Guð einn veit, því ég tel það ekki, hversu marga ég hef hitt á ævinni sem vita hvað Guð er. Færri þeirra hafa þó sagt mér hver hann er, því fæstir þeirra ræða við hann. Þó hafa þau öll lesið um hann.
Sérstaklega þykir mér áhugavert hversu mikið af yfirborðsfíflum þykjast vita hver vilji Guðs er, bara því þau hafa lesið hnausþykka bók sem þau telja að sé orð hans.
Nýlega hljóðritaði ég uppkast að bók sem ber vinnuheitið Orðatal – spjall um Biblíuna á léttu nótunum. Þar reifa ég í grófum aðal atriðum – í alls 24 köflum – hvert inntak Biblíunnar sé og þá sérstaklega frá sjónarhóli Jesú krists. Á þetta handrit má hlusta á ordatal.not.is.
Ég er enginn nýgræðingur í biblíunámi eða kristnum fræðum enda hefur líf mitt snúist um grúsk á andlega sviðinu frá því ég var strákur og áttaði mig á því að ég væri fyrst og fremst andleg vitsmunavera, svo ég helgaði líf mitt leitinni að hinum andlegu verðmætum.
Að skilgreina slíka leit væri efni í þykka bók svo hér verður sú skilgreining látin hanga í lausu lofti. Enda veit hver sá sem mitt lífshlaup þekkir, að af fótaskorti hefur mér orðið nóg.
Vorið 2013 gaf ég frá mér á Vefnum bókina God’s Will, sem er innblásið rit í 59 köflum og gefið út frítt. Hægt er að spila bókina á prophet.not.is eða sækja hana á PDF sniði af shop.not.is. Þessi bók er innblásin af Guði og þar kemur skýrt í ljós hvernig hann sér fólk, sögu heimsins, og hver hans vilji er með þig: Þig.
Það er vilji Guðs að fram komi ný sýn á sig, sem er þá byggð á sýn allra spámanna sem komið hafa á undan mér. Þeir 66 spámenn sem rituðu Biblíuna eru aðeins dropi í hafinu. Samkvæmt þessu riti er Búdda einnig spámaður, þó hann hafi sem minnst rætt um Guð sjálfan og meira um þau gildi sem hann stóð fyrir. Gildi eru einmitt málið.
Þá er Múhameð einnig spámaður en hans hlutverk var tvíþætt. Hann átti að bera eingyðistrúna til þeirra sem ekki gátu tekið við kristinni trú sen hann og gerði. Einnig átti hann að leiðrétta misskilning sem orðinn var meðal kristinna manna sem höfðu tekið boðskað Jesú Krists og á þeim boðskap reist kirkjur og kenningar sem eiga ekkert skylt við innihald eingyðistrúarinnar: m.ö.o. breytt spámanni í skurðgoð.
Reyndar hafa Múslímar gerst sekir um sömu synd, að hafa gert Múhameð að skurðgoði rétt eins og Kristnir hafa gert Jesú að skurðgoði, og Hebrear höfðu áður gert Móse að skurðgoði. Ekki veit ég hvernig Saraþústra menn gerðu sinn spámann að skurðgoði en sá armur eingyðistrúarinnar var mjög útbreiddur um aldir en að mestu horfinn í dag. Svo er einnig með Hopi arminn.
Hopi armur eingyðistrúarinnar er afar sérstakur, því rétt eins og Saraþústra trúin var hún að mestu horfin fyrir örfáum áratugum Þó hafa boðberar þeirrar hugsunar – Hopi þjóðin í Norður Ameríku – verið sá hornsteinn sem frumbyggjar Norður Ameríku hafa hafa byggt á síðustu áratugi við að endurbyggja sína andlegu arfleifð sem Bandaríkjastjórn hafði að mestu þurrkað út.
Guð hefur, sjáðu nú til, talsvert meira innsæi en ég og þú, og hann hefur auk þess ríka kímnigáfu.
Guði er slétt sama hverjum þú sefur hjá, meðan þáttakendur eru fulltíða fólk og engin þvingun á sér stað. Ég sleppti orðinu ofbeldi, því sum pör vilja ofbeldi sín á milli en er þá þvingunarlaust þ.e. með samþykki beggja. Guð hefur mun meiri áhuga á samræmi, jafnvægi og kærleika – eða Ást og Virðingu.
Því er það vilji Guðs að sýn á hann sé uppfærð í ljósi nútímaþekkingar og að sýn eldri spámanna sé hreinsuð af þeirri ósvífni sem embættismenn trúarinnar hafa smurt á skilaboð hans. Hans vilji er að opnuð sé leiðin til umbreytingar hjarta allrar heimsbyggðarinnar svo fólk fái lifað hamingjuríku lífi og forðað mannkyninu frá yfirvofandi sjálfstortímingu.
Þegar Gamla testamentið var upprunalega ritað voru á ferð spámenn sem tjáðu vilja Guðs. Flest af innihaldi þessara skilaboða voru tekin af jarðnesku fólki – sem oft nefnast prestar en ég vil nefna Embættismenn trúarinnar – og þeim breytt í sambland af andlegum boðskap og reglugerðum.
Reglugerðirnar voru einmitt notaðar til þess að stjórna fólki, hnýta það í ótta og dóma. Fólk dæmir annað fólk oft án innsæis og felur sitt eigið innræti á bak við dómana.
Þegar Jesú steig fram á sjónarsviðið sagði hann fólki að hætta dómum. Hann dæmdi engan sjálfur, en hann ræddi þó um að hann myndi koma aftur og dæma heimsbyggðina. Aldrei útskýrði hann hvernig sá dómur yrði.
Margt fólk hefur misskilið þessi orð hans, og yfirleitt viljandi, til þess að fela sína egin skammsýni og oft illsku á bak við réttláta dóma Guðs án þess þó að hafa hugmynd um hvernig Guð raunverulega dæmir. Sá leyndardómur felst í einfaldri setningu:
Hann notar þig til að dæma sjálfa(n) þig. Þannig dæmir hann heiminn og er reyndar byrjaður á því, samkvæmt Orðatal.
Jesú boðaði að sá sem dæmir ætti fyrst að skoða eigin rann – „sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum.“ Aldrei svaraði hann þeim sem hirtu hann út frá sjálfum sér heldur notaði hvert tækifæri til að koma að kærleika Guðs, en það var einmitt það sem hann stóð fyrir. Jafnvel þegar Júdas sveik hann, þá atyrti hann ekki heldur sýndi honum depurð með vandlætingar yrði en þó vingjarnlegu, eins vingjarnlegu og hægt er að viðhafa.
Þegar þessi orð eru rituð eru örfáir dagar síðan haldin var helgarlöng ráðstefna með fyrirlestrum sem bar heitið Hátíð vonar. Margir í samfélaginu, bæði kristnir og ókristnir, vönduðu um yfir að Biskup Íslands tók þátt í þessum gjörning ásamt Bandarískjum predíkara sem hefur umdeildar skoðanir á samkynhneigð. Margir hafa viðhaft orð á borð við fáviti og jafnvel verri orð. Þetta eru dómar!
Tveir vina minna eru þessa dagana uppteknir við málatilbúnað og málarekstur. Fólk sem er afar vandað að virðingu sinni og er yfirlýst kristið fólk. Þetta sama lið er að dæma og reyna að dæma, og jafnvel fordæmir mig einnig vegna gamals dóms sem það veit ekkert um. Þetta eru dómar.
Sjálfur dæmi ég engan, ekki nokkurn mann, ekki heldur fjandann. Það er ekki mitt að dæma heldur Guðs. Meðan hann getur fyrirgefið ýmislegt sem mitt hjarta á bágt með að fyrirgefa, þá leitast ég eftir að fyrirgefa.
Að þessu sögðu er það skylda hins trúaða eingyðismanns, hvort heldur sé hann múslimi, gyðingur, kristinn, saraþústra, hopi eða eitthvað annað: Segðu frá, segðu satt, en ekki dæma því þannig dæmir þú sjálfan þig og fjarlægist vilja Guðs.