Sársaukaflótti

Við lifum í neyslusamfélagi sem elur okkur á hugsanabjögun. Við eigum að leysa öll vandamál, greina þau og afgreiða. Útskýring sé til við öllu og allt megi flokka niður. Fjölmiðlar eru gott dæmi um þetta: Allt er metið í tölum.

Við erum hætt að rýna í eigin hegðun og alin á að það sé tabú. Enginn má gagnrýna annan fyrir neitt og stutt í móðgunargirni hjá flestum. Rétt svo má gefa í skyn við einhvern að „eitthvað megi skoða nánar“ – en að segja viðkomandi að hann hagi sér eins og fávitier bannað.

Sársauki er algengur og þar kemur hugsanabjögunin skýrt fram. Við höfum til að mynda byggt upp menntakerfi sem gerir ráð fyrir vissu normi hjá öllum. Þeir sem eru utan við normið á einhvern hátt fá greiningu og ef lyfjastýring dugar ekki þarf sérúrræði. Orðið „úrræði“ er jafnvel orðið metafýsískt dulhyggju fyrirbæri.

Rétt eins og Guð er orðinn eign prestanna og fyrst þeir hafa brugðist, þá hefur Guð brugðist.

Heilu hjarðirnar af foreldrum eru komin inn í þann darraðardans að fela eigin fákunnáttu í barnauppeldi á bak við greiningar og gagnrýni á úrræði sem duga skammt. Engan má gagnrýna foreldrið hvernig það elur upp næstu kynslóð, því þá er troðið á hans eða hennar heilaga rétti.

Það er eins með fólk sem leitar í sjálfshjálparhópa, tólf spora samtök, sálfræði og geðlæknisúrræði. Fleiri úrræðategundir mætti nefna. Dugar að fullyrða að átta af hverjum tíu einstaklingum, fullorðnum, sem leitar sér aðstoðar eða leiða til að lækna eða hverfa frá sársauka, eru að leita sams konar leiða og fyrr er nefnt.

Nú er ekkert að því að leita einfaldra leiða til að heila sig frá sársauka. Það er jú sama hvaðan gott kemur.

Að flýja innri sársauka er þó eins og að flýja sjálfan sig. Þegar ég nota þetta orð á ég við þegar við hikum við þann sársauka að breyta egóinu og leggja það til hliðar. Flestir sem leita leiða til að lækna sig frá sársauka þora ekki, eða vilja ekki af þvermóðsku að leggja egóið sitt til hliðar.

„Skoðanir mínar eru réttar, viðhorf mín eru rétt, persóna mín er rétt“! Hugsanir af þessu tagi eru krabbamein hugans í nútímanum.

Okkur er uppálagt að sársauki sé óþægindi, við séum fín eins og við erum, og sársauka megi lækna með skyndilausnum. Að við sjálf séum gull og gersemi, óbreytanleg og hugsanir okkar eða skoðanir heilagar – svo fremi þær skaði engan.

Ferli hins jákvæða vilja virkar ekki í þessari hugsun. Þú getur eingöngu tileinkað þér Ferlið ef þú getur séð hvernig hugsanir þínar um sjálfa(n) þig eru þér skaðlegar. Hugsanir þínar og skoðanir eru jú bara skoðanir. Skoðanir smíða egó, en þú ert á bak við egóið. Sjálfið þitt er eilíft. Kletturinn sem egóið hvílir á og það er einmitt þetta sem Jesú gaf í skyn þegar hann varaði okkur við að byggja húsið á sandi.

Margir sem leita sálarhjálpar og sjálfsþroska eru á flótta frá sársauka, frá skilaboðum sársaukans. Sem er eins og að fara í fjallgöngu og halda að engar verði harðsperrur. Auðvitað mátt kaupa þér jeppa og keyra á fjallið, en það styrkir ekki skrokkinn þinn.

Ferlið kennir nálgun sem er mun skjótvirkari og árangursríkari, ekki óskyld fornvisku frumbyggja Ástralíu: Þú notar drauma þína og sársauka til að finna hvað er undir eigin yfirborði.

Um leið og þú veist hvað er í þínum sálardjúpum og samþykkir það, í stað þess að lækna eða fjarlægja, þá umbreytist það. Þú umbreytist með. Þannig breytist veikleiki þinn í styrk.

Sá sem þetta skrifar var í sömu sporum. Egóið hans var honum heilagt, skoðanir hans voru honum heilagar og trúin hans hafin yfir allan vafa. Þegar hann þorði að fleygja þessu á eldinn, fann hann hvað var á bak við, og fann kjarnorkustyrk í sjálfum sér. Honum er ekkert ómögulegt í dag og hann vill ekki fá gamla egóið til baka.

 

 

 

This entry was posted in Ferli hins jákvæða vilja and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.