Rafmagns kostnaður

Um svipað leiti og jakkalakkar orkuveitunnar hækkuðu hitann hækkaði rafmagnið. Maður spurði sjálfan sig hverrar þjóðar þessi kvikindi væru. Efnahagur landsins í molum, þeirra eigin skuldsetning fram úr hófi fáránleg, og ég ríkisborgarinn skyldi borga brúsann og stillt upp við vegg til þess.

Þar sem ég hafði þegar ákveðið að lækka eigin hitakostnað, með smá áreynslu og árvekni, þá var um aðeins eitt að ræða. Borgaraleg mótstaða!

En hvernig lækka ég rafmagsnreikninginn? Í huganum fór ég yfir allt sem eyðir rafmagni. Tölvur, Sjónvarp, Eldavél, Ísskápur, Rakvélin, Örbylgjan, Ljósaperur, Útiljós. Hitt og þetta smálegt.

Ég fór yfir hve margar tölvur voru notaðar – eða ofnotaðar – og vandi heimilið á að samnýta og jafnvel einnýta. Hið sama átti við um sjónvarp. Hver þarf mörg sjónvörp? Ég kann á bók, á bókasafnskort, og það er gaman að lesa. Mér er sama þó þægindi minnki ef vald mitt eykst yfir eigin lífi. Ég vil frekar láta samtímann bregðast við mér en að ég bregðist við ofríki hans.

Ég fór yfir hvar voru notaðar glóðarperur og hvar Evrópuvæddar sparperur. Þá las ég mér til á Google og reiknaði út hvernig ljósaperur eyða mestu.  Sumar perur eyða tveggja til fjögurra tíma notkun bara við að kveikt er á þeim, aðrar ekki. Ég yfirfór hvaða ljósaperur mætti ekki slökkva oft á kvöldin og hverjar ætti að slökkva oft.

Einnig fór ég yfir eldavélina. Þarf að setja fullan pott af vatni til að sjóða kartöflur? Til að mynda er nóg að sjóða grænmeti þannig að vatnsborðið sé sentimetrí frá botni og þegar suðan kemur upp er slökkt. Margt grænmeti er betra hálfstökkt. Þá má setja fyrst gulrætur sem þurfa mesta suðu – eða gufusuðu – og broccoli rétt í lokin, allt í sama pott. Þannig lærði ég að elda allt hráefni rétt. Það sem hraðar nær suðu eyðir minni straum og því hef ég ávallt tvo lítra af vatni í könnu á borðinu.

Þannig fór ég yfir allt og komst að því að stundum er hagkvæmara að nota örbylgju frekar en eldavél og öfugt. Einnig komst ég að því að hraðsöðuketill og kaffitrektin hennar ömmu var langódýrasta kaffitæknin, og besta kaffið.

Í upphafi var þetta hundleiðinlegt en það vandist. Rétt eins og með hitann sá ég brosandi jakkalakkann skrúfa reikninginn í botn í hvert sinn sem ég nennti ekki að vinna heimavinnuna. Ég ákvað að nenna og smám saman varð það vani.

Tæpum tveim árum síðar, fékk ég endurgreiðslu á rafmagni. Nýjasti mælaálestur sýndi 32,5% lækkun á rafmagnsnotkun!

Borgaraleg mótstaða virkar!

 

*

 

This entry was posted in Heimssýn and tagged , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.