Verkfræðin fjögur mörk, Mystíkin eitt

Stundum þegar lygasaga er sögð blasir við manni að að 22 punda laxinn var bara 11. Maður veit að gott fólk þarf að segja góðar sögur og engin væri sagan ef ekki væri salt í henni.

img-coll-0307Stundum er saga sögð til þess eins að breiða út mannorð þess sem segir og stundum endursögð af þeim sem líta á söguhetjuna sem sanna hetju og afbragð samtímamanna.

Yfirleitt tökum við sögum sem skemmtun, stundum sem upplýsingaveitu og stundum sem djúpvitrum boðskap.

Þegar við síðan lesum sagnfræði eða hlustum hlýðin á hana á skólabekk, áttum við okkur um seinan á að sagan var sögð svo að við tryðum á valdamestu glæpamafíuna og litum á reglur hennar sem heilög lög en ekki skipulagða glæpastarfsemi.

Þegar við áttum okkur á þessu síðarnefnda erum við orðin of samdauna lýginni til að skilja eðli hennar: Lýgi sem enginn trúir, byggir engin musteri  s.s. stjórnarráð eða skattstofu og alls enga ríkisskóla.

Á þessum farvegi erum við yfirleitt löngu búin að átta okkur á að trúarbragðafræði er nákvæmlega sama fyrirbæri; sagnfræði sem sannfærir okkur um að vissar sögur séu djúpvitrir sannleikar sem réttlæti valdastofnanir og lygamafíur.

Rétt eins í með húmanista fræðum samtímans þá áttum við okkur of seint á sagnfræði trúarbragðanna; Við erum orðin samdauna lýginni.

Oft erum við þá farin að trúa ýmsum hindurvitnum sem búa í sögunum, farin að tileinka okkur ýmsa táknfræði og farin að móta lífsfarveg okkar í samræmi við Trúna en ekki endilega eftir kreddum Trúarbragðanna sem á henni hvíla.

Hér er þó stigsmunur á. Húmanistaríkin hafa hannað sína ríkisskóla og akademíur þannig að okkur er kennt að draga trúarbragða kreddurnar í efa. Enda valdabarátta í gangi á milli þessara heimssýna. Okkur er sýnt fram á hvernig Húmanista kreddurnar frelsuðu okkur frá hindurvitnum genginna lygamafía og við fengum aðrar betri í staðinn.

Fyrir vikið hefur okkur lærst að efast opinberlega um fyrrnefndar kreddur en eigum erfiðara með hinar síðari.

Í báðum þessum mengjum – sem oft skarast í fallegt Venn mengi – myndast hópar fólks þar sem hver og einn hefur sínar huglægu og yfirleitt heilögu skoðanir á hinu og þessu og meðan við týnumst í argaþrasi málefnanna, endar valdamesta mafían á að lokka af okkur atkvæðin þar sem við plokkum út fyrirframgefna rétti af matseðli kjörklefans.

Nú er ekki ætlunin hér að fara ofaní hvort ein trúarbrögð séu betri og sannari en önnur, ekki heldur að vega og meta alls kyns heimspekilegar útlistanir á sannleikum húmanismans sem tröllríður samtímanum.

Frá sjónarhóli Eingyðistrúarinnar er bara einn sannleikur, Skaparinn, og allt annað – við meðtalin – er lýgi.

Áherslan hér er leikurinn – sem margir menningarrýnar hafa útlistað, þeirra þekktastur var Alan Watts – en það er sú hugmynd að öll frumspeki Homo Sapiens (okkar) sé í rauninni eins konar fótboltaleikur. Ef þú fellur í þá gryfju að plokka út einstaka sannleika í fótboltamótinu, verður þér fleygt á bekkinn, ef ekki upp í pallana.

Til að þú skiljir leikinn þarftu að geta séð hvernig blekkinga mynstrin og tælingarnar fara fram. Langar mig í þessu samhengi að benda á eina leikfléttu sem blasir við um leið og á hana er bent en sést ekki fyrr en það, þó hún sé fyrir allra augum.

Þegar frímúrarinn Konstantín keisari ákvað að gera Míþrasartrú að ríkistrú í Rómaveldi, og máta Nasarena með einföldu rothöggi, fékk hann snilldarhugmynd.

Hann endurnefndi Patríarka trúna – sem Míþrasartrúin var oft nefnd á þeim tíma – og nefndi hana Kristni. Nasarenar var fólk sem leit á sig sem bæði umskurna og óumskurna gyðinga sem fylgdi kennslu spámannsins Jósúa Maríusonar frá Nasaret.

Fræðimenn í hebratrú og afsprengi hennar gyðingatrú og margir lærðir spekingar sem höfðu lagt stund á heimspeki, náttúrufræði, stærðfræði, mengja- og hlutfallafræði, svo og málvísindi, vissu vel að Míþrasartrúin var svo ólík Eingyðingstrúnni að blekkingin myndi ekki seljast í einu vetvangi. Meira þyrfti að koma til.

Lagt var upp með að safna saman helstu sögunum sem gengu manna á milli innan Nasarena samfélagsins um gjörvallt Rómverska heimsveldið – en frásögurnar töldust á milli fjörutíu og fimmtíu – og vinsa úr þeim það helsta.

Markmiðið var að geta samtvinnað frásögur af lífsgöngu Jósúa Maríusonar samanvið mystíska guðfræði Míþrastrúarinnar og gera það á eins sannfærandi hátt og hægt var.

Tilgangurinn að fólk myndi tilbiðja Míþraska líkneskið en halda að það héti Jesús Kristur.

Þar sem sögurnar voru margvíslegar og margar djúpvitrar og þar sem mýtusaga eingyðgistrúarinnar sjálfrar ásamt mystískum hefðum hennar er slík að hver sá sem þræðir þrönga einstigið­ sér fljótt að óbragð er af mysunni, þá var ákveðið að hræra þetta saman í bræðing sem auðvelt væri að selja með öflugum áróðri (propaganda) með sterkri táknfræði (semiologia).

Settar voru fram fjórar almennar frásögur sem í aðalatriðum eru samstíga en nægilega frábrugðnar til að þær virka á mann eins og þær séu sakleysislegar en einlæglega unnar frásögur manna sem þekktu vel til efnisins sem fjallað er um. Aftan við sögurnar kemur síðan vandlega unnin heimspekileg guðfræði, sem unnin var af einhverjum helsta fræðimanni Farísea á þeim tíma.

Fyrir vikið var úr nógu að moða á samkomum og við lestur, svo blekkingin skoraði fjögur mörk og mystíkin eitt mark og það dugði til að selja Loftslagsvísindin kyrfilega.

Enginn fattaði að það er bara ein frásaga af Móse, ein frásaga af Davíð*, ein frásaga af Daníel, ein Opinberunarbók, eitt eintak af Sálmunum, eitt eintak af Orðskviðunum, ein frásaga af Evu og kærastanum hennar, og að þau eintök eru öll samstíga mystík eingyðistrúarinnar, en Míþrasar-frásögurnar fjórar eru undarleg samsuða með blöndu af villusetningum og sönnum.

* Frásögurnar af Davíð eru tvennar, en þær eru kyrfilega samstíga og ekki í neinni togstreitu innbyrðis.

Rétt er að taka fram áður en það misskilst, að í mínum huga og í minni trú, er Jósúa Maríuson einn öflugasti spámaður eingyðingstrúarinnar – og að mínu mati smurður messías – og ég ber mikla virðingu fyrir ævistarfi hans. Sömuleiðis virði ég öll trúarrit trúar minnar, því sem næst takmarkalaust.

Ég er hins vegar fær um að sjá muninn á villusetningum sem Meitlarar hafa sett inn í sem misþýðingu (Lost in translation) eða sönnum setningum sem leiða mig frá skurðgoðum og egóisma að kjarnmikilli fræðslu Skaparans sjálfs. Þegar maður sér verkfærðina skora villumörk þá rýnir maður betur eftir kjarnafæðinu og þjálfast í að henda skyndibitunum.

Þegar ég segi Trúarrit trúar minnar, legg ég að jöfnu Göþur (Gathas) Zaraþústra, Tóruna og Tanakh’ið (Gamla testamentið), Nýja testamentið, og Kóraninn. Öll þessi rit boða hið sama – tilbeiðslu á skaparanum og eyðileggingu skurðgoðanna – og hvetja til yfirvegaðs trúarlífs þar sem hinn trúaðir ræktar hug sinn og andlega heilsu í takt við samræmi Skaparan.

Sem fyrr segir – þó maður beri virðingu fyrir ritunum og þeim hefðum sem þau hvíla á – og þó þau hafi kennt manni margt og þó maður sé rétt að byrja á yfirborðinu, þá er maður fær um að sjá muninn á misþýðingum og sannindum.

Stundum tekur það mörg ár að læra og það er jú eitt af því skemmtilegasta við einlægt trúarlíf, að í hvert sinn sem maður heldur að maður viti eitthvað þarf maður yfirleitt að byrja aftur á byrjuninni.

 

 

This entry was posted in Heimssýn and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.