa hafi verið bipolar mannverur sem ekki höfðu þor eða styrk til að lifa eðlilegu kynferðis- og fjölskyldulífi.

Oft hafi þeir verið manneskjur sem höfðu fullmikinn áhuga á að fordæma annað fólk og ramma fylgjendur sínar inn í takmarkaða veröld fordóma, bölsýni og takmörkunar í andlegri og veraldlegri sköpun.

Að sama skapi hefur jafnvel innan trúarheimsins verið sett á jaðarinn verk þeirra sem upprunalega veittu innblástur að farvegi trúarinnar eða spámanna og spákvenna. Litið er á sem fæsta spámenn og oft gert lítið úr sýn þeirra með því að bæta við trúarlegum útskýringum, guðfræðilegum rökum og heimspekilegri afstöðu sem útvatnar segðir þeirra og útskýringar.

Umfram allt eru spámenn sem mest útilokaðir frá veruleika hins trúaða; þeir eru fjarlægir í tíma, gert lítið úr þeim á grundvelli mannlegs breiskleika eða ótrúverðugleika stöku míta um þá. Aðallega er stillt upp deiluverki þess hvort þeir séu fleiri eða færri.

Tökum fáeinar stiklur um þetta.

Það hvort meyjarfæðingin sé möguleg eða ekki eða hvort vatnsgangan sé fræðilega geranleg er nægilegt mörgum til að útiloka að Jósúa Maríu- og Jósepsson hafi getað verið getinn og leiddur yfirskilvitlega, hann hafi þó verið vísdómsmaður og líklega gæddur heilunarmætti.

Þetta er viðhorf efahyggjumanna en trúaðir líta hann þó aðeins sterkari en efast þó um sumt, þó eru þeir harðir á því að hann hljóti að hafa verið gæddur guðlegum mætti og að útilokað sé að síðari spámenn s.s. Múhameðs hafi getað verið sendiboðar hins eina Guðs, Jósúa hljóti að vera sá síðasti.

Báðir áðurnefndir hópar líta til Múhameðs og taka fljótt í þann hæl að hann hafi verið meðmæltur heilögu stríði ásamt ýmsu ofbeldi sem yfirlýstir fylgjendur hans viðhalda s.s. Jihad, refsingum með afhausun og aflimun.

Einnig er litið til þess að sagt er að hann hafi kvongast ungri stúlku þegar kona hans var látin. Dugar þetta mörgum til að afskrifa allt ævistarf hans og heildar innsýn á Kóranin sem er heilagt rit Íslam og sagt fært spámanningum fyrir milligöngu engilsins Gabríels.

Sé farið frá hinum kristnu og íslömsku mítum yfir til hinna júðsku trúar væri helst að líta spámenn á borð við Móse og arftaka hans Jósúa. Ekki er neitt sem sannar tilvist þessara manna og talið er ólíklegt að stafur Móse hafi getað klofið Rauða hafið eða að lúðrar Jósúa látið múra Jeríkóborgar hrynja.

Þá mætti líta til Daníels, sem var afar merkur spámaður, en gat hann lifað af nótt með ljónum eða vinir hans lifað af að vera kastað í eldsofn?

Hægt er að halda svona áfram og telja fram hvort þessi eða hinn spámaðurinn ætti tilkall til þess að vera fulltrúi almættisins, hvað þá að kraftaverk séu yfirhöfuð möguleiki. Hinn trúaði lítur þó svo á að væri spámaðurinn sannanlegur þá mætti efast um muninn á trú og sönnun; því væri trú sönnuð yrði hún staðreynd en ekki trú og gildi trúar missir marks ef ekki má finna í því illáþreifanlegar dýptir.

Þeir sem dýpra fara í vangaveltur af þessu tagi líta einmitt svo á að þarna leynist styrkur trúarinnar. Sjálfur tel ég mig vera spámann Guðs og eftir mig liggur heilmikið efni þar sem ég fjalla um það innsæi sem mér hefur opnast eftir að ég axlaði það hlutverk. Víða kemur fram að ég vildi ekki þetta hlutverk en ég hef ekki ritað víða um hvaða trúarreynslur urðu til þess að ég tók við því, sumt hef ég þó gefið í skyn en ég kæri mig ekki um að of mikið um þau atriði séu til niðurritað.

Það væri einmitt gagnstætt hlutverkinu að reyna að sanna svo stóra yfirlýsingu því hún getur einungis verið meðtekin trúarlega.

Ennfremur er í mínum huga, og mér sýnist það vera stórt í verki allra fyrri spámanna, mikilvægt að halda mér sem persónu til hliðar, því hlutverk mitt er að beina sjónum á annan mér til muna meiri og hvetja aðra til að finna þann aðila, ekki á minn hátt heldur sinn hátt.

Þegar ég rýni í frásögur genginna spámanna sé ég þetta skýrt. Þeir mátu sjálfa sig einskis heldur voru þeir þjónar innsæis og skilnings sem þeir töldu nægilega mikilvægan til að þola vissa útskúfun eða háðung samtíma síns ef verða mætti að auðga mætti líf samferðamanna sinna og þeirra sem síðar kæmu.

Það voru einmitt eftirkomendur þessara manna sem upprituðu skilaboð þeirra og hver veit hvaða orðum var skotið inn eftirá eða hvaða setningar brengluðust í síðari frásögn eða veraldlegu valdi til hagsbóta?

Hér er ég einmitt kominn að þeirri hugsun sem vakti hugleiðingu þessa upp. Því þegar trú er jöðruð þá verða prestar hennar meira boðberar þurrlegra reglna og takmarkandi skilgreininga eða fordæminga eða þá útþynntir boðberar skilgreinanlegt – og takmarkandi – siðferðis frekar en lifandi innblásturs og kraftmikillar afstöðu. Um leið verða hinir fornu spámenn – og konur – settar utar á jaðarinn og um leið véfengt að fleiri geti birst.

Guð er hins vegar á öðru máli enda er það kraftur skaparans sem glæðir vitund spámannsins lífi og segir honum hvað hann er og taki hann við því hlutverki opnast fyrir stóran foss af innsæisskotum og innsæi sem smátt og smátt breytir honum eftir því sem hann fetar einstigið krókótta.

Margir einstaklingar í samtíma okkar og fortíð hafa upplifað slíkt, enda eru ekki allir spámenn sem eru sendir til að afmarka stórar breytingar í trúarlífi þjóða svosem Zóróaster, Abraham, Móse, Jósua frá Nasaret eða Múhameð frá Mekka.

Því hefur verið margspáð að fram komi spámaður á Íslandi. Ég hef engan áhuga á að gera tilkall til þess hlutverks en þau skrif sem mér hefur verið innblásið að koma frá mér og sá skilningur sem þeim fylgir varpar upp heimsmynd og túlkun bæði á yfirstandandi sögu samtíma okkar og liðinni sögu bæði landsins míns og heimsmenningar að hún gerir sjálf tilkall til að vera ný hugsun eða nýr skilningur, ekki bara í tvívíðu heldur margvíðu samhengi.

Sjálfur sá ég þetta eftirá en ég vil ekki fara nánar í þá hluti og læt öðrum það eftir að meta.

Aðal málið í mínum huga er því ekki hvort ég standi undir eigin fullyrðingu um hlutverk mitt eða ekki. Málið er að sé trú þess verð að rýna í þá er til skapari. Sé til skapari þá hefur líf þitt markmið og tilgang, bæði hins tímalega fyrirbæris sem er egó með nafn og býr í forgengilegum líkama þínum en einnig sú sál sem þú varst áður en líkaminn varð til og heldur áfram farveg sínum eftir að hún varpar af sér hamnum.

Því gefur það auga leið að ef þú getur sleppt tökum á takmörkunum þessa egós – og um leið öllum kreddum, reglum og takmarkandi skilgreiningum presta þinna og kreddna – þá getur þú gengið með Guði. Það merkir að þú eignast samfélag (relationship) við þennan skapara og er þá sambandið persónulegt.

Þetta merkir að Guð svarar samtali þínu, nokkuð sem varðliðar kreddunnar hafa fjarlægt frá trúarlífi þínu. Varðliði kreddunnar er hið sama og embættismaður regluverksins; öðru nafni Prestur eða Guðfræðingur. Predikarinn er sýslumaður varðliðans, því hann fylgir hinni dauðu kreddu og hafnar öllum spámönnun nema þeim sem staðfesta trúareldmóð hans sjálfs.

Lokaniðurstaðan hlýtur því að vera sú að spámenn geta aðeins bent þér á að Guð sé lifandi afl sem þú getir nálgast. Hvernig þú nálgast Guð, hvers vegna þú gerir það eða hvaða afleiðingar það hefur fyrir þig; getur aðeins þú sem einstaklingur svarað. Það kemur engum öðrum við.

Það á enginn með að segja þér hvað sé rétt eða rangt, hvaða reglur séu, eða hvort eða hvernig eitthvað himneskt sé, nema Guð sjálf(ur) í beinu samfélagi við þig sem einstakling.

 

 

 

This entry was posted in Heimssýn and tagged , , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.