Hvergi sést listi yfir tómar íbúðir þjóðarinnar

Búinn að heyra í útvarpinu síðustu daga. Búinn að skoða meginvefmiðla, lauslega, búinn að heyra í fólkinu í kringum mig, sem all flest fylgist vel með.

img-coll-0557Er að reyna að heyra eitthvað annað en það sem mér finnst sjálfum, því ég er alltof pissed off og búinn að tjá mig nóg úr þeim ranni. Ég heyri aðallega þrennt.

Heilmikið af fólki segir að við séum að sjá hagvöxt og batnandi efnahagslíf og gefa í skyn að þjóðin sé vanþakklát fyrir erfiði sem stjórnmálastéttin og embættastéttin hafi lagt á sig.

Heilmikið af öðru fólki virðist aðallega upptekið af að skíta út í aðra hverja frétt eða athugasemd til hægri og vinstri og vaða á súðum yfir málefnin og ala á reiði viðhlæjenda sinna.

Allstór hópur virðist upptekinn af að berjast í bökkum, sætta sig við að hafa misst nær allt og vera að berjast við að halda í það litla sem eftir er og reyna af alefli að halda ró sinni.

Hvergi sé ég upptalið hve mörg börn séu á sultarmörkum. Ekkert um það hve margir Íslendingar búi núna í bílnum, í skúrum í iðnaðarhverfum, í stofunni hjá vinum eða fjölskyldu, eða hafi neyðst úr landi, eftir að bankaelítan fékk húsnæðin þeirra gefins í boði verðtryggingar og bankasvindls með aðstoð sýslumanns sem er þó opinber stofnun þjóðarinnar.

Hvergi sé ég lista yfir tómar íbúðir þjóðarinnar teknar með löglegum hætti ólaga, né heldur hve margir erlendir fjárfestingarsjóðir hafi eignast þær eða hve mörg leigufélög. Hvergi sé ég flett ofan af blekkingarmyllu Lífeyrissjóðaklíkunnar, eða flett ofan af neinni spillingu yfirleitt. Spuninn er algjör og það sem er úr augsýn er langt úr hugsýn.

Fyrrnefndir þrír hópar eru áttavilltir í eigin hugarflækjum.

Fyrsti hópurinn hljómar eins og jötuliðið sem aldrei hefur grafið skurð með handafli, skipt um bremsur í frosti fram yfir miðnætti til að komast í vinnuna í fyrramálið eða jagast í gegnum vertíð í frystihúsi. Lið sem heldur að menntun sé gjöf foreldra sinna eða í það minnsta að búa heima á meðan. Fólk sem hikar ekki við að setja þig í árangurslaust fjárnám því það sé löglegt og skilur ekki orð á borð við „ólögum eyða.“

Næsti hópur er að hálfu fluttur úr landi og virðist mest þrífast á því að hanga í tölvunni að glápa á moðið hér heima, þó þau búi þar sem grasið er grænna og hægt að kaupa kjöt fyrir penínga í stað blóðdropa, aðallega upptekið af að fóðra reiðina hér heima og njóta athyglinnar. Það er vissulega gaman að skrifa vinsæla stöðupósta um það sem maður er reiður yfir; en málefnasamræðan um lausnir, gildi og grasrótarúrræði er núll.

Þriðji hópurinn er ráðþrota. Sumir þar vilja bylta kerfinu á hvolf. Aðrir trúa ennþá á stjórnmálin og vilja skipta um stjórn og í raun eru að segja að þeir trúa á kerfi sem löngu hefur afsannað gildi sitt.

Í þessum hóp er fólk sem er aðallega þreytt, vonsvikið, vondauft, úrkula vonar, verulega reitt en reynir að trúa því að „þetta reddist“ eða „trúðu á sjálfan þig og tækifærin“ en veit að framundan er bara fleiri útburðir, áframhald á erfiðleikum, lygum, löglegu ofbeldi, orðhengilslegri spillingu og fleiri þvættingi.

Skiptir þetta máli? Nei.

Fyrsti hópurinn er tækifærissinnaður og siðblindur hópur fólks sem samfélag mun ávallt sitja upp með, hvort heldur hægra megin eða vinstra megin við tvívíða línu stjórnmála sem halda að þrívídd sé fantasía. Næsti hópur er löngu búinn að kúpla sig út en heldur í egósentríska tilfinningafróun en hefur ekki sýn, kjark né dug til að leiða fólk til uppbyggingar og lausna.

Þriðji hópurinn er sá hluti þjóðarinnar sem ber landið á herðum sér en þorir ekki að rugga bátnum af ótta við að missa það litla sem það hefur og hefur fyrir löngu gleymt að hún er að borga fimmfalt til áttfalt verð fyrir það í gegnum kerfisskrúfur og faglegan þvætting.

Lýðveldi er hugmynd sem hvílir á trú þeirra sem skilja ekki merkingarfræði og halda að menntun snúist sé prófgráður sem mæli minni. Skapandi hugsun er þegar þekking er tengd úr ólíkum áttum og þegar hinn menntaði hugur sækir sjálfur í þekkingu í stað þess að éta á jötu þeirra sem útbjuggu listann.

Gildi er sá kraftur sem mótar afstöðu en þú getur hvorki stjórnað slíkri manneskju né mótað hana, en það er auðvelt að hræra upp í hrokafullum ególýð sem heldur að skoðanir hans séu merkileg rökfræði.

Með öðrum orðum, meðan þjóðin rís ekki upp sjálf til að móta það samfélag sem hún vill búa í og sér ekki sinn eigin sköpunarkraft – og þá meina ég virkt sniðgengi sem yfirgefur valdakerfi sem henni mislíkar – hvað þá að hún virkji þá samræðu sem lýðræði hvílir á; en hún er gagnvirk og síkvik, þá á hún skilið þá skiilvindu sjálfsblekkinga sem listuð var hér að ofan.

Rétt að komi fram að margt vænt og vandað fólk hefur flúið land gegn vilja sínum og bæði gerir það sem það getur þaðan og telur dagana þar til það kemst heim á ný.  Ég þekki af eigin raun hvernig Elítan getur þjarmað að fólki.

Þó ég sé óvæginn að gagnrýna Lýðveldis elítuna þá forðast ég að skjóta spjótum á fólk, því maður verður að bera virðingu fyrir að fólk sé ósammála og einnig að fólk hefur sínar ástæður. Mér fannst ég vera dálítið á rauða strikinu hér.

Þarna eru fjölmiðlar að bregðast verulega því þeir virðast kerfisbundið vinna að því að við horfum framhjá þessum hlutum þegar þeir ættu einmitt að hjálpa okkur að muna.

Að endingu vil ég benda á hljóðgrein 16 um Endurreist Þjóðveldi; Hugmyndir móta veruleika.

 

 

 

This entry was posted in Þjóðveldi and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.