Krabbamein hugans

Eftirfarandi er úr „Veikleiki verður að styrk“ úr bókinni „Ferli jákvæða viljans“

Ég hef fundið í fáeina daga að ég hef verið daufur í dálkinn. Þó er daufur í dálkinnkannski ekki réttnefni. Segjum frekar orkulítill og magnlaus. Meiri áhugi á að spila leiki frekar en starfa og fundið fyrir kvíða og hjartslætti. Ekki beinlínis verið þunglyndur en haft minni trú á sjálfan mig og verið vondaufur. Ekki haft sterka trú á tilveruna og að neikvætt tekjuflæði mitt muni lagast.

Ég hef verið fullur vantrúar á að hagur minn lagist, fullur vantrúar á sjálfan mig til dæmis varðandi vaxtarlag mitt sem hefur verið stórt atriði síðan ég var tíu ára gamall. Ég hef jafnvel ekki tekið eftir að trú mín á Lífskraftinn – það besta í sjálfum mér – er að virka og mér líður í raun betur með sjálfan mig en nokkru sinni fyrr.

Þessi innri neikvæðni gerir mér erfitt fyrir að sjá hvernig vanlíðan mín hefur minnkað. Styrkur minn hefur aukist og vellíðan mín er meiri. Ég hef leyft kvíða og áhyggjum að flæða upp á yfirborðið. Líðan mín hefur fjarlægst Ferlið þó ég hafi verið orkumikill og duglegur að öðru leyti.

Því ég er með á hreinu hver ég er, hvaðan ég er að koma og hvert ég er að fara. Samt er eins og það sé innri lægð í lífi mínu. Ég leyfi áhrifavöldum að ná til mín og hafa áhrif. Til dæmis er aðili sem hefur neikvæð áhrif á tilfinningar mínar að leita til mín og það hefur dregið úr sjálfs-væntumþykju minni: Ég er næmur á að virkja slíkt.

Til að mynda þegar ég hef litið á hundana mína síðustu daga kemur upp hugsun á borð við „þú átt þau ekki skilið“. Þetta er hugsun sem ég vil ekki en hún læðist inn. Ég á þetta sameiginlegt með mörgum, að finnast ég ekki eiga gott skilið. Því kemst það að mér.

Þetta er arfur fortíðarinnar. Að ég hljóti að missa það sem ég elska mest. Ég eigi ekki gott skilið.

Ferlið snýst um að læra að skynja og nema svona hluti. Hugarþætti sem eru fíngerðir og rótgrónir svo maður finnur ekki þegar „krabbamein hugans“ læðist að manni. Ferlið dregur þessi mein upp á yfirborðið – svo hægt sé að heila þau.

Hópvinnan í Ferlinu og einnig eftirfylgni á að hjálpa fólki að draga svona mein upp á yfirborðið til dæmis með því að segja öðrum frá þeim. Maður sér ekki sjálfan sig og hvernig maður er mótaður af áhrifavöldum, en ferlis-hópurinn sér það og getur bent manni rétta leið. Oft er nóg að maður fái spegili til að sjá sjálfan sig.

Stundum hjálpar dagbók manni að fá yfirsýn og leiðbeinandi getur hjálpað manni að fá einfalda aðferð til þess að laga hugarmein. Einfalda aðferð sem virkar.

Ég var úti áðan og fékk svona fókal punkt. Ég hugsaði „ég mun aldrei finna tekjurnar mínar eða konuna mína, á ekki skilið hundana mína.“ Svo kom upp önnur hugsun „treystu Ferlinu fyrir þessu. Treystu bæninni fyrir þessu. Treystu Lífskraftinum fyrir fleiru en bara megrun eða einu í einu. Hvað veist þú hvað býr í framtíðinni? Lifðu fyrir daginn í dag.“

Skyndilega eins og hendi væri veifað sá ég sjálfan mig, sá hvað hafði gerst, og náði að snúa út úr myrkrinu. Ég skynjaði að hugsunin „ég á ekkert gott skilið“ er krabbamein hugans. Ég sá að þessi hugsun hafði legið í leyni undir öðrum hugsunum allt mitt líf, og dregið fram slík örlög. Einmitt í Ferlinu hafði ég svæft aðra neikvæðni svo þessi kom í ljós. „Auðvitað á ég gott skilið“ hugsa ég nú í hvert sinn sem þessi gamla birtist – við eigum það öll.

 

 

This entry was posted in Ferli hins jákvæða vilja and tagged , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.