Sorgarferli getur verið Sorgargjöf

Að syrgja er eitt af því erfiðasta sem við göngum í gegnum. Hvort heldur sé látinn ástvinur, horfið ástarsamband, hlutir sem við áttum og „elskuðum að eiga“ – eða hlutir af okkur sjálfum. Við getum misst heilsu, líkamshluta, eða stöður í samfélagi.

Hægt er að syrgja allt sem átt hefur og misst hefur. Jafnvel má ganga svo langt að syrgja skoðanir og tilfinningar sem við höfum kynnst.

Ekki nóg með það heldur þekkjum við þetta öll. Því hver einasta mannvera sem lifir og lifað hefur, þarf að læra að syrgja, rétt eins og að læra að elska.

Gott er að hafa í huga að sorgin er tvíeggjað sverð. Hún getur keyrt þig niður í algjöra hugar og hjartakvöl og haldið þér þar. Hún er svo máttug að hún getur haldið þér þar í mörg ár ef hún vill – en hún vill það ekki nema þú viljir það.

Hún getur einnig blásið þér byr undir vængi, veljir þú þann kost. Sá sem syrgir á því aðeins tvo valkosti.

Annar þeirra er sá að eyða miklum tíma í að hugsa um þann – eða það – sem sorgin snýst um. Hugsa um horfnar stundir eða hugsa um hvernig lífið er eftir að viðkomandi er á brott úr þinni tilveru. Þannig er horft á sársaukann sjálfan, sorgina sjálfa, svo hún staðnar og úldnar.

Hinn valkosturinn er að hugsa um það góða sem þið áttuð og hvernig það auðgaði líf þitt. Þú getur hugsað „ég er í sorg“ og viðurkennt þar með saknaðar og sársauka tilfinninguna. Nú virðist þetta tvennt vera sami hluturinn en svo er ekki.

Fyrrgreinda viðhorfið mun binda þig lengur í sorginni og þú munt dvelja lengur í eyðilandi söknuðar. Hin leiðin viðurkennir missinn, viðurkennir sorgina, og um leið viðurkennir heilunarferli sorgar. Þannig býrð þú sál þína fyrir umbreytingu og að taka við þeirri gjöf sem sorgin er.

Sorg er ein heljarstór viðurkenning á því að eitthvað hafi skipt sál þína máli.

Um leið er hún tengsli eða kúpling sem gefur þér rými til að skipta um gír eða fasa fyrir framtíðina. Hún minnir þig á að þú munt sjálfur einn daginn hverfa úr veröldinni og aðrir munu syrgja þig. Með þessu muntu læra að varðveita það góða sem þú áttir – góðu stundirnar og hvernig þær auðguðu líf þitt.

Þetta er vissulega hárfínn munur en þegar þú nærð tökum á honum er hann geysisterkur kraftur umbreytingar. Því með þessari nálgun er sorginni leyft að skilja eftir það góða úr minningunum, gera upp það sem þurfti að gera upp af hinum slæmu, og skilja eftir meðvitund um varanleika.

Varanleiki og styrkur þeirrar sálar sem átti eitthvað gott og þegar það hvarf skildi eftir eitthvað gott – því góðar minningar styrkja. Þegar þessi umbreyting sorgar gerist, þá umbreytist þú og styrkist. Þú munt varðveita og rækta hið góða í þínu fari og laða að þér það sem gott er.

 

Í hljóðbók minni „Jákvæða ferlið“ á sorg sinn kafla og einnig í hljóðbók minni „The Process of Positive Willpower.“ Í báðum bókum er gengið út frá sams konar nálgun og drepið er á hér.

 

 

This entry was posted in Ferli hins jákvæða vilja and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.