Hugmyndin að nýju Íslandi er ekki ný af nálinni. Þessi hugmynd birtist, á því sem næst hverri öld frá landnámi. Við megum ekki gleyma því að Íslenska þjóðin fæddist vegna þess að nýbúar árið 900 vildu nýtt land og nýtt samfélag.
Við erum svo upptekin af því að rífast og jagast – um misstór málefni – að við gleymum því hvaðan við komum. Við gleymum því að gildin sem þjóðin byggist á eru vinnusemi, heiðarleiki, frelsisást, og skoðanaskipti. Auk sterkrar trúar á ýmislegt sem ekki sést.
Oft kemur í ljós að þeir sem gagnrýna málstað Þjóðveldis gera það vegna nafnins. Í hugum margra snýst heitið „Endurreist Þjóðveldi“ um afturhvarf til fortíðar. Fæstir þeirra lesa framhjá fyrirsögninni.
Ástæðan fyrir þessari nafngift er margslungin. Í fyrsta lagi er hún byggð á þeirri staðreynd að Þjóðveldið ríkti á landinu þrefalt lengur en Lýðveldið hefur ríkt. Ennfremur vegna þess að fólk sem hefur kynnt sér Þjóðveldið saknar þess. Hins vegar er megin þorra fólks ekki ljóst hvers saknað er.
Þriðja ástæðan er sú að þegar rýnt er í eðli og frumgildi Þjóðveldis, hins eldra, kemur í ljós veraldar og lífssýn sem sker sig úr, sé hún borin saman við hinn tæknivædda nútíma. Þannig er sumsé gert grín að þeim sem ekki lesa framhjá fyrirsögninni.
Grínið felst í því að sá sem kynnir sér innihald málefnisins kemst á snoðir um að sú sýn sem Þjóðveldi hið eldra byggðist á er mun nútímalegri en nútímastjórnkerfi! Þjóðveldisfólkið á fyrri tímum beitti mörgum meðulum til að fá sitt fram. Þau sniðgengu ofbeldi Noregskonungs og yfirgáfu ofbeldiskerfi hans.
Þau beittu tvöföldu lýðræði, héraðsþingum í heimabyggð til ráðdeildar síns héraðs og síðan Allsherjarþing sem nefndis Alþingi til að samræma og samþætta lög landsins (héraða) í eina heild. Þetta var allt gert eins og hægt var án ofbeldis og með virkri gegnsærri samræðu.
Vissulega var mikið um ofbeldi á Sturlungaöld, en hvers vegna? Þegar sú saga er skoðuð kemur í ljós að sú styrjöld var fjármögnuð af Norska valdinu og var tilgangur hennar beinlínis sá að sölsa Ísland undir Noreg.
Í raun var soginn máttur úr þjóðinni með erlendu fjármagni.
Sárafáir nútímamenn hafa vald á borgaralegu sniðgengi og frelsisást eins og Gandhi, Martin Lúter King Jr. og Nelson Mandela beittu. Menn sem blésu fólki í brjóst þá hvatningu að sniðganga ofbeldi og kúgun en beita jafnframt skapandi hugsun og friðsemd (andofbeldi) til þess að ná fram markmiðum sínum.
Þetta er einmitt kjarninn í Endurreistu Þjóðveldi: Festa, Virðing, Friðsemd, Samræða, Lýðræði. Er það gamaldags?
Þess vegna veljum við þetta nafn, því það stendur fyrir merkingu sem sannaði sig í fjórar aldir og sannar sig enn í dag. Við viljum þannig endurvekja og virkja þennan sköpunarkraft til að endurskapa nýtt Ísland. En við viljum gera það með fólki sem les framhjá fyrirsögninni og kynnir sér málefnið.