Litadýrð í blómagarði

Ég var svo lánsamur sem ungur piltur að alast upp í sveit. Ég var einnig svo lánsamur þegar ég var drengur, að komast að því að til var samkynhneigt fólk.

Ennfremur var ég svo lánsamur að mér var kennt af fullorðna fólkinu að bera virðingu fyrir fólki sem er öðruvísi en ég sjálfur.

Þegar ég var drengur fannst mér þó óþægilegt að til væru drengir sem þættu aðrir drengir sætir. Mér fannst sjálfum gaman að horfa á stelpur, og fannst sumar þeirra sætar. Mér fannst óþægilegt að þurfa að ímynda mér hvort hinsegin strákar yrðu skotnir í strákum.

Þegar ég varð fullorðinn fékk ég mörg tækifæri til að vinna úr þessu. Eitt sinn ræddi ég þetta við sálfræðing sem leiddi mér fyrir sjónir ýmsar niðurstöður úr rannsóknum á þessu fyrirbæri. Meðal annars að sumar rannsóknir sýna að það séu gen sem ráða þessu að miklu leyti. Ennfremur að það sé gagnkynhneigðum eðlilegt að skilja ekki samkynhneigða og öfugt.

Þótti mér viss léttir að komast að því að fordómar í sál minni voru eðlilegir og það auðveldaði mér að beita vilja mínum til að afgreiða fordómana. Fleira kom þó til sem auðveldaði mér að læra virðingu fyrir hinsegin fólki.

Þegar ég var tvítugur kom vinur minn úr felum. Við höfðum þekkst helminginn af ævi okkar og áttum – og eigum – margt sameiginlegt. Báðir erum við listhneigðir og skapandi í okkur og báðir höfum við gaman af að skeggræða ýmsar hliðar tilverunnar. Þegar hann kom úr felum var ég með þeim fyrstu í okkar gamla vinaneti sem fékk þessa vitneskju beint hjá honum sjálfum.

Það vildi þannig til að við unnum saman á þessu tímabili og mér brá þó nokkuð. Mest brá mér yfir að mér brá! Því ég var alinn upp við fordómaleysi og umburðarlyndi í þessa átt, svo mér brá yfir að sýn mín á gamlan vin breyttist á svipstundu.

Þrem dögum síðar skammaðist ég mín fyrir að hafa látið þrjá daga líða án þess að ræða þetta – eins og hann sjálfur – beint við hann sjálfan. Svo ég kom út úr fordómaskápnum og ræddi beint við hann. Vinátta okkar styrktist og heilaðist á svipstundu.

Vikurnar sem í hönd fóru voru skemmtilegar og hafði ég frábært tækifæri til að kynnast með augum góðs vinar þeim reynsluheimi sem hann lifði án þess að þurfa að efast um sjálfan mig eða hvernig lífið snérist.

Löngu síðar bast ég vináttuböndum við góðan vin fyrrum sambýliskonu minnar. Við gerðum allt sem strákar gera saman. Spjölluðum um allt milli himins og jarðar, duttum í það saman, og urðum góðir vinir. Nema þegar við skruppum í bæinn að fá okkur í glas horfði ég á stelpurnar og hann á eitthvað annað, og það mátti ræða það.

Mér fannst oft skrýtiðþegar ég stóð hann að því að glápa á sætan strák. Hann tók eftir að mér fannst það óþægilegt og hann reyndi að hlífa mér við þessu. Virðing er til báðum megin við línuna.

Báðir þessir ágætu menn opnuðu fyrir mér sýn á heim sem er til, á að vera til, má vera til, og verður alltaf til. Að reyna að bæla þennan heim, afneita honum, eða beita hann ofbeldilýsir best þeim sem ofbeldinu beitir.

Þegar ég var drengur í sveitinni tók ég eftir einu sem hér á samleið. Á bænum voru tólf kýr og reglulega varð einhver þeirra yxna. Þá þurfti að kalla til sæðingamann en í þrjá daga var kýrin kynóð og riðlaðist eins og naut á sumum kúm og leyfði öðrum kúm að riðlast á sér.

Tíðahringur kúa er sá sami og kvenna svo ég fékk að fylgjast með þessu tólf til sextán sinnum á ári eftir atvikum.

Innan tveggja ára tók ég eftir að tvær kýr voru áberandi að riðlast á yxna kúm. Það var ljóst að tvær kýr í hópnum voru lesbíur. Ekki að þær vildu láta aðrar kýr riðlast á sér, heldur breyttust þær í hálfgerða tudda í hvert sinn sem kú var yxna nærri þeim.

Á bænum voru á annað hundrað fjár og er fengitíminn miðsvetrar hjá þeim. Hið sama var uppi á tengingnum í fjárhópnum. Þegar kindur voru blæsma sást að 12 til 18 prósent af hópnum var tví- eða samkynhneigður. Auk þess riðluðust mörkin á egglos-tíma.  Þar sem ég hunda og þjálfa leitarhunda og verð ég reglulega vitni að hegðun tíka á lóðaríi. Ég á eina tvíkynhneigða tík og hef áður átt!

Kindur, Kýr og hundar eru spendýr, rétt eins og við. Náttúran hefur húmor.

Fyrir hálfu ári síðan var ég í tímabili trúarefa. Ég hafði skrifað bók um Guðstrú og ég efaðist um margt. Ég efaðist ekki um innihaldið en ég efaðist um hvort ég ætti að standa með því, eða hvort ég þyrði því. Ég var sáttur við bókina sjálfa en ekki viss hvort ég vildi leyfa öðru fólki aðgang að henni. Ég var í djúpum efa með þetta og hafði verið í fáeina mánuði.

Ég heimsótti að lokum einn elsta vin fjölskyldu minnar. Mann sem ég hef þekkt síðan ég var tíu ára gamall. Ég vissi að hann myndi gefa mér þau svör sem ég þurfti og ég vissi jafnframt að ég myndi ekki þurfa að segja honum hvaða svara ég leitaði. Það er sama hvoru kyninu við löðumst að í prívatlífinu, við höfum öll kynnst manneskju sem við berum því sem næst takmarkalausa virðingu fyrir.

Ég fékk öll svör sem ég þurfti. Ég fékk líka að vita að ég hafði sært hann og sambýlismann hans pínupons því ég hafði lítið komið í heimsókn síðustu árin. Mér brá, því ég skildi að þeir misskildu þögn mína. Stundum þegar þú lítur upp til fólks þá ertu feimin(n) við að láta sjá þig. Sumt fólk er bara stærra en þú, að þér finnst. Hverjum kemur við hverjum þau falla fyrir í einkalífinu?

Að þessu sögðu verð ég að viðurkenna að ég ætti erfitt með ástkonu sem væri tvíkynhneigð. Ég hef verið í þeim sporum og það var óþægilegt. Ég ber virðingu fyrir því fólki rétt eins og öðrum, á slíka vini, en samt. Hvers vegna? Vegna míns veikleika, – sem heitir óöryggi – það er allt og sumt.

En til þess er óöryggi, að viðurkenna það svo hægt sé að vinna úr því.

Að lokum verð ég að láta eitt koma fram. Guð skapaði mannfólkið, rétt eins og spendýrin, til að vera eins og blóm í litríkum garði. Sá guðsmaður sem predíkar gegn litadýrð ætti að leita lifandi Guðs í stað þess að lesa um hann í bók.

Eftirskrift.

  • Litadýrðarmyndir
  • Rómverjabréfið 1:20(en): „Því að hið ósýnilega eðli hans, bæði hans eilífi kraftur og guðdómleiki, er sýnilegt frá sköpun heimsins, með því að það verður skilið af verkum hans. Mennirnir eru því án afsökunar.“

 

 

This entry was posted in Heimssýn and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.