Ábyrg smiðja vandaðs ástands

Af farvegi þess að gaumgæfa þegar hugmynd verður að hugtaki og að frumspekilegur trassaskapur er varasamur.

img-coll-0608Píanistinn Yuja Wang útskýrði eitt sinn í viðtali að hún hefði ánægju af að tjá tónverk eftir Rússneska tónsmiði (Composers) og bætti við að hún hefði ánægju af rökvissri og stærðfræðilegri nálgun þeirra. Síðan bætti hún við að Beethoven væri djúpur og heimspekilegur en lét ósagt hvað henni fyndist persónulega.

Í öðru viðtali örfáum árum síðar ræddi hún eingöngu um Beethoven og dvaldi þá við heimspeki hans og rómantík. Í báðum viðtölum mátti skilja að hún gæti lesið þessa menn í gegnum tónsmíðar þeirra eingöngu.

Annar píanisti, Daniel Barenboim, er þekktur fyrir aðdáun sína og túlkun á tónlist Beethoven. Áhugaverð er meistarasmiðja (Masterclass) hans sem til er á myndskeiði, þar sem hann vann með viðurkenndum píanistum í blæbrigðatjáningu píanósins og voru stef úr tónsmíðum Beethoven áberandi.

Við ritun þessara orða eru fiðlutónleikar (Violin Concertos) eftir Bach spilaðir í bakgrunni og þar á eftir mandólíntónleikar eftir Vivaldi. Engin sérstök ástæða er fyrir þessu vali en síðar stendur til að hlusta á upptöku af níundu symfóníu Beethoven undir stjórn Barenboim.

Fyrst þegar ég hlustaði á upptökur Valentinu Lisitsa, fann ég henni allt til foráttu. Ekkert sem hún gerði við píanóið var rétt eða í lagi. Í dag er Lisitsa ásamt Wang og Barenboim efst á óskalistanum þegar kemur að klassískum píanóleik. Hvernig Lisitsa endurmenntaði fagurkerann – án þess að vita af tilvist hans – er utan efnistaka.

Tónleikar Lisitsa í Austur Úkraínu um árið – sem nærri bannfærði hana á Vesturlöndum – fékk mann til að velta fyrir sér hlutum. Athugasemdir Wang um heimspeki í tónum er innbrend. Blæbrigði Barenboim, vinna hans með Palestínskum tónlistarmönnum og vel valin en hæversk orð hafa framkallað óræða (Irrational) dýpt.

Allt framangreint er frumspeki (Metaphysics) en óvíst hvort það sé augljóst. Hver er tónninn ef enginn heyrir hann? Ef enginn hefði eyru, væri þá hávaði, tónn, framsögð orð, eða aðvörunarhljóð eitthvað sem hefur merkingu fyrir heyrnarlausa lífveru? Að stakir tónar í tónverkum geti túlkað og tjáð hugtök og þau hafi ennfremur breidd og dýpt, er augljóst sumu fólki en öðrum merkingarlaust kvak.

Ást, vinátta, þolgæði, réttlæti, löggjöf, fyrirgefning, útsjónarsemi, vitundarlæg kjölfesta, ábyrgð og yfirsjón; Allt saman frumspekileg hugtök sem hafa vægi (Torque), fyrir okkur sem einstaklinga en ekki síst fyrir samfélagslega tilveru og umfram allt við samfélagsmótun.

Heimspekingurinn Friðrik Nítsje (Frederick Nietszche) ritaði í „Handan góðs og ills“ að þó vert væri að kunna skil Grískra harmleikja, þá væri undanskilin spurningin; Hvernig hljómaði tónlist þeirra og hvernig voru dansarnir? Einnig ritaði hann í sömu bók að þó gott væri að þekkja skil allrar heimspeki, hver væri þá tilfinningin?

Hver er tilfinning þess að þekkja skil á frumspekilega hugtakinu Þjóð? Heimspekingar Þráttarefnishyggju (Dialectical Materialism) gætu hér stokkið til og fullyrt að þjóð sé mælanlegt og efnislegt fyrirbæri (Phenomen). Enginn guðfræðingur myndi taka undir með slíku og fáir heimspekifræðingar.

Þráttarefnishyggja er grunnhugtak þeirrar sálfræði sem er uppnefnd Marxísmi og af sumum heimspeki. Marxistar fullyrða að Marx hafi byggt á heimspekingnum Georg Hegel en raunhyggja (Reason) þess síðarnefnda átti ekkert skylt með þeirri kvoðu sem Marx lét eftir sig og auðvelt er að sýna fram á það með rýni.

Heimspeki er sú nálgun mannsins sem hjúpar skilgreinda og ábyrga leit eftir þekkingu og skilningi. Innan heimspekinnar eru mörg huglæg (Subjective) hugtök og önnur hlutlæg (Objective). Eitt af því sem gerir frumspeki skemmtilega íþrótt er einmitt spurningin, hvað greinir á milli huglægs og hlutlægs mats á því sem í fljótu bragði kunna að virðast óefnisleg hugtök. Kant, Hegel, Heidegger og Nítsjé eyddu ævi sinni í að svara þessum spurningum, svo ég læt lesandanum eftir þá fimi að greiða úr.

Í kyrrð hugans og orðræðustormum fæðist hugmynd og er hún í fyrstu óræð. Þegar henni er lýst (Described) fæðist setning og stundum verður til nýtt orð. Þegar orðið er útskýrt (Explained) verður til hugtak og hið óræða fær merkingarflutning til fleiri huga en þess sem fyrst opnaði eyrun. Sá sem fleytir hugtakinu áfram og notar við leik og störf, gefur því birtingarform í veruleika.

Hugtakið Þjóð hefur ýmsar ræðar merkingar og ást hefur sex skilgreindar merkingar. Þetta er deild Hugtakagreininga. Vísindi er grein mælanlegra uppgötvana, Verkfræði er sú aðferð að gera uppgötvanir nothæfar og raunhæfar.

Húmanistavísindi hafa uppnefnt hugtakagreiningar sem heimspeki og gert að grein innan þess frumspekihugtaks sem nútímafólk kallar Vísindi. Heimspeki lítur hins vegar á vísindi sem deild innan sín og hugtakagreiningar aðra.

Íslenskur Ríkisráðsmaður lét út úr sér í sumar að hlutverk hans væri að vera „sameiningartákn þjóðar“ (sem er trúarlegt fyrirbæri) en ekki leiðtogi ábyrgrar ríkissmiðju (Statecraft). Hann lét ennfremur uppi vafasaman skilning á þeim lagabókstaf sem skilgreinir hlutverk hans þegar hann sagði að skilgreina þyfti hlutverk þetta upp á nýtt.

Þessi grein var rituð 7. júlí 2020 og samdægurs send Morgunblaðinu sem góðfúslega birti hana þann 8. júlí 2020.

 

This entry was posted in Heimssýn and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.