Kvíði

Brot úr bókinni „Ferli jákvæða viljans“ um úrræði við kvíða:

Sá sem missir allt verður hræddur. Að missa heimili sitt, eða fjölskyldu sína eða starfsframa sinn, eða félagslíf sitt. Að verða fyrir ástarsorg, að missa aleiguna og standa eftir einn. Að verða fyrir einelti í starfi og missa starfið vegna afstöðu fólks til fortíðar sem þú hefur unnið úr og verða fyrir aðkasti víðar af sömu sökum. Vera án félagslífs, án fjölskyldu, án eigna, án starfs, og eiga ekkert eftir nema vonina.

Vonina um að hlutir skáni, vonina um að trúin á eitthvað gott – gæti verið Guð eða maður sjálfur – sé ekki alveg farin. Vonina um að það sé þess virði að lifa annan dag, að eiga bara þessa von eftir. Að hafa heilsuna, eiga hundinn sinn, en hafa ekkert meir. Fá ennþá stað til að sofa á, en hafa ekki einu sinni bíl til að fara í innkaupaferð á, sækja um tugi starfa og fá ekki einu sinni viðtal. Hafa auk þess upplifað – að vísu verðskuldaða – gistingu á sérhóteli hins opinbera.

Allt þetta gekk yfir mig á réttum tveimur árum. Talað er um í sálfræði og félagsráðgjöf að bara eitt af þessum áföllum sé nóg til að fólk upplifi djúpa streitu og kvíða. Ég fékk allan pakkann.

Það komu dagar sem ég var að bugast. Það komu dagar sem ég var kominn að endimörkunum og sá endalokin í hyllingum en vildi ekki skilja hundana mína eftir í reiðuleysi. Ég veit vel hvað kvíði er.

Þegar ég loksins fékk lítið tækifæri til að vinna lítið verkefni og afla mér smá bjargráða var ég búinn að missa allt og var orðinn fullur af kvíða. Svo margar árásir höfðu verið gerðar á mína tilveru og mína persónu, að ég var jafnvel hættur að sjá þær árásir sem ég hafði hrundið. Þær virtust svo léttvægar.

Kvíðatilfinningin þegar ég fór að sinna þessu litla verkefni. Að skilja hundana mína eftir heima í búrunum sínum, nágranni minn sem er heimavinnandi fylgdist með bæði hávaða í íbúðinni og umferð í götunni: Ég vissi að ef eitthvað kæmi fyrir myndi ég vera látinn vita. En ofboðslegur kvíðinn í hvert sinn sem ég ók að heiman – hvaða árás yrði gerð á heimili mitt meðan ég væri að heiman?

Það hefur verið grýtt múrsteinum bæði í húsið og bílinn. Það er engin ímyndun að heimili mitt gæti orðið fyrir árás.

Ég er manneskja sem elskar að eiga og þjálfa hunda. Ég vil ekki fara í golf. Ég stunda útivist með hundum og þeir eru þjálfaðir til vinnu. Tveir þeirra eru meistarar í leit að týndu fólki og aðrir tveir góðir í leit að földum efnum. Þeir eru það eina sem er eftir í mínu lífi sem er einhvers virði. Jafnvel fjölskyldan horfin.

Meðan ég skryppi að heiman væru þau berskjölduð fyrir grimmd samfélagsins, og það veit sá sem allt veit að ég hef kynnst því. Ég hafði gleymt að heimili þitt er heilagt í augum löggjafans. Ég var bara búinn að kynnast því oft að maður á sakaskrá hefur ekki sama rétt og aðrir – ég var hættur að treysta og hafði ástæðu til.

Ég var hættur að sjá öryggið í Íslensku samfélagi. Gott og virðingarvirt fólk búið að beita mig meðölum þessa, fólk sem ekki gerir flugu mein ef á það er horft úr fjarlægð, fékk útrás fyrir einhverjar hvatir sínar á mér og þótti það réttlátt.

Kvíðinn og nagandi tilfinning ríkti í mér hvern dag þegar ég þurfti að bregða mér að heiman.

Ég hugsaði með mér „það er einhver lexía hér“ eins og Ferlið hefur kennt mér þá er lexía í öllu. Allt er tækifæri. Ég fór yfir alla þætti í huganum. Ég var búinn að setja dýrin í öryggisbúr, læsa hurðinni, setja lokur á glugga, setja upp öryggismyndavél sem tekur upp hreyfingar innandyra og vistar á tölvu.

Ég hafði gert allt sem í mínu valdi stóð. Ef eitthvað kemur fyrir á meðan ég er að heiman, þá er það eitthvað sem gerist og ég get ekkert í því gert. Svo segir í æðruleysis bæninni: „Guð viltu hjálpa mér að breyta því sem ég get breytt, styrk til að sætta mig við það sem ég get ekki breytt, og vit til að greina þar á milli.“

Ég sagði því við sjálfan mig „hvað myndi gerast ef eitthvað kæmi fyrir dýrin mín eða þau frá mér tekin eins og flest annað?“

Þar sem ég var að keyra að heiman og hugleiða þetta kom svarið um hæl. „Ég myndi byrja upp á nýtt, byrja aftur með hunda og halda áfram að þjálfa þá. Ég veit hver ég er, hvaðan ég kem og hvert ég stefni. Enginn getur tekið það frá mér.“

Með þessar hugsanir að leiðarljósi hvarf kvíðinn svo ég gat farið að heiman og glímt við það sem gera þurfti. Ég gat þannig sett traust mitt á Guð. Það eru vissulega til ill – eða kærleikslaus – öfl í veröldinni og það veit Guð að þau hafa sótt að mér.

Kannski átti ég það allt saman skilið, kannski bara brot af því, kannski er bara sótt að fólki sem trúir á algóðan Guð. Þau halda kannski áfram að sækja að mér, kannski ekki. Þau hafa ekki rúið mig heilsu né starfskrafti. Þau hafa ekki náð tökum á viðhorfum mínum og getu minni til að velja hugsanir mínar.

Umfram allt: Þau hafa ekki skaðað von mína, trú, getu eða vilja til að taka ákvörðun um viðhorf mín afstöðu og hugsanir. Ég ákvað þarna að taka rétta afstöðu og nota hana sem tæki til að vinna bug á kvíða. Auðvitað kemur kvíði reglulega upp en í hvert sinn sem hann kemur, og jafnvel þó hann dvelji við dögum saman, þá snýst ég til varnar aftur. Í hvert sinn verður afstaða mín öflugri.  Fyrir fáeinum árum fékk ég heiftarleg kvíðaköst daglega, árum saman. Í dag er allur kvíði horfinn.

 

 

This entry was posted in Ferli hins jákvæða vilja and tagged , , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.