Menntunar holan

Íslenska þjóðin býr að bestu menntun í heimi – eða svo er sagt. Þó kemur hún illa út úr samanburðar rannsóknum. Læsi virðist fara hnignandi og kerfið er talið dýrt, jafnvel óskilvirkt.

Víða heyrast viðtöl við sérfræðinga með ýmsar skoðanir en flestir tala þeir mest um kannanir og stefnur. Minna bólar á einföldum úrræðum til úrbóta, eða betrumbóta. Minna ber á þeim röddum sem ræða um hvað rétt sé gert, eða sé til fyrirmyndar, í kerfinu.

Stöku sinnum stígur fram kennari eða foreldri sem ræðir beint um staka þætti sem eru til vansa og benda í leiðinni á eitthvað sem er gott eða nefna sérstakar framfarir. Á engu þessu hef ég sérstaka skoðun, né þekkingu. Það er langt síðan ég var þolandi þessa steinrunna kerfis. Ég veit ekki hvernig það hefur þróast síðustu þrjátíu árin auk þess sem ég hef aldrei kynnt mér hver hugsun þess er.

Þó starfaði ég sem kennari – eða leiðbeinandi – í átta ár og veit eitt og annað um þekkingu, þekkingarleit, og þekkingarmiðlun.

Ungur að árum las ég bók sem hafði meiri áhrif á viðhorf mín en ég gerði mér ljóst. Ég var fjórtán ára þegar mér var gefin bók sem heitir Summerhill skólinn eftir A.S. Neill. Ég átti býsna erfitt með að lesa hana á þessum árum enda viðfangsefnið langt út fyrir þann hugarramma sem ég bjó yfir þá. Bókin er hins vegar vel þýdd, vel skrifuð, og innihald hennar er merkilegt.

Bókin styður þá kenningu að börn vaxi best, þroskist best, og læri best, ef þau fái algjört frelsi til að gera það á sínum eigin forsendum. Höfundur var stofnandi og skólastjóri Summerhill skólans og dóttir hans tók við honum eftir hans dag. Bókin sem slík var kannski aðgengilegri mínum unga huga fyrir þær sakir að hún byggðist upp á einföldum frásögum úr skólastarfinu. Allar þessar frásögur einblýndu á einstaklinga sem sýndu gott dæmi um innihald, eða stefnu, skólans.

Neill skrifaði vafalaust margar aðrar bækur. Mér hefur skilist að hann hafi verið ötull fyrirlesari og verið óþreytandi að boða út viðhorf sín og reynslu. Löngu síðar þegar ég hafði sjálfur afskipti af börnum og öðru uppeldi, fann ég til hvatar til að nýta þá sýn sem þessi bók hafði gefið mér og eftir því sem árunum miðar áfram hneigist ég sífellt meir í þá átt að samsinna skoðunum A. S. Neill varðandi uppeldismál.

Af þessum sökum á ég bágt með að skipta mér af menntunar kerfi samtímans, því margir þekkja til þeirrar reynslu og skoðunar sem starfsemi Summerhill skólans byggist á. Ég hef í raun engu við það að bæta, nema kannski að hvetja aðra til að lesa sér til um þetta. Sérstaklega þá með tilsjón til sjálfshvatningar (Self development) sem á sér vaxandi gengi á vesturlöndum. Það eru mjög áhugaverðar víxlanir (Correlation) þar á milli sem þó er þýðingarlaust að rekja í svo stuttum pistli.

Reynslan hefur sýnt að fólk þarf að feta þessi tvö einstigi til að skilja dýptina þar á milli. Ástæðan er sú að suma þekkingu þarf að upplifa til að skilja. Þú getur ekki útskýrt rauðan lit fyrir blindum manni. Gefðu honum sjón og hann sér.

Að framansögðu er ég á þeirri skoðun að Íslenska menntakerfið sé steinrunnið og gelt á meðan það metur starfsemi sína eftir vinnustundum, úrræðaskýrslum sérfræðinga og þáttökuleysi foreldra, sérstaklega meðan þolendur þess fá ekki að vera gerendur í því.

Umfram allt hlýtur hverjum fullorðnum sem er, sem þekkir til barna og þroska, að vera ljóst hversu fáránlegt það er að skikka börn í þurrabúðarsetu klukkustundum saman sem neytendur þurrlegrar þekkingar sem metur svo viðtekningu þeirra með yfirborðskenndum prófum í lok tímabils. Slíkt hvetur til staðnaðrar hugsunar, slær á hvöt til að tengja saman óskylda þætti þekkingar svo úr verði sköpun og skikkar þolandann til að taka við í stað þess að leggja til.

Ég hef þannig enga skoðun á því hve mikið kennarar skuli vinna í stundum. Enga skoðun hef ég á því hvort lengja ætti skólaárið eða stytta það. Ég hef hins vegar skoðun á viðhorfi. Hundrað tungumál barna, starfsemi Summerhill, gildi skapandi hugsunar, eru allt viðhorf sem vert er að skoða og vinna í. Umfram allt held ég að menntun sé sérstaklega steinrunnin meðan við prófum úr lærdómi með núverandi hætti og á meðan uppalendur barna séu ekki þáttakendur í kerfinu.

Einnig er vert að íhuga hvernig menntun var í upphafi á dögum munnlegrar geymdar s.s. í fornfræðum Íslendinga sem nýttu sér bundið mál og minni. Sú aðferðafræði var einnig til grundvallar hinnar upprunalegu Akademíu á dögum Forn-Grikkja.

Var það ætlan mín með þessari færslu, sem óvart drap á fleiri þáttum, sú að birta eina hugmynd sem ég hef lengi gengið með. Hugmyndin er afar einföld en gæti á örskömmum tíma gjörbreytt árangri hins Íslenska menntakerfis. Hún er svona:

  • Breytum prófum allra anna þannig að einungis sé eitt próf úr önninni en það tengi saman þætti úr öllum fögum annarinnar. Þetta fær nemandann til að hugsa – eða skapa – og neyðir kennarann sömuleiðis til að matreiða þekkingu sína þannig að hún skiljist. Eins og allir vita skilst engin þekking án þess að nemandinn fáist til að hugsa um hana.
  • Fjarlægið mætingarskyldu nemenda og innviklið mætingarhvatningu í staðinn.

Því miður er þetta líklega of einfalt fyrir menntakerfið að skilja, enda því viðhaldið af fólki sem það ól upp.

 

 

This entry was posted in Heimssýn and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.