Hugleiðing um sjálfshvatningu þjóðar

Við vitum öll að það er margt að hér hjá okkur – og margt sem er súper gott. Þegar ég horfi á umræðuna – og samræðuna sem er minni en hún er til – þá leita ég sífellt að rótinni; hver er rót vandans.

img-coll-0273Þá hef ég engan áhuga á hvort það er í stjórnmálunum, bankakerfinu, smáiðnaðinum, menningu og listum, menntakerfinu eða annars staðar, heldur hver sé rótin undir öllu draslinu.

Ég hef ekki enn fundið svarið en ég hef fundið vegstikur í þokunni. Fyrsta vegstikan var sú að þjóðin ætti ekki samræður en það er misskilningur.

Fólk ræðir saman hvar sem er og það er auðvelt að fá fólk í samræður. Næst hélt ég að það væri sjónvarsfóðrunin og ég er ekki alveg búinn að afskrifa það því ég sé mörg merki þess en þarf að rökstyðja það í dýpri grein en þessi stutta færsla leyfir.

Næst hélt ég að það væri þekkingarskortur og það er auðvelt að rökstyðja það sömuleiðis en aftur þyrfti það lengri grein því til að sýna það þarf að sýna hvernig margir punktar úr menningu bæði okkar Íslendinga og Evrópu eru að hafa áhrif á hugarfar og mótun samfélagsins í dag en þó almenningi ómeðvitað.

Til að sjá þá þunkta þarf maður að þekkja heimspekiþróun aldanna, dulda og hálfdulda punkta úr sögunni og einnig að þekkja trúarheimspeki þokkalega; svo það býður. Ég hef engu að síður rekist á í samræðum að vel flest fólk þekkir nógu marga punkta til að vita hvort maður bullar í þeim ef þeim eru sýndir nýir og að fólk hefur gaman af að tengja saman nýja sýn ef hún er aðgengileg. Svo þetta er ekki rótin.

Þá fór ég að velta fyrir mér hvort það væri siðferði og þar var ég mjög lengi og er enn að velta því fyrir mér. Ég sé fólk sniðganga nágranna sína sem beittir eru kerfisofbeldi. Ég sé fólk taka þátt í einelti vegna sleggjudóma. Ég sé fólk líta undan og afneita samstöðu þegar vinnustaðaofbeldi á sér stað.

Ég sé fólk samsinna góðum gildum en fórna þeim fyrir yfirvinnu, starfsframa eða skemmtilega sjónvarpsþætti; sem er hið sama og hafa skoðun á einhverju en taka afstöðu með öðru. Ég sé fólk ljúga eins og enginn sé morgundagurinn er því hentar og ég sé reiðiálfana í umræðunni þeyta upp þvílíku moldviðri í kringum sig og viðhlæjendur sína að hægt er að tínast í því dögum saman, en hvergi neitt sem hvetur fólk til samstöðu og átaks um breytingar á atriðum sem við öll virðumst sammála um.

Ég vil því ekki afskrifa siðferðisvitund en ég veit ekki hvort hún er kennanleg eða hvort hæfileiki hennar sé meðfæddur.

Ennfremur veit ég að ekki er hægt að benda manneskju sem hefur – tja síðra siðferði – á að skortur sé á því niðurstaðan er þá reiði og úlfúð. Því hversu velhugsandi sem við teljum okkur vera þá erum við ætíð háð vef sjálfsblekkinga um eigin sjálfsímynd og stöðu í samfélagi.

Vissulega trúi ég því að skrif mín eins og þau birtast í „Endurreist Þjóðveldi“ og í „Ferli jákvæða viljans“ bendi á hagnýtar leiðir til úrlausnar, en erfitt reynist að finna áhugasama til að kynna sér þær hugmyndir og sumar þeirra virðast of langt utan við ramma sjóndeildarhrings flestra.

Er það vel því sannleikur sem ekki er skoðaður hlýtur að vera rangur og skoðanir sem ekki skiljast við fyrstu framsetningu eru rangt framsettar. Tek ég því þannig að það sé ekki hinir heldur ég sem séu strandskerið.

Eins og Ferli jákvæða viljans kennir, „ef þú nærð ekki árangri ertu að gera eitthvað rangt og þarft að reyna aðra nálgun,“ og ennfremur „ef fólk viðurkennir þig ekki þá ertu að nálgast það á rangan hátt.“

Þannig séð, þó ég hafi lýst lausnum í sjálfshvatningu einstaklings og þjóðar í tveimur ritum þá er ég sáttur við ritin því ég skil þau og allir höfundar vita að þeir eru sjálfir lesandinn sem skrifað er til. En það breytir ekki því að sem hugsandi mannvera í samfélagi þá leita ég samt að svari við spurningunni; hvar er rótin?

Hver er rót þess vanda sem samfélag okkar á við að stríða?

 

This entry was posted in Þjóðveldi and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.