Hitakostnaður

Fljótlega eftir hrun hækkaði hitinn. Í fjölmiðlum höfðu reglulega birst fréttir af skuldum hitaveitunnar – eða orkuveitunnar – og að erlendu lánin þyrfti að greiða. Ljóst var hver ætti að greiða! Ekki þeir sjálfir!

Svo kom að því að hitinn hækkaði, svo sem búast mátti við. Ekki ætluðu Jakkalakkar að axla ábyrgð. Ekki voru þeir að missa störfin sín, lækka í launum, eða á annan veg í hættu. Ég staldraði því við. Hitinn var að hækka um 20% til 30%!

Nú var ljóst að ég ætti ekki annars kost en að greiða fyrir hitann. Þó samkeppni eigi að ríkja á orkumarkaði þá virðist hún meira í orði kveðnu. Sú litla samkeppni sem í boði er felst í hver prentar hausinn á reikninginn en í upphæð er verðskrármunur í fáum aurum.

Eina ráðið sem ég hef er því „borgaraleg mótstaða“.

Í þessu tilviki fólst hún í eftirfarandi: Á hverjum morgni gekk ég á hvern ofn í húsinu og tempraði hitann. Þetta gerði ég einnig á kvöldin fyrir háttatíma. Daglega gætti ég þess að aldrei væri of hlýtt í húsinu. Þó var aldrei svo kalt að nota þyrfti lopapeysu en fyrir kom að nota þurfti lopasokka.

Þau fáu skipti sem nota þurfti lopasokka minnti ég sjálfan mig á vatnsgreiddan og kurteisan jakkalakka að senda mér hitareikning.

Þetta vandi ég mig á í rúmt ár. Smám saman vandist ég himinháum hitareikningnum en nú tveim árum síðar hefur hann lækkað um þrjátíu prósent. Auk þess fékk ég endurgreiðslu síðasta haust.

Mótstaða virkar.

 

*

 

This entry was posted in Heimssýn and tagged , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.