Nýtt Ísland í hnotskurn

Það fyrsta sem þú hugsar við fyrirsögn á borð við „Endurreist Þjóðveldi“ er „afturhvarf til forneskju.“ Þú hefur rétt fyrir þér, og um leið er hugur þinn blekktur.

Hugsjónin fyrir endurreist Þjóðveldi er þess eðlis að ekki er hægt að taka afstöðu eftir fyrirsögn eða fimm mínútna tímaritsgrein. Höfum í huga að flest skrif á Vefnum eru í eðli sínu tímaritsgreinar. Þó má vekja spurningar og leyfa lesandanum að svara.

Það er ekki hægt að taka afstöðu á einni dagstund til þess hvernig samfélag við viljum móta. Yfirleitt er lítið ritað um slíkt viðhorf, að allt sem þú hugsar, segir eða gerir mótar samfélag þitt. Námskerfið gerir ekki ráð fyrir að kenna slíka hugsun, kennarar lærðu ekki að þroska gagnrýna hugsun sjálfir, heldur móta hugsun annarra.

Téð blekking er því þannig að fyrirsögnin lokkar aðeins það fólk sem hugsar um nútíð sem afleiðing af fortíð. Fólk sem hefur gaman af að tengja saman óskylda punkta og fá nýja heildarmynd. Því þarf ekki að lokka marga lesendur með smekklegum fyrirsögnum, því þeir sem dæma innihaldið af bókarkápunni munu ekki móta hugsjón. Meðan hugsjón okkar mótast þarf því hugsanasmiði en ekki hugsananotendur.

Þjóðveldis hugsjónin er þess eðlis að hún þarfnast fleiri mótunaráhrifa áður en hún stígur fram. Til þess þarf hún að birtast á þann veg að hún lokki mest til sín huga sem hugsa á þann veg að þeir vilji brjóta til mergjar, þróa í samvinnu með öðrum, endurmóta og endurskoða og stíga fram til baráttu þegar farvegur hugsjónarinnar er fullmótaður. Hugsjónin þarf að vera skýr og einföld en jafnframt þola breiðsíðu gagnrýni af öllu tagi. Hver einasti slíkur er jafnoki margra af hinu taginu.

Hver er þessi hugsjón? Er hún forneskja? Viljum við afturhvarf til fortíðar eða Þvert á móti? Viljum við stefna til framtíðar og læra af því sem rétt var gert hér áður, hvort sem það var gert á tíundu öld eða tuttugustu öld?

Hvað var rétt gert og hvað rangt hér áður? Hver er Íslenska þjóðin og hvert stefnir hún? Stefnir hún í eigin átt eða hagar hún seglum eftir vindi annarra þjóða? Gæti hún stefnt öðrum þjóðum eftir sínum eigin vindi? Gæti hún leitt aðrar þjóðir? Hún er fámenn og oft þverlynd, en er hún það víðsýn og sterk að hún geti orðið Friðarboðinn í norðri eins og Nostradamus spáði henni?

Einföld hugsjón að grunni til

Lýðveldið sem ól þig upp er arftaki erlends kúgunarvalds. Öll uppbygging þess beinist í þá átt að stjórna lýð, eða þegnum. Þó það nefni sig Íslenska lýðveldið er lýðræði þess mótað af erlendri fyrirmynd. Sú fyrirmynd byggist á þjóðþingum fulltrúalýðræðis sem mótaðist sem málamiðlun á milli einveldis konunga og þjóða sem voru í óða önn að mennta sig og vakna til vitundar um muninn á borgara og þegn.

Því hefur Lýðveldið ekki sinnt skyldu sinni varðandi menntun. Menntun snýst um fleira en að læra skrift og samlagningu. Hún snýst um fleira en að vita hvenær Kópvogsfundurinn var haldinn eða hvenær byltingin var í Frakklandi. Hún snýst ekki um að vita hvað fjöllin heita eða yfirborðskennda lífsleikni.

Menntun snýst um að kenna þér að afla þér þekkingar, að vinna úr þekkingu og tengja saman ólíka punkta þekkingar í afleiður og niðurstöður. Menntun snýst um að kenna fólki að hugsa skapandi og sjálfstætt en í samfélagi við aðra.

Menntunarkerfi Lýðveldisins er uppteknara af samræmdum prófum og stilltum bekkjum en framangreindu. Þetta er auðsannað:

Vissir þú að Íslenska þjóðin varð til á fyrsta þjóðfundi sínum? Að daginn fyrir þann þjóðfund var landið byggt landnemum, og afkomendum landnema, frá sex til átta löndum? Þetta fólk leit á sig sem Íslendinga en ekki meðlimi þjóðar, því þjóðin var ekki til sem slík. Á þessum þjóðfundi var fyrsta Alþingi stofnað, en vissir þú að nafn þess hafði merkingu? Er menntakerfið að segja þér hvaða merkingu framangreint hefur?

Nafnið Alþingi táknar bókstaflega „Allsherjarþing héraðsþinga.“ Landinu var stjórnað beinlínis frá 39 héraðsþingum sem dreifð voru um allt land. Þau voru þannig skilgreind í huga fólks að þó þú byggir í einu héraði gastu sótt þing í öðru. Stjórnkerfi eða lagagrunnur fyrstu Íslendinga var því huglægur og mjög skapandi.

Alþingi dagsins í dag er eins óskylt hinu forna Allsherjarþingi eins og hamborgari er óskyldur piparsteik. Annað þeirra er fulltruaþing að erlendri fyrirmynd fornra konungsríkja, hitt er þjóðþing frjálsra manna og kvenna sem vildu ráða sér sjálf og iðka beint lýðræði.

Þetta er kjarni Þjóðveldis: Við ráðum sjálf, við notum héraðsþing um allt land og þingin eru eins sjálfstæð og sterk og hægt er. Alþingi er aðeins sameiginlegur farvegur þess sem sameinar héraðsþing í þjóðríki.

Þegar þessi hugsjón raunlýðræðis rís að nýju mun hún vekja heimsathygli og dreifa hratt úr sér um heiminn. Auk þess sem Íslenska þjóðin verður í kjölfarið fremst meðal friðarbera og miðstöð menntunar og fræðslu. Þegar það gerist mun streyma hingað fjármagn í skapandi hugsun, vísindi og ýmislegt tengt hugvísindum og viðskiptum.

Raforka og sjálfbærni varðandi fæðulindir og orku mun þá nýtast vel, því fjöldi ferðamanna og aðfluttra verður slíkur að Schengen verður fleygt rétt í tæka tíð áður en flóðbylgjan brestur á. Nokkuð sem Álbarónar vilja helst ekki að við áttum okkur á. Þegar þetta gerist munu ríkjasamböndin biðja okkur um samninga og við hafa lært að fela trompin.

Á hverju héraðsþingi á hver einasti ríkisborgari erindi, rödd og atkvæði. Hann bíður því ekki eftir því að kjörinn fulltrúi efni ódýr loforð, heldur er hann reiðubúinn til að axla ábyrgð á eigin valdi.

Hann veit að á sumarsólstöðum árið 930 varð til tvennt: Fyrsta raunlýðveldi þjóðar í mannkynssögunni, og að þann dag fæddist Íslensk þjóð. Ef Lýðveldið hefði hug á að efna samning sinn við þjóðina um lýðræði hefði það annan þjóðhátíðardag, sem betur fer, því rétti dagurinn er laus handa Þjóðveldinu.

Þjóðveldið ríkti í tæpar fjórar aldir en Lýðveldið hefur ekki náð öld. Þeir sem þekkja Íslandssögu og elska Íslandsmenningu sakna þeirra hugmynda sem hið eldra byggðist á. Þegar Þjóðveldið rís aftur erum við því ekki að móta nýja hugmynd, heldur endurmóta aðra hugmynd sem var þúsund árum á undan samtíð sinni, og á undan okkar samtíð.

 

 

 

This entry was posted in Þjóðveldi and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.