Málþóf og hringavitleysa

Um þessar mundir eru ýmsir þingmenn meirihlutans á hinu svonefnda Alþingi að kvarta yfir að fáeinir þingmenn minnihlutans skuli beita málþófi á þingi, og gefa í skyn að hrein mannvonska sé þar á ferð.

img-coll-0903Nokkrir Íslenskir þingmenn hafa beitt málþófi bæði á Ríkisþingi Lýgveldisins frá 1944 og undir forvera þess Konungsríkinu frá 1918 til 1944. Stundum hefur það komist í fjölmiðla og stundum í kjaftasögur.

Hér áður var stundum rætt um það í sveitinni heima að hinn og þessi þingmaðurinn hefði flutt ræðu í þrjá eða fimm tíma og einn varð landsfrægur á sinni tíð fyrir átta tíma langa ræðu.

Aldrei var sérstaklega rætt um innihald þessara ræða.

Það er með efni og innihald í þessu eins og öðru. Fáir meðal almennings átta sig á innihaldi þess sem almennt er nefnt „Orkupakki 3“ eða afleiðingum þess. Hinn almenni maður hefur lítinn áhuga á merkingarfræði og innihaldi.

Ósagt skal látið hvort almenningur hafi alltaf verið jafn yfirborðskenndur og hann virðist vera í nútímanum eða hvort meðalmennska sé nútímasjúkdómur sem þarfnist lækningar . Kannski erum við gáfaðri en forfeður okkar og formæður, fyrir tilstilli yfirgripsmeiri og ítarlegri menntunar en þau fengu. Kannski virkar það öfugt.

Eins og fólk veit sem fylgst hefur með skrifum mínum – og ræðuhöldum – í gegnum árin, vil ég helst fjalla eins abstract um hugsunarhátt og mér er framast unnt. Þegar ég tiltek sérstaka viðburði og fólk líðandi stundar, er það yfirleitt í þeim tilgangi einum að nýta stundar-athygli til að draga fram blæbrigði hugarástands og viðhorfa.

Stutt er síðan ég áttaði mig á því að þegar mér hefur mistekist að útskýra téð blæbrigði, þá er það ekki endilega vegna forheimsku lesandans eða þvermóðsku áheyrandans. Hugsanlegt er að mér mistakist oftar en ekki að útskýra sannleikann þannig að hann skiljist;

Eðlilega er honum þá hafnað, sérstaklega ef yfirborð og framsetning er með röngu sniði.

Því skulum við ekki rifja upp hér og nú hvaða þingmenn eða þingflokkar hafa beitt málþófi þá rúmu öld sem liðin er síðan Hreppstjórafélagið tók opinber völd á Íslandi og uppnefndu sem Sjálfstæði Þjóðarinnar.

Rétt er að ég útskýri stuttlega hugtakið Hreppstjórafélag. Í ræðum mínum á YouTube – sem nú hefur verið eytt – notaði ég þetta hugtak reglulega í tilteknu samhengi en útskýrði aðeins einu sinni og þá stuttlega hvað átt væri við.

Á elleftu öldinni þegar íbúar á Íslandi höfðu búið við Þjóðveldi í um það bil öld eða svo og höfðu á rúmum tveim öldum svo til fullnumið hér land, mynduðust þrenn valdahlutföll sem í dag eru svo til gleymd.

Stór hluti aðfluttra vildi ekki búa inn til landsins og vinna við landbúnaðarstörf heldur við sjávarsíðuna og lifa af fiskveiðum. Þeir sem vildu síðari kostinn, vildu helst flytja saltaðan fisk úr landi, eiga haffær skip og koma heim með varning í skiptum fyrir sjávarfang sem þeir ýmist seldu á Bretlandseyjum eða í Norður Evrópu.

Höfðingjar inn til landsins sáu þetta fólk sem ógn við völd sín og áhrif, svo sem vonlegt er. Þeir sáu ekki þann hag sem þjóðin til sveita hafði af að við sjávarsíðuna bjó fólk sem stundaði samskipti við erlendar þjóðir og færði hingað til lands ýmislegt móðins úr ranni auðugra útlendinga.

Ekki síst stóð þessum höfðingjum ógn af flæði óheftra hugmynda.

Fólk sem bjó í mis fámennum verum við sjávarsíðurnar, hafði oft talsverðan tíma til að þróa eigin hugmyndir og einnig kynntist það hugmyndum erlendis. Þessar hugmyndir gátu verið hættulegar því valdaformi sem var að myndast í landinu.

Á elleftu og tólftu öldinni mynduðust þannig þrennir hugmynda og áhrifa hópar í landinu: Hreppstjórafélagið sem vildi átthagabinda fólk og halda því undir ánauð skulda og forheimskunar. Fámenn fræðistétt sem vann að fræðum sagna, ætta og dulfræða. Frelsingjar sem um tíma uppnefndust Krýsar, sem lifðu í missmáum verum sem voru vísir að sjávarþorpum.

Um það leyti sem Ari Fróði uppritaði og hreinsaði sögu fyrstu fjögurra alda Íslandsbyggðar, hafði Hreppstjórafélagið náð yfirhöndinni, eytt út Krýsunum (sem stundum ritast sem Krísar) og fræðimenn höfðu nær allir gengið Kirkjunum á hönd.

Allar götur síðan, frá því Þjóðveldið gekk í ríkjasamband við Noreg 1264 og var síðan sameinað Danska Konungsríkinu 1662, hefur Hreppstjórafélagið verið svo til einrátt um alla stjórnhagi og viðskiptalíf á landinu. Fram til 1918 gat það þó talið fólki trú um að það væri erlendur aðall en ekki þeir sjálfir sem voru að blóðmjólka landið og gelda alla hugsun fólks.

Fræðafélagið er hins vegar gengið úr Kirkjunni og undir hatt Húmanista Akademíunnar. Krýsar eru því sem næst alveg horfnir.

Þegar byggðir mynduðust á ný við sjávarsíðuna, kunni Hreppstjórafélagið að hafa þær kyrfilega á valdi sínu og er svo enn. Ekki er langt síðan var afnumið að fólk þurfti sérstök leyfi til að skrá lögheimili í bæjum og þorpum. Enn styttra síðan sækja þurfti um leyfi til að eiga hund en við erum ein þjóða um slíka forheimskun.

Ég hef oft fjallað um muninn á Vísinda Akademíu annars vegar og Húmanista Akademíu hins vegar í YouTube ræðum. Í grunninn er munurin sá að annar hópurinn iðkar raunveruleg vísindi en hinn hópurinn notar málfar raunverulegra vísinda til að boða fólki og innprenta heimssýn Húmanismans.

Fyrrnefndi hóppurinn fær sjaldan stöður hjá hinu opinbera félagi eða viðurkenningu hjá stofnunum þess.

Þetta er ekki ósvipað því þegar Konstantín mikli, Rómarkeisari, gerði Míþrastrú að ríkisheimssýn og uppnefndi sem Kristni, svo að hinir raunverulegu Nasarenar urðu gleymskunni að bráð.

Á miðri tuttugustu öld fletti Jochum Eggertsson, undir ritnafninu Skuggi, ofan af hvernig Krísuvík var eitt þeirra smáþorpa sem lifðu frjálsu lífi, bæði efnahagslega og fræðalega, fyrstu aldir Íslandsbyggðar, en var að lokum eytt út af Hreppstjórum og Prelátum.

Leiðtogi Krýsa í Krísuvík var Kolskeggur Ýrberason – veginn í Kapelluhrauni 1056 – og síðar uppnefndur Kölski til að kenna hann við djöfulinn. Þetta síðarnefnda var klassísk aðferð Samfélagsverkfræðinnar (Social engineering) til að afmá mann og hugsun sem hafði fest rætur meðal margra.

Þegar ég las bækurnar Brísingamen Freyju og Skammir eftir Skugga, þar sem hann fór ítarlega í sögu Krýsanna í Krísuvík, hélt ég að hann væri að rita um eitthvað einstakt. Það tók mig tvo áratugi að læra nóg um sögu þjóðar minnar til að átta mig á að frásögn Skugga af Krýsum og Kölska, var táknræn fyrir eitthvað annað.

Þegar ég loksins sá muninn á hans umfjöllun og öðru sem mínar eigin rannsóknir leiddu í ljós, var aðeins tímaspursmál að tvær ímyndir rynnu saman og mynduðu þrívídd. Sagt er að heimspekingurinn Hegel hafi fundið upp aðferðina, Thesis, Antithesis, Synthesis. Hann notaði aldrei þessa aðferð, heldur Johann Fichte.

Hegel notaði Concrete, Abstract, Absolute.

Allt ber að sama brunni, maður lærir með tímanum að fara úr Flatneskju, gegnum Ímynd og enda í Þrívídd. Fjórvídd er þegar það er alltsaman sett á hreyfingu.
(Sjá: https://en.wikipedia.org/wiki/Thesis,_antithesis,_synthesis)

Hvernig í ósköpunum fór ég að því að tengja saman málþóf á okkar öld við eitthvað löngu gleymt úr fyrstu öldum Íslandsbyggðar? Jú, fyrst þurfti að útskýra hvað Hreppstjórafélagið er og hvar það hófst. Þeir sem lesið hafa samtímabókmenntir frá átjándu til tuttugustu aldar geta víða séð hvernig Hreppstjórafélagið hefur stýrt landinu allt til þessa dags.

Þetta er ekki skráð félag, heldur ákveðnar ættir – og óættaðir fylgisveinar – sem hafa sameinast um ákveðinn hugsunarhátt og varðveitt tiltekna heysátu. Ein besta aðferð félagsins er að fá kotbændur til að rífast innbyrðis um hvort lækurinn í hreppnum skuli brúaður við Seljahyl eða Malarbugðu.

Lítum nú vestur um haf til Bandaríkja Norður Ameríku og rifjum upp Daniel Ellsberg og fyrirbærið Pentagon Papers sem árið 1971 vörpuðu hulunni af stórfelldum svikum bandaríska ríkisins gegn eigin þjóð og hluta af stórfelldum stríðsglæpum þeirra í Víetnam.

Hvað eru margir sem vita að Senator Mike Gravel var litla þúfan sem vellti hlassinu?

Ellsberg hafði reynt mánuðum saman að fá þingið til að fjalla um efni þeirra skjala sem hann hafði undir höndum en þingmenn þverneituðu að fjalla um þann orkupakka, því allir vissu hvað var rétt og satt. Fréttablaðið New York Times fjallaði um hluta þessara skjala en bandaríska alríkið var að undirbúa lögbann á þá birtingu.

Til að gera langa sögu stutta notaði Mike Gravel aðstöðu sína sem senator til að lesa stóran hluta þessara skjala upp á opinberum fundi nefndar sem hann veitti forstöðu. Hann hafði áður reynt að flytja upplesturinn í þinginu en verið stöðvaður af rétthugsandi fólki þess tíma.

Með því að nýta rétt þingmanna til málþófs komst hann upp með að lesa skjölin upphátt og þar sem þingmenn njóta (ennþá) friðhelgi til máls og framsetningar, tókst honum að gera glæpina opinbera og festa þá sem hluta af málflutningi þingsins.

Áður hafði hann notað málþófstæknina til að vekja athygli fréttafólks og almennings á ýmsum málefnum þess tíma sem verið var að gera undir hatti rétthugsunar og klíkuskapar bandaríska hreppstjórafélagsins.

Þannig er málþóf ekki tækni til að tefja afgreiðslu einstakra mála heldur töng sem annars vegar nær að fanga athygli fólks á hvernig mörgum hagsmunamálum er smeygt fyrir horn annars vegar og að tryggja að í lögum eða umræðum um lög og ályktanir er skrásett orðræða sem sannar fyrir síðari tíma fólki hvað var í gangi.

Fáir lögvísir fræðimenn samtímans átta sig á að umræður um lög eru hluti af lögunum eftir að þau hafa verið samsett, þó lesendur laga eða dómarar fari sjaldan eftir því núorðið. Kannski of vel menntaðir.

Sem dæmi þá hef ég fylgst með hvernig Miðjuflokksmenn hafa beitt málþófi til að tryggja að í umræðum um Orkupakka 3 frá Evrópubandalaginu eru nú skrásettar útskýringar sem við almenningur höfum aðgang að um ókominn tíma. Á milli funda hafa þessir þingmenn birt myndir af heimavinnu og undirbúningi fyrir þann fagleg málflutning sem þeir hafa skrásett.

Þess vegna vitum við í dag af Krýsum og Herúlum; Því ekki allir í fræðasamfélögum liðinna alda voru auðkeyptir af Hreppstjórum og Prelátum. Þess vegna hafði Fjallkona Þjóðveldis afl til að minna á sig 2013, því hún átti meðal landsmanna eyru sem heyrðu enn óm fjallanna og nið aldanna.

Að lokum vil ég biðja rétthugsandi afsökunar á að ég skuli ögra þeim og tilfinningasama vil ég biðja velvirðingar á orðaóþekktinni.

 

 

This entry was posted in Þjóðveldi and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.