Lýgveldið ku hafa margar stofnanir

Þegar jafnlaunavottunin var sett í lög á Ríkisþingi Lýðveldisins – sem ég uppnefni Lýgveldið – þá rann það í gegn eins og kók sem er drukkið með röri.

img-coll-0868Sárafáir veittu því athygli að innan ríkisins – eins og Lýðveldið er títt uppnefnt – hafa verið til lög um laun og jafnrétti í marga áratugi. Hvergi sá ég spurt, hvað þá heldur rætt málefnalega, hvort hér væri vitleysa á ferðinni.

Sjálfur er ég orðinn vanur því, áratuginn sem liðinn er frá hinu svokallaða hruni, að efast um allt sem elítan markaðssetur og þá sérstaklega þegar „allir vita að það sé sjálfsagt mál.“

Einn þingmaður skrifaði um ferlið þegar Jafnlaunavottunin var lögfest og benti á að Ríkisþingið – sem sjálft uppnefnir sig Alþingi – setti í lög staðal sem það sjálft fékk ekki að lesa vegna Hugverkaréttinda.

Eitt af því sem ég persónulega hef gaman af, þegar rýnt er í menningu og markaðssetningu á hugktakafroðum og þvættingi, er að leita eftir svartholum í orðræðunni. Það er misauðvelt en svarthol má finna í öllu, hvort heldur fréttum og afþreyingu líðandi stundar eða lagasetningum og vísindalegum fræðum.

Svarthol hugans og hvernig þau fela sig í menningunni er skemmtilegt viðfangsefni eftir að maður áttar sig á að þau eru til. Sum eru gríðarstór og um þau eru nær allir alltaf sammála sem einhverskonar sannleika en önnur eru smærri en geta þó verið þúfur sem velta stóru hlassi.

Eitt slíkt svarthol er hugtakið Hugverkaréttindi. Auðsýnt er að allir eiga höfundarrétt að hugmyndum, frásögum eða uppfyndingum.

Hins vegar er ekki augljóst hvernig eigi að túlka hugtakið eða útfæra. Ekki er ætlunin að greina það hugtak frekar í þessari grein enda víðfemt og flókið – en ég hef oft fjallað um það á öðrum vettvangi – svo tökum það fyrir síðar.

Nýverið var samþykkt af Evrópusambandinu að ekki má vitna í opinberar fréttir án leyfis þeirra fréttamiðla sem vitnað er í, að viðlögðum sektum og jafnvel lokunum á miðlunarrásum (og miðlum) en ekki veit ég hvort hægt er að fangelsa fyrir slík brot.

Áðurnefnd grein þingmannsins fékk mig til að rýna nánar í málið. Tók ég eftir á næstu vikum að erlendis var reglulega minnst á jafnlaunavottun sem markmið (Agenda) á vegum vinstri hreyfinga víða um lönd. Tók ég eftir að Ísland er eina landið þar sem þetta rann í gegn eins auðveldlega og fyrr var drepið á.

Ennfremur tók ég eftir að ætlunin var að koma á fót stofnun til að fylgja eftir lögunum.

Stofnun þessi hefur vald til að ryðjast inn í hvaða fyrirtæki sem er, eftir nafnlausum ábendingum (ef ég skildi rétt) og rýna í öll gögn fyrirtækja. Síðan hefur stofnunin vald til að sekta og refsa án dóms og laga.

Persónuvernd fékk í fyrra umfangsmikla víkkun á sínum heimildum til að rýna á sama hátt í tölvugögn allra aðila, hvort heldur fyrirtækja sem einstaklinga, og beita samskonar stjórnvaldsheimildum. Báðar þessar stofnanir fá fjárúthlutun frá Lýgveldinu en ekki veit ég hvort þær fá prósentur af sekta-veiðunum.

Ekki veit ég hvort veiðarnar eru pólitískar.

Fyrir fáeinum dögum rak ég augun í frétt í Fréttablaðinu sem fjallaði um fræðslu innan atvinnulífsins um einelti og kynferðislega áreitni. Hvorutveggja eru efnisþættir sem vinstri hreyfingin á heimsvísu hefur mikinn áhuga á.

Sjálfur hef ég kynnst þessum þáttum hjá hinu opinbera, svosem ég hef gert skil í bók minni Varðmenn kvótans. Einnig kynntist ég í því ferli að réttindafélög starfsmanna hafa innanbúðar-mælistiku á því hvenær fólk á rétt á aðstoð þegar brotið er á þeim og hvenær ekki og geta verið snillingar í að fá lögfræðinga sína til að þvo hendur sínar.

Ekki dreg ég hér fram mína persónulegu reynslu til að barma mér sérstaklega heldur til að benda á að ég hef nokkra reynslu af ýmsum þeirra þátta sem fjallað er um hér.

Í téðri frétt kemur fram að „Jafnréttisstofa getur beitt dagsektum, allt að 50 þúsund krónum á dag, sinni fyrirtæki ekki þeirri skyldu að gera jafnréttisáætlun.“ Ekki veit ég hvort það sé eftir höfundarréttar vörðum staðli eða ekki.

Fyrir tveim árum síðan gerði ég mér lítið fyrir og athugaði hversu margar stofnanir eru starfræktar af Lýgveldinu. Á þeim tíma voru þær tæplega 140 og allar fengu þær hluta af skattfé okkar borgaranna en ósagt skal látið hvort þær geta aflað sér fé með sektum og annarri gjaldheimturöskun.

Í kjölfarið ætlaði ég að rannsaka nánar starfsemi hinna ýmsu stofnana og fjalla ítarlegar um og fjallaði ég um þetta opinberlega og ætlaði annar aðili sem einnig er þekktur fyrir menningarrýni að vinna verkið með mér.

Fáeinum vikum síðar var framsetningu slíkra upplýsinga breytt hjá ráðuneytum Ríkisins og illa kleyft að vinna verkið, þó ekki ógerlegt, en við létum verkið niður falla. Það er oft þannig með okkur menningarrýnana – sem oft nefnast Activistar á ensku – að við verðum að velja vandlega vindmyllurnar sem við ráðumst á.

Don Kíkóti hélt að vindmyllurnar væru risar og æddi að þeim í æðiskasti. Þannig byrjum við oft en svo lærum við með tímanum.

Sumir menningarrýnar láta hátt og ala á yfirborðskenndum tilfinningum meðan aðrir iðka heimanám og grams og grúsk og fara vandlega ofaní hluti. Ósagt skal látið hvort annað sé betra en hitt eða hvorutveggja sé nauðsynlegt. Hitt er hins vegar staðreynd að maður lærir með tímanum.

Almenningur er með öllu sinnulaus um hvernig Elítan mótar klíkuskapinn eða fylkir sér um mismunandi fjárplógsstarfsemi og blekkingar. Fólk veit ekki lengur hvað sé eðlileg gjaldheimta eða hvað sé óeðlileg. Í trúarritum er mælt með Tíund en í áratugi hefur fólk verið gert fráhverft því að lesa þessi rit.

Afleiðingin er að tíund er horfin og í staðinn eiga þjóðríkin meir en helming alls sem þú aflar og að þér látnum er tvískattað það sem þú hefur byggt upp. Augljóst er að arfur er eign sem áður hefur verið greiddur einhverskonar skattur af en ríkis-húmanisminn þekkir bara aðrán og orðhengilshátt.

Borgari nútímans er í nákvæmlega sömu stöðu og þræll í suðurríkjum bandaríkjanna var á sínum tíma.

Tæpur helmingur tekna hans fór í framfærslu, hitt tilheyrði eigandanum. Hann hafði einnig vegabréf til að geta ferðast rétt eins og nútímamaðurinn og mátti tjá sig um skoðanir sínar, svo fremi að þær væru á sömu línu og honum var innprentað í menntastofnun eigandans (sem þá var kirkjan).

Tökum eftir að kirkjuríki eða húmanistaríki eru fyrst og fremst valdastofnanir. Hvort annað ríkið byggi heimssýn sína á trúarriti eða hitt á sérvöldum vísindafræðum (sem ég oft nefni húmanistavísindi) er auka atriði.

Stóra málið er spurningin um sinnuleysi annars vegar og merkingarfræði hins vegar. Fólk segir stundum við okkur sem erum andlega sinnuð, ef við leyfum okkur að efast um eitthvað af hinum augljósu sannindum, að við trúum ekki á vísindin, og þá í vanþóknunartón.

Hinir þóttamiklu virðast oft ekki átta sig á að vísindi eru aðferð sem þú notar en ekki guð til að trúa á.

Yfirleitt verða þeir reiðir, ef hinn andlegi nennir í rökræðu við húmanistabarnið, þegar í ljós kemur að hinir andlegu hafa oft tileinkað sér að rýna betur í vísindin og er farnir að sjá muninn á húmanistavísindum og vísindum, sem oft byggist á getu til að koma auga á vitsmunaleg svarthol.

Trúarleg rit eru yfirleitt samsett í gegnum margra alda endurskoðun og rýni, með það að markmiði að ala á innsæi og íhugun svo komandi kynslóðir geti tileinkað sér menningargildi sem verði sem flestum til góðs. Ef djúpt er rýnt í þau finnur maður út að þau gera ráð fyrir að eitt vald þurfi annað vald til að vega upp á móti sér en að menningin vegar salt á milli þeirra.

Nútímafólk hefur kerfisbundið verið heilaþvegið í margar kynslóðir, af ríkisskólum, til að sniðganga menningarrit af trúarlegu tagi. Niðurstaðan er sinnuleysi almennings og fákunnátta í merkingarfræði. Þeim fer þó fjölgandi sem eru farnir að brjótast út úr heilaþvættinum og farnir að efla hugrekki til að tjá sig um augljós svarthol.

Áður var nóg að hafa fáar stofnanir og tíund. Þá var auðvelt að reka mál fyrir rétti væri á manni brotið og fólk kunni að lesa lög.

Í dag hafa jaðarstofnanir bæði dómsvald og refsivald, eru auk þess fleiri en fólk geti talið upp, og fáir hafa skilning á þeim stöðlum sem þær vinna eftir eða hvaða heimspólitík kemur þeim á.

Ég hvet lesandann til að spyrja sjálfan sig hvort það hafi valdið honum innri tilfinningaviðbrögðum að ég snéri greininni frá gagnrýni á ríkið upp í umræðu um trúarbrögð. Sé svarið jákvætt, hvað hafi komið tilfinningunni inn.

Þá væri áhugavert að spyrja gleggri lesendur hversu mörg stór og fyrnadjúp hugtök koma fram í greininni sem snúa beint að öruggum og ábyrgum tilvistarfræðum hugans en eru á sama tíma svo til óþekkt í huga neytenda. Þá mætti benda á, í þessu samhengi, að ríki er hugmynd en ekki náttúrulegur og óumflýjanlegur veruleiki.

Hvað þá sú fásinna að einungis eitt ríki geti dvalið á sömu grundu á hverjum tíma. Því sé ríki aðeins hugmynd, þá er birting þessi vottun á hugarástandi.

Trúarbrögðin hafa um aldir haldið veraldlegum valdhöfum á mottunni. Þegar okkur er sagt af sagnfræði Húmanismans að hin og þessi stríð mannkynsins hafi verið trúarbragastríð, þá er yfirleitt um svarthol að ræða.

Staðreyndin er sú að áður en sósíalískur húmanismi tók yfirhöndina í heiminum, lauk flestum stríðum með virðingarverðum friðarsamningum og reynt var að forðast í orrustum og hersóknum að fólk léti lífið í stórum stíl.

Reynt var að sinna sjúkum og hungruðum sem flúðu átakasvæði og þegar stríðunum linnti var séð um að veita örkumluðum og foreldralausum húsaskjól, fæði og klæði, og einhvers konar menntun þó ekki væri nema verkmenntun eða aðgengi að verkastörfum.

Þetta er þveröfugt síðan þjóðríkin tóku yfir trúarlíf fólks í nafni sósíalísks húmanisma. Vald trúarbragðanna til að vega salt, hefur verið fjarlægt.

Styrjöldum síðustu tvær aldirnar lýkur nær alltaf með algjöru niðurbroti þeirra landsvæða og ríkja sem tapa, milljónir borgara eru stráfelldar með eldsprengjum og öðrum vítisvélum, fólk rekið á vergang og síðan rifist um það eftirá hvort landflótta fórnarlömb muni raska ró vellystinganna hjá þeim sem sigruðu.

Staðreyndin er sú að þegar ríki er annars vegar þarftu eitthvað hugarafl til að vega upp á móti tilburðum þess til að verða alræðisríki (tyranny) og tilhneigingu þess til að fjölga stofnunum sínum og smeygja sér inn í lífsþætti hjá borgurum sem yfirleitt koma ríkinu ekkert við.

Sé búið að rústa þessu jafnvægi, þá er einnig búið að efla sinnuleysi borgararans og þá er stutt í að menningarrýnarnir verði einfeldningar og vitleysingar í augum almennings, ekki vegna þess að þeir tali kjánalega, heldur vegna þess að hinn almenni maður skilur ekki merkingarfræði og Fíflið hlær að því sem það skilur ekki.

Á síðustu mánuðum höfum við séð dæmi um hvað gerist þegar bæði almenningur og elítan missa fótanna í andlegu tilvistarlífi.

Engin umræða fór fram þegar sett voru á lög um gagnagrunna í fyrra og ritskoðun nú í vor, enginn tók eftir þegar ríkisþingið samþykkti plastpokalög nú nýverið, fáir spurðu spurninga varðandi líffærarán og heiladauða í fyrra og þó rætt væri mikið um barnamorð eftir 12tu viku nú nýverið þá var lítið um hutakagreiningar þar á ferð en mikið af tilfinningum og þó minnst væri á rétt mæðra þá var ríkið að taka þann rétt til sjálfs sín og ekki í fyrsta sinn.

Núna á að setja fram umferðartafa-gjald hjá hinni heilögu trúarstofnun húmanismans og enginn tekur eftir hvernig elíta heimskommúnismans – því það eru engir hægrimenn til lengur – er að missa sig í hömlulausri græðgi, vítaverðum orhengilshætti og algjöru alræði rétthugsunar.

Ef við þurfum að sanna í eitt skipti fyrir öll sinnuleysi almennings þá blasir við umræðan um vegagjald.

Við greiðum fyrir uppbyggingu vegakerfis með eldsneytisgjaldi sem er 50%. Þegar elítan vildi meira, handa nefndum og jaðarstofnunum, þá var sett upp bifreiðagjald, og því lofað að sú tvísköttun væri tímabundin.

Vegagjald hlýtur því að vera þrísköttun en tæplega er það einföld tíund. Tökum annað dæmi um sinnuleysi en það eru nagladekk. Í fyrra var ákveðið að margfalda sektir við notkun nagladekkja eftir tiltekna dagsetningu.

Allir sem hugsa rökrétt vita að það er hámark tvö prósent sinnuleysingja sem nota nagladekk fram yfir téða dagsetningu. Í öllum hópum fólks er tiltekin prósenta fólks sem er óhlýðið og latt eða blankt og fellir sig ekki að réttu félagsmynstri. Gjaldheimturöskun og refsigleði breytir ekki mannlegu eðli.

Það þarf ekki að þyngja refsingar og gjaldheimturöskun, þessi prósenta fer hvergi. Hins vegar þegar elítan missir innsæi og verður hömlulaus, þá hverfur heilbrigð skynsemi, refsigleði eykst, og rétthugsun verður skylda, og fleiri stofnanir verða smíðaðar til að elta atómin. Hafi almenningur á sama tíma verið hvattur til sinnuleysis og geta hans til að rýna í hugsun verið geld, þá hrynur menningin innanfrá.

Að endingu biðst ég velvirðingar ef grein þessi ögraði viðkvæmum tilfinningum.

 

This entry was posted in Heimssýn and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.