Sniðganga sem úrræði

Við þekkjum nöfn á borð við Gandhi. Krúttlegur lítill kall á lendaskýlu sem var Indverji. Flestir vita að hann er frægur, og sumir að hann var pólitískur eða andlegur leiðtogi.

Einhverjir hafa séð bíómyndina og vita þetta aðeins nákvæmar s.s. að hann var lögfræðimenntaður frá London. Enn færri muna eftir að hugmyndir hans og aðferðir – eða orðfæri – þjálfaði hann í Suður Afríku sem var fasistaríki innan Breska Heimsveldisins.

Hins vegar er mörgum óljóst hvað barátta hans snérist um, hvað hann stóð fyrir eða hvers vegna.

Kannski er það mjög eðlilegt að við gleymum líkum hlutum í okkar nútíma. Allt gerist svo hratt í okkar daglega lífi og hugmyndir æða á ofsahraða í gegnum hausinn á okkur. Fyrst er það vinnan, svo síminn, svo samskipti við fólk, síðan fréttir og auglýsingar og að lokum hvíld við skemmtiefni á skjánum.

Fæst okkar skilja hvers vegna við erum sífellt svo þreytt sem raun ber vitni.

Enda ekki margir sem átta sig á því að níutíu prósent allrar heilaorku fer í að vinna úr hljóð og mynd. Enn færri átta sig á að hljóð og mynd uppfærist fimmtíu sinnum á sekúndu þegar horft er á sjónvarp – auk þess að hver sekúnda selur þér nýja hugsun eða hugmynd.

Svo hvers vegna ættum við að spekúléra í Gandhi? Hvað þá Martin Lúther King yngri, sem var Bandarískur prestur og leiðtogi í baráttu blökkumanna í Bandaríkjunum fyrir auknum mannréttindum. Við erum ekki Indverjar að berjast við breta, né heldur svertingjar, hvað þá að við séum annars flokks borgarar. Við erum frjálsir Íslendingar – eða frjálsir vesturlandabúar.

Auðvitað var Gandhi góður gæi og séra King ekki síðri. En þeir eiga ekki erindi við okkur. Með orðinu okkur á ég við samvitund okkar nútíma. Okkar sameiginlega viðhorf og tískustrauma samtímans.

Báðir þessir menn stóðu fyrir nákvæmlega hið sama. Báðir sýndu með virkum hætti hvernig viðhorf sín og innri styrkur gæti sigrað stjórnkerfi sem sýnir fólki óvirðingu.

Í kjarnann heitir það „Borgaralegur mótþrói“. Virk andstaða við stjórnkerfið með því að neita um þáttöku. Með því að sniðganga með skapandi hugsun það valdkerfi sem kúgar þig. Umfram allt að nota andofbeldi. Að með virkri mótstöðu þá berstu ekki á móti því með krafti eða ofbeldi,heldur sigur viljans, sigur viljastyrks.

Að mínu mati standa Íslendingar nú frammi fyrir þessu vali. Annað hvort viti þeir hvað þeir standa fyrir og hafi í sér viljastyrk – eða hugarstyrk – til að sýna það í verki. Að öðrum kosti dæmi þeir sjálfa sig sem andlega geldinga og óverðuga þess lífsstíls sem þeir búa við.

*

 

This entry was posted in Heimssýn. Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.