Að kynnast sjálfum sér

Fyrst þegar ég heyrði þetta sagt – þú þarft að kynnast sjálfum þér – fannst mér það asnalegt. Hreinlega fáránlegt. Því ég þekki sjálfan mig.

Ég veit hvernig ég vil hafa morgunkaffið mitt, hvað mér finnst gott í matinn, hvernig sjónvarpsefni ég horfi á og hvaða skoðanir ég hef. Hananú.

Ég hlustaði þó á manninn og hann útskýrði fyrir mér að þú getur ekki þekkt aðra fyrr en þú þekkir sjálfan þig. Hins vegar láðist honum að rökstyðja nánar hvers vegna ég ætti að kynnast sjálfum mér, né hvaða aðferð ég ætti að beita til þess.

Þetta var löngu áður en ég kynntist Ferli hins jákvæða vilja og löngu áður en ég áttaði mig á eðli þess.  Í dag veit ég hvers vegna ég þarf að kynnast sjálfum mér og hvað ég fæ við það. Ég veit einnig hvernig ég fer að því.

Þú kynnist sjálfum þér til þess að kynnast öðrum. Því þegar þú þekkir hliðar sjálfs þín – svo sem Nr 1. eða Nr 2. eins og Jung nefndi þá, eða góða og vonda tvíburanum eins og ég nefni þá – áttar þú þig á þegar fólk hegðar sér skringilega hvers vegna það gerir það.

Einnig þegar þú kynnist þeim hlutum sjálfs þín sem voru skildir eftir á mismunandi þroskastigum þíns eigin æviferils og ferð að vinna beinlínis með þá fleti lærist þér „að þykja vænt um sjálfan þig eins og þú varst þá og þykja vænt um þig eins og hann varð að þér“.

Þegar þú lærir að þykja vænt um sjálfan þig með þessum hætti lærist þér líka að setja öðrum mörk. Þessi mörk koma oft sjálfkrafa og móta bæði félagsvitund þína, og sjálfsvitund. Með þessum tveim ytri mörkum þínum mótast þú í auknum viljastyrk og jákvæðni – eða kærleika – gagnvart fólki og dýrum.

Mismunandi er hvaða leiðir fólk fetar að þessu marki. Sjálfur fór ég inn í kyrrð. Þannig nýttist mér það tækifæri að vera einmana og einhleypur – en ég sé allar takmarkanir nú orðið sem tækifæri – og lærði að fylgjast með hvernig fólk brást við mér og ég við því. Þetta er grunn aðferð í Ferlinu, að leita eigin kyrrðar og nýta hana til að breyta veikleika í styrk.

*

 

 

This entry was posted in Ferli hins jákvæða vilja and tagged , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.