Ein hugsun, eitt skref

Það er auðvelt að segja „lífið er fullt af tækifærum“ og minnsta mál að tala við aðra eins og maður viti þetta.

En ef þú í leyni hugsar stundum á þá leið að ekkert nýtt sé að gerast í lífi þínu, að þú sért í sömu sporum, að tækifærin séu ekki að koma til þín, þá veistu þetta ekki í raun.

Ástæðan er einföld – eins og allt í Ferlinu.

Þú trúir enn að þú eigir að lifa lífinu eins og þú hefur alltaf gert. Þú trúir enn þeim hugmyndum sem aðrir hafa þróað handa þér. Það geta verið hugmyndir frá samfélaginu, fjölmiðlum, félagsnetinu, fjölskyldunni eða þínum eigin skoðunum.

Þannig erum við föst í hjólfari hugans af gömlum vana og án þess að sjá farið. Við sjáum ekki hugmyndirnar sem við höfum innbyrt og gert að múrsteinum sem ramma okkur inni. Því hjólfar hugans er einmitt þær hugmynda-brautir sem hugurinn starfar eftir – sem móta eitthvað sem nefnt er egó.

Egó er þannig uppskrift, og ekki ein heldur margar. Uppskriftin að Foreldri, uppskriftin að Vinur, uppskriftin að Starfsmaður, uppskriftin að Kynvera, uppskriftin „Að versla“.

Samtíminn er ekki kominn á þann stað enn að sjá skýran mun á hugarkerfi – eða egó – og sjálfi. Þó flestir viti að munur sé á þessu tvennu þá hafa vísindin ekki viðurkennt það enn og þess vegna er því ekki haldið að okkur.

Ferlið kennir að flest vanlíðan stafar af því að hafa ómeðvitað keypt þá skynvillu að egóin séum við sjálf og þannig ýtt sjálfinu til hliðar. Sjálfið er hið raunverulega *þú* en þú sérð það ekki fyrir hugmyndakerfum egósins.

Ef líf þitt er staðnað þá er það vegna þess að þú hangir í uppskriftum hugans og trúir að þær séu þú. Eina leiðin út er sú að henda þessum uppskriftum einni af annarri í hvert sinn sem þær koma upp.

Þetta er gert með einni hugsun: „Hvernig get ég hugsað þetta öðruvísi?“ Það er ekki gert á einum degi, heldur með hugarfarsbreytingu sem tekur tíma, í ferli hins jákvæða vilja.

 

 

 

This entry was posted in Ferli hins jákvæða vilja and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.