Beðmál og næmi

Hefurðu horft á „Sex and the City“? Flottir og vinsælir sjónvarpsþættir um fallegar konur sem búa í New York. Þær eru allar taugaveiklaðar, kynþokkafullar og eftirsóknarverðar ungar konur. Í það minnsta á skjánum.

img-coll-0895Ég sá þessa þætti fyrst fyrir tólf árum og ég horfði. Er til karlmaður sem ekki horfir á sjónvarpsþátt sem sýnir fallegar þokkagyðjur? Þær eru vel til fara, vel vaxnar, falleg andlit, galtómar og taugaveiklaðar.

Jæja ein þeirra er lífsreynd og ekki mjög taugaveikluð. Hún er líka skemmtilegust, auk þess er henni slétt sama þótt þú hringir ekki daginn eftir. Ef það var eitthvað varið í þig hringir hún í þig.

Ég man ekki hversu oft ég horfði á þessa þætti, enda lítið í þá varið, svona yfirleitt. Sambýliskonan og fleiri vinkonur misstu helst ekki af þætti, seríu fyrir seríu. Oft sá maður einn og einn þátt, aðallega því maður var að „horfa með henni“ – þú veist hvað ég meina.

Hvort þú horfir á „Beðmál í borginni“ eða „Aðþrengdar eiginkonur“ skiptir ekki alltaf öllu. Í það minnsta ekki þegar horft er með henni.

Hins vegar skiptir meira máli hvort horft sé á Bruce Willis mynd eða Chuck Norris, sá síðarnefndi bregst aldrei. Hinn er dálítið væminn á köflum en alltaf flottur. Ég man eftir skemmtilegri bylgju sem gekk yfir Netið í kjölfarið á þessum þáttum.

Bylgja þessi er ekki alveg runnin sitt skeið þegar þetta er ritað; Mismunandi vel skrifuð blogg af mismunandi vel hugsandi fólki, sem skrifar um húmanískt kynferði. Sjáðu til, þessir þættir eru ekki galtómir. Þeir voru skrifaðir – og eru vafalaust enn – af konu sem ritar fyrir eitthvað blað í New York. Ég held að hún skrifi einnig á netinu.

Bylgjan felst í þeirri fallegu uppskrift að selja yfirborðslétt netspjall eða blogg um kynlíf og samskipti kynjanna. Ekki er langt síðan nýr vefur leit dagsins ljós á Íslandi byggður á þessari skemmtilegu formúlu. Fleiri dæmi mætti nefna af okkar góða landi en látum gott heita.

Manstu eftir Belle de Jour? Unga konan sem fór að selja þjónustu og skrifaði um það á netið? Hún var einnig hvöt að innantómri sjónvarps seríu.

Manstu eftir Venus og Mars bókinni, eða þegar kærusturnar voru með dellu fyrir „Tilfinningagreind“. Allt vaðandi í umfjöllun um kynlíf, tilfinningar, og yfirborðskennda sálfræði sem skiptir okkur mis miklu máli. Jú þetta skiptir máli, en mis miklu og hefur mis mikið vægi.

Þetta hefur sótt á mig undanfarin ár. Stundum þegar ég horfi á útgefna bókatitla, blaðagreinar, netspjall og fleira í þeim dúr, fæ ég létta gæsahúð. Hér og þar koma titlar bóka og fleiri sérfræðinga sem selja unað ástalífsins og greiða úr flækjum tilfinningalífsins til hægri og vinstri. Þetta er held ég mest keypt af konum, og líklega flest allt skrifað með þær í huga.

Ég sé hvergi neitt skrifað fyrir karlmenn! Satt að segja hef ég leitað að efni fyrir okkur, og ég hef rætt við aðra karlmenn. Ég hef rætt við karlmenn árum saman, um konur, kynlíf og fleira skemmtilegt, á milli þess sem önnur málefni voru rædd. Mér sýnist að enginn þori að skrifa neitt fyrir okkur, um okkur, af ótta við árásir og einelti.

Þar sem ég er hvort eð er ærulaust varmenni og góðborgarar vita hvers kyns ég hlýt að vera þá get ég ritað um þessi mál mér að skaðlausu.

En þetta var nú á persónulegu nótunum. Eina leiðin til að skrifa um það sem við karlar höfum áhuga á, þegar kemur að tilfinningum og kynlífi, er hreinskilni eins og hún gerist beittust. Segja verður allt, og leyfa verður öllu að koma fram. Sama hvaða velsæmiskennd það særir. Þess vegna eru þessi skrif hér, það er enginn sem þorir að skrifa þetta. Þar sem ég hef ekkert mannorð lengur, læt ég bara vaða.

Við karlmenn höfum ekki næmi af sama tagi og konur fyrir tilfinningum og nánd. Við höfum okkar næmi, en það er ekki af sama tagi.

Okkar næmi er jafn viðkvæmt, jafn djúpt, og jafn mikilvægt, en það er aðeins öðruvísi. Kynlífs og kynsamskiptabækur ritaðar af taugaveikluðum framagellum og hálfgeldum femínistarökkum, skera ekki kökuna.

Hommar skilja hvað ég á við því þeir skilja næmi beggja kynja hvað þetta varðar. Margir kynvísir karlar hafa gagn haft af því að ræða þessi mál – stuttlega þó – við homma, en við förum ekkert í það.

 

 

This entry was posted in Heimssýn and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.